Um stjórnlagaþing

Framundan eru kosningar til stjórnlagaþings. Í framboði eru ekki nema 525 einstaklingar, en hver sem hyggst kjósa skal velja 25 af þeim, sem hann telur að hafi gildi lík sínum eigin. Hann er vissulega bara að kjósa þann sem mest þarf á atkvæði hans að halda, velur í raun bara einn, en engu að síður er ætlast til að hann velji 25 einstaklinga. Á dögunum barst mér blað sem á að kynna mér frambjóðendurna. Nafn og mynd fylgir hverjum og einum frambjóðanda, ásamt upplýsingum um menntun og starfsreynslu. Svo gefst hverjum frambjóðanda færi á að skrifa lítinn texta um ástæður þess að viðkomandi býður sig fram til setu á stjórnlagaþinginu.

Það er ekki auðvelt verk að ætla sér að fylla upp í þennan 25 manna kvóta sem okkur er gefinn. Þegar lesið er um ástæður framboðs viðkomandi getur verið nokkuð erfitt að átta sig á stefnumálum hans, þar sem oft á tíðum er um að ræða texta, sem settur hefur verið saman til að höfða til sem flestra. Sumir láta í ljós einhver af stefnumálum sínum, en stundum er það bara alls ekki gert.

Ég hefði getað valið úr fjölda frambjóðenda, en hér er ágætt dæmi:[1]

Stjórnarskrá hvers lands er grunnur lagasetningar, lýðræðis og réttinda íbúanna. Eins og önnur mannanna verk þarf að vera hægt að aðlaga hana breyttum áherslum og breyttum aðstæðum sem verða í tímans rás. Ganga þarf úr skugga um að breytingar á henni séu mögulegar en bylting erfið. Allt frá því við fengum stjórnarskrána hafa breytingar á henni reynst Alþingi og stjórnvöldum erfiðar og í sumum tilvikum ómögulegar og því nauðsynlegt að koma á sérstöku stjórnlagaþingi.

Ég vil leggja mitt af mörkum við uppbyggingu þess þjóðfélags sem reisa á í kjölfar hruns þess er varð haustið 2008 og tel að ég þjóni því best með því að taka þátt í gerð hinnar nýju stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.

Það er alls ekki ætlun mín að gera lítið úr viðkomandi frambjóðanda, en á hann virkilega von á að afla sér margra atkvæða út á þennan texta? Ég veit vel hvað stjórnarskrá er og hvaða hlutverki hún þjónar. Ég veit líka að erfitt á að vera að breyta henni, það er tryggt með 79. grein. Á hverju ári frá 1976 hafa verið settar fram tillögur að breytingum á stjórnarskránni. Afdrif þeirra flestra er að daga uppi óútræddar, en fjórar þeirra hafa verið samþykktar. Möguleikinn á að breyta henni er því klárlega til staðar, og ekki þarf að kosta neinu stjórnlagaþingi til. Dægurþras, duttlungar og tískubólur hafa heldur ekkert í stjórnarskrána að gera, og því hefur það oft og á að reynast stjórnvöldum erfitt að breyta henni. Ég veit ekki til þess að neitt stjórnlagaþing hafi þurft til þess áður, heldur hefur það verið í höndum stjórnmálamanna, sem til þess eru kjörnir og eiga að hafa atvinnu af því að setja lög og breyta stjórnarskrám. En þeir hafa ekki þor, líkt og birtist okkur augljóslega þegar kemur að einu helsta stefnumáli núverandi ríkisstjórnar um fyrningarleiðina svokölluðu.

Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar vita að almenningur er lítt hrifinn af núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, enda virðist fólk halda að það hafi verið svipt einhverjum réttindum sem það hafði ekki áður. Það trúir því jafnvel að það hafi verið rænt um hábjartan dag. Enda kemur þetta glögglega í ljós þegar gluggað er í snepilinn, helsta stefnumál margra virðist vera að binda þjóðareign á auðlindum í stjórnarskrá.

Og hvað heldur fólk? Að þegar slíkt ákvæði er komið í stjórnarskrána geti það hugsanlega bara sest í helgan stein eins og einhverjir af fyrrum kvótaeigendum hafa nú þegar gert? Að það muni fá eignarhlut sinn í auðlindinni greiddan frá þeim sem ætlar að veiða fiskinn og sjá um að skapa allan arðinn? Eða heldur fólk virkilega að rentan af sjávarútvegi, eða öðrum auðlindum, sem skilar sér aukalega í ríkissjóð muni skila því betri lífskjörum. Þessum spurningum er bara hægt að svara á einn hátt; neitandi!

Gefum okkur dæmi: Ísland er ónumið land. Ég nem landið, fyrstur manna og eigna mér jörð sem hæfir mér og er nóg til að sjá fyrir mér og fjölskyldu minni. Tíminn líður og brátt eru allar jarðir á Íslandi numdar og því ekki hægt að yrkja fleiri. Jarðirnar eru allar í einkaeigu, þó svo að slíkt hafi ekki verið raunin hér áður fyrr. Það kann vissuleg að hafa virst mjög ósanngjarnt hlutskipti fyrir þann sem kom næstur á eftir þeim sem nam síðasta skikann að fá ekki neina jörð. En við vitum nú að honum var enginn óleikur gerður, líkt og John Locke bendir á í bók sinni, Ritgerð um ríkisvald:[2]

Sá, sem slær eign sinni á land með vinnu sinni, minnkar ekki, heldur eykur sameiginleg föng mannkyns, því sá afrakstur, sem fæst af einni ekru afgirts ræktarlands og gagnast mönnum til viðurværis, er – svo ég dragi nú heldur úr en ýki – tíu sinnum meiri en sá afrakstur, sem fæst af ekru jafngóðs lands, sem liggur ósáð í almenningi.

Þó svo að menn taki eitthvað úr hendi náttúrunnar til að nýta í eigin þágu, þurfa þeir ekki endilega að skerða hag annarra. Þó svo þeir hafi tekið ákveðin tækifæri frá öðrum, sköpuðust önnur betri, eða jafngóð í staðinn. Þetta má best sjá með því að ímynda sér ónumið land. Hvort myndir þú vilja setjast að á Íslandi fyrir 1000 árum, eða nú í dag?

Land er auðlind. Vissulega misjafnlega gjöful auðlind, en auðlind engu að síður. Engum dettur samt í hug að slíta jörðina af réttmætum eigendum sínum og skipta ágóða hennar upp á milli þjóðarinnar. Engum dettur heldur í hug að leggja sérstakan skatt á bændur vegna gæfu þeirra að eiga landskika, þó svo vissulega hafi slíkar hugmyndir verið uppi.[3] Bændur eru, enda stærstu styrkþegar skattkerfisins og eru því lítt aflögufærir. Engum dettur í hug að tengja saman stjórnarskrárákvæði um þjóðareign á auðlindum við jarðir bændanna í landinu. Ef slíkt stjórnarskrárákvæði gerði okkur kleyft að biðja sjávarútvegsfyrirtækin um að skila kvótanum, hlyti það að þýða að við gætum farið fram á það sama við bændurna.[4] Ekki? Nei, þú sérð það líklega núna hversu ótrúlega heimskuleg þessi hugmynd er. Það er nefnilega mjög ólíklegt að afkomandi minn búi enn þann dag í dag á landinu sem ég nam í fyrndinni. Landið hefur gengið kaupum og sölum og um það gildir eignarréttur sem er varinn í stjórnarskrá. Kvótinn hefur gengið kaupum og sölum og því er líklegt að eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar gildi einnig um hann. Ef til fyrningarleiðarinnar kæmi þyrfti að greiða handhöfum kvótans skaðabætur fyrir tap sitt, þær skaðabætur kæmu úr vösum skattgreiðenda. Að öllum líkindum yrði því lítill ágóði fyrir almenning af þessari aðgerð.

En afhverju bauð ríkið kvótann ekki upp? Vegna þess að þá hefðu einungis þeir stöndugustu í greininni náð að kaupa/leigja sér kvóta. Þar með hefði lífsviðurværi fjölda manns verið kippt undan þeim með einu pennastriki. Þeir sem einu sinni máttu stunda sjóinn án nokkurra takmarkana, mættu það ekki lengur. Líklegt verður að teljast að ríkið hefði orðið skaðabótaskylt gagnvart þessum aðilum.

Afhverju innheimtir ríkið ekki rentu af handhöfum kvótans? „Enga augljósa eða brýna hagræna nauðsyn ber til skattsins, enda er núverandi kvótakerfi í aðalatriðum hagkvæmt, heldur liggur honum að baki það sjónarmið, að óréttlátt sé, að útgerðarmenn hirði sjávarrentuna í stað þess, að hún renni í ríkissjóð,“[5] segir Hannes Hólmsteinn Gissurarson.

Þeir sem vilja fara þá leið að ríkið leigi út kvótann, ofmeta virði hans. Virði hans á frjálsum og opnum markaði er mun meira en ef kvótinn væri í eigu ríkisins. Úgerðarmenn hefðu t.d. ekki hag af því að heildarafli væri ákvarðaður eins og hagkvæmast væri, heldur myndu þeir beita áhrifum sínum til þess að aflinn væri ákvarðaður mun hærri. Fólk hirðir um það sem það á, en mun síður um það sem það á ekki. Afleiðingarnar yrðu óhagkvæmari veiðar og lægri heildartekjur, en ef kvótinn væri í einkaeign.  Hannes tiltekur fleiri rök í bók sinni, en óþarfi er að nefna þau öll hér.

Þar sem erfitt reyndist fyrir menn að girða hafið af, réru þeir til fiskjar sem vildu róa. Framan af gekk þessi hugmynd vel upp, enda notuðum við árabáta við veiðarnar í fyrstu. Eftir því sem tækin urðu afkastameiri varð mönnum ljóst að ofveiði var staðreynd, þar sem um ótakmarkaða sókn á miðin var að ræða. Við getum rétt ímyndað okkur ástand landsins ef allir Íslendingar gerðu jafnt tilkall til allra jarða og við hefðum allt í einu rúmlega 300.000 bændur. Ein afleiðingin yrði sú að fæstir gætu séð sér farborða, nema með mjög lökum kjörum enda margir einstaklingar um mjög takmörkuð gæði. Önnur yrði sú að jarðirnar yrðu fljótlega óræktanlegar. Frjóasta land veraldarinnar, frjói hálfmáninn, varð að eyðimörk. Takið eftir hve líkar afleiðingarnar eru með ótakmarkaðri sjósókn og óheftri nýtingu lands. Hér var sjávarútvegur lengstum á vonarvöl, og þurfti lengi vel að greiða með honum í formi vitlausrar gengisskráningar, auk þess sem gengið var reglulega fellt, með tilheyrandi verðbólgu og öðrum kostnaði sem almenningur þurfti að bera, m.a. gjaldeyrishöft og fyrirgreiðslupólík sem þeim fylgdi.

Meira að segja Valdimar Hergils jóhannesson, læknir, viðskiptafræðingur og stjórnlagaþingsframbjóðandi, virðist ekki skilja jafn einföld rök og ég hef sett hér fram. Samt er hann eldri en tvævetur, fæddur árið 1941, og ætti því vel að muna eftir haftaárunum sem hér voru við líði. En kannski er hann búinn að gleyma, eða tengir þetta tvennt ekki saman.[6] Þegar loks hefur verið komið á einu arðbærasta sjávarútvegskerfi sem fyrirfinnst, er almenningur ósáttur vegna þess að einhverjum þurfti að „gefa“ kvótann, líkt og einhverjir fengu jarðir sínar án þess að greiða nokkra fjármuni fyrir þær. Okkur dettur samt ekki til hugar að landnemarnir hafi stolið einhverju, enda greiddu þeir í raun fyrir jarðir sínar með vinnunni sem þeir lögðu til við ræktun þeirra, líkt og John Locke bendir á. Að sama skapi höfðu þeir sem fjárfest höfðu í tækjum og tólum til veiða, og lagt vinnu til við að sækja sjóinn greitt fyrir afnot sín af auðlindinni. Þeir höfðu, líkt og landnemarnir sem numdu land og ræktuðu, „numið“ hafið og lagt rækt sína við það.

Það vita það allir sem vilja vita að stjórnarskráin okkar orsakaði ekki það hrun sem hér varð árið 2008. Þó svo Þorvaldur Gylfason telji að veðsetning kvóta hafi verið upphafið af öllu því slæma sem hér gerðist, þá er sú hugmynd ansi langsótt. Veðsetning kvóta gerði bönkunum ekki kleyft að stækka jafnmikið og raun bar vitni. Veðsetning kvóta var ekki ástæða vaxtahækkanna Seðlabankans, sem gerði það að verkum að erlent fjármagn streymdi hingað til lands, enda vextir þá í söguleg lágmarki erlendis. Því miður var það þó svo að bankarnir þurftu að láta þetta erlenda fjármagn vinna fyrir vöxtunum sem þeir þurftu að skila til eigenda þess, og því var það svo að sjávarútvegsfyrirtæki tóku lán til kaupa á hlutabréfum í bönkum. Þó svo ábyrgðin liggi að stærstum hluta hjá stjórnendum fyrirtækisins, þarf enginn að velkjast í vafa um að bankinn átti þarna hlut að máli. Hugmyndin hefur að öllum líkindum ekki komið fram einhliða á stjórnarfundi sjávarútvegsfyrirtækisins; „Hvernig væri að splæsa í hlutabréf fyrir milljarð og taka bara lán fyrir því?“

Það vita það líka allir sem vilja vita að ný og endurbætt stjórnarskrá kemur ekki í veg fyrir að slíkt hrun endurtaki sig, enda verður varla sett ákvæði í stjórnarskrá sem beinlýnis bannar hrun. Sú staðreynd, að stjórnvöld ætla að eyða fleiri hundruð milljónum til að halda stjórnlagaþing, þegar skera þarf jafn mikið niður á sviði heilbrigðismála og raun ber vitni, er gott dæmi um forgangsröðun velferðarstjórnarinnar, setta fram til að slá ryki í augu fólks.

Uppbygging þjóðfélagsins verður ekki vegna breytinga á stjórnarskránni í kjölfar hrunsins árið 2008. Við hefðum vel getað komið okkur upp úr þeim þrengingum sem að okkur steðja án þess að til stjórnlagaþings hefði þurft að koma. Og í raun er þetta þing ekki til neins annars fallið en að tefja uppbygginguna. Sá sem vill stuðla að uppbyggingu þjóðfélagsins, reisa börnum okkar og afkomendum vænlegt samfélag að búa í, vinnur þá vinnu sem honum er best fallið til að vinna, eða nýtir þekkingu sína og hugmyndir til að búa til störf til handa þeim sem hafa þau ekki nú þegar.

Það var ætlun mín í upphafi að skrifa um hversu flókið það væri fyrir kjósendur að velja fólk á lista fyrir þetta stjórnlagaþing. Ég villtist örlítið af leið, en ég vona að það komi ekki að sök. Pistillinn hefði orðið alveg jafn leiðinlegur...


[1] Tryggvi Magnús Þórðarson, frambjóðandi til stjórnlagaþings.

[2] John Locke: Ritgerð um ríkisvald, 37. bls.

[3] T.d. hugmyndir um landskatt sem kenndar eru við Henry George.

[4] Reyndar setti einn áhrifamesti frjálshyggjumaður 19. aldar, Herbert Spencer, fram hugmynd um landeigendaskipti, í bók sinni Stjórnmálaskipulag. Í henni fólst að ríkið myndi taka jarðirnar af eigendum sínum og leigja þær út. 40 árum síðar hafði Spencer svo skipt um skoðun.

[5] Hannes H. Gissurarson: Fiskar undir steini 113. bls.

[6] Það er líklega kaldhæðni örlaganna, en Tryggvi er fyrrum starfsmaður skipadeildar Sambandsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband