Af millifærslum

Hvernig ætli það sé að standa í fyrirtækjarekstri, og þurfa sífellt að hafa áhyggjur af því hvort ríkið eða sveitarfélagið komið þér til bjargar? Að þurfa í sífellu að betla peninga frá hinu opinbera? Peninga sem fengnir eru frá skattgreiðendum, annaðhvort í formi skatta, eða með peningaprentun, sem þá leggst sem óbeinir skattar á almenning í formi verðbólgu.

Tónlistarkennarar standa í verkfalli um þessar mundir, og til að fá einhverja samúð (því megnið af henni virðist lenda hjá læknunum, sem eiga í kjarabaráttu á sama tíma), er rokið í fjölmiðla og því lýst yfir að ef ekki fáist meira fé frá hinu opinbera, vofir gjaldþrot yfir tónlistarskólum. 

Það er nefnilega það. Og auðvitað eiga hinir samviskusömu stjórnmálamenn að rjúka til, þegar menningarelítugrátkórinn byrjar. Auðvitað munar hverjum og einum manni lítið um nokkra hundraðkalla, en það er alveg sjálfsagt að hirða þá af honum til að fjármagna listamenn framtíðarinnar, því skapandi listir gefa svo mikið af sér. Sumir telja jafnvel, að fyrir hverja eina krónu sem sett er í kvikmyndir, komi tvær til baka. Skrítið að við skulum bara ekki leggja allt okkar fé til kvikmyndagerðar og verða þannig ríkasta þjóð heims áður en við vitum af.

Hvaða sérstöku rök liggja á bak við þær ákvarðanir að ríkið, eða sveitarfélögin, þurfi að koma nálægt rekstri tónlistarskóla? Afhverju á Jói verkamaður að borga undir tónlistarkennslu dóttur Sigga sjómanns? Hvaða réttlæti er fólgið í því?

Sjá ekki allir, að ef skattar myndur lækka, og fólk hefði meira milli handanna, gæti hver sem er leyft sér að senda börn sín í tónlistarnám, ef þeim sýndist svo? Það þarf engan millilið, eins og hið opinbera til þess. Enda sótti ég gjarnan píanótíma hjá einyrkjum á minni tíð, og undi mér ágætlega. Og þá var ekki verið að hafa miklar áhyggjur af aðkomu ríkisins.

Hættum þessum fáránlegu millifærslum, til íþróttafélaga, til tónlistarkennslu o.s.frv. Lækkum skatta og leyfum fólki að taka ákvarðanir fyrir sig sjálft án aðkomu ríkisvaldsins. Tónlistarskólar munu ekki leggjast af, og það verða ekki bara hinir efnuðu sem kæmu til með að hafa efni á tónlistarnámi fyrir börnin sín. Ríkið er meinsemdin, og veldur því að tónlistarnám er dýrara en það þyrfti að vera. Ríkið er aldrei bjargvættur, líkt og margir telja sér trú um.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband