Um jafnrétti

Einkarekið fyrirtæki auglýsir tvær lausar stöður. Starfsheiti, skyldur og  ábyrgð eru þær sömu. Umsækjendur eru krafðir um háskólamenntun. Fjöldi fólks sækir um, enda atvinnuleysi umtalsvert. Eftir viðtöl lýst atvinnurekandanum best á tvo umsækjendur, af sitthvoru kyninu. Samningar takast við þau bæði í öllum atriðum, en svo spyr atvinnurekandinn um hvað hvort um sig vilji fá borgað fyrir vinnu sína. Bæði svara þau því sama, 400.000 krónur á mánuði. Atvinnurekandinn segir við stúlkuna að það sé ekki alveg sú tala sem hann hafði í huga, en hann er tilbúinn að borga henni 370.000 krónur á mánuði. Samningar takast og stúlkan er ráðin í starfið. Atvinnurekandinn sér hins vegar ekkert athugavert við að greiða drengnum 400.000 krónur og samningar takast með þeim án frekari viðræðna um laun.

Þessi ótrúlega saga er tilbúningur, en engu að síður er til fólk sem trúir því í algjörri blindni að þetta sé það sem á sér stað í viðtalsherbergjum, þegar atvinnuviðtöl fara fram. Til eru opinber ráð sem hafa það að markmiði að jafna launamismun kynjanna, sem samkvæmt könnunum, er umtalsverður. Jafnframt eru til stjórnmálaflokkar sem trúa því að svipaðar sögur, og hér að ofan er greint frá, eigi sér stað. Að lokum eru svo til samtök sem berjast af krafti fyrir jafnri stöðu kvenna í samfélaginu, og gegn því að svona sögur eigi sér stað.

Og þetta fólk hefur lög að mæla þegar það segir að kynin eigi að vera jöfn. Stjórnarskráin okkar mælir svo fyrir að bannað sé að mismuna á grundvelli kynferðis. Stjórnarskráin okkar segir hins vegar ekkert um það að hver einstaklingur eigi að vera jafn þeim næsta. Hið opinbera á í örlitlum vandræðum þegar kemur að þessari umræðu. Því er vissulega skylt að ráða hæfasta einstaklinginn í starfið, en þarf á sama tíma að gæta jafnréttis. Ef hið opinbera hefði verið atvinnurekandinn í frásögninni hér að ofan hefði umrædd stofnun orðið að taka tillit til kynferðis umsækjendanna. Ef starfsmenn stofnunarinnar væru allir karlmenn, hefði stofnuninni verið skylt að ráða kvenmann. En sú staða hefði getað verið uppi að fimm hæfustu umsækjendurnir væru allir karlmenn. Við getum vel sett dæmið upp á hinn veginn, það skiptir ekki máli rökræðunnar vegna. Er þá ekki komin upp sú staða að karlmanni hefur verið mismunað, eingöngu vegna þess að hann er karlmaður. Ástæðan fyrir því að hann var ekki ráðinn í starfið er ekki sú að hann var ekki hæfastur, heldur sú að hann er karlmaður. Eru kvenmenn virkilega sáttir við að vera ráðnir bara fyrir það eitt, að þær eru konur? Ég veit að ég væri ekki sáttur við að vera ráðinn í starf vegna kynferðis míns, ef ég vissi að aðrir væru hæfari en ég. Slíkt er lítillækkandi.

Konur eru í engu síðri starfsmenn en karlar. Hæfni snýst um einstaklingsbundna eiginleika og hæfni. Konur eru umtalsvert fleiri í háskólum landsins, þær eru samviskusamar, áhættufælnari en karlar, og búa yfir fullt af öðrum ágætum kostum. Kona er samt ekki hæfari en karl bara fyrir það eitt að vera kona. Þó kynin séu mismunandi að upplagi er það fyrst og fremst hæfileikaríkasti einstaklingurinn sem atvinnurekandinn vill ráða til sín í vinnu, hvort heldur sem um er að ræða konu eða karl. Í því felst mestur ávinningur fyrir fyrirtækið, starfsmaðurinn kemur með aukna þekkingu, afkastar meiru og bætir þannig samkeppnishæfni fyrirtækisins á markaði. Kona með góða menntun og reynslu er verðmætur og eftirsóknarverður starfskraftur, engur síður en karlmaður með sömu menntun og reynslu. Ef atvinnurekandi sér fram á að konan geti afkastað til jafns á við karl, sem ég dreg alls ekki í efa, á sömu unnu tímum væri algjörlega fráleitt að hann færi eins að og lýst er í frásögninni hér að ofan. Það eru fáir svo vitlausir að hugsa með sér, að konum muni þeir einungis bjóða hluta þeirrar upphæðar sem í boði er fyrir karlmann. Meira að segja hugmyndin er út í hött, þó svo hugsanlega megi finna misjafnan sauð í mörgu fé.

Í grein Vefþjóðviljans, þriðjudaginn 26. Október síðastliðinn ritar pistlahöfundur:

Það er líka gegn allri almennri skynsemi að konum sé greitt lægra kaup en körlum fyrir sama vinnuframlag. Væru aðstæður þannig myndu einhver fyrirtæki einfaldlega sjá sér þann leik á borði að ráða bara konur, bæta þeim launamuninn að mestu leyti en hafa samt forskot á önnur fyrirtæki í launakostnaði. Nema kvennahreyfingunni og jafnréttisstofunum hafi með áróðri sínum tekist tekist að gjaldfella vinnukrafta þeirra.

En þá kann hugsanlega einhver að spyrja afhverju kannanir sýni launmuninn sem konur eru að mótmæla? Helgi Tómasson prófessor í tölfræði við Háskóla Íslands skýrir þetta vel í grein sem birtist í 2. hefti Þjóðmála árið 2006.[1]

Dæmi um mæliskekkju sem er algeng í launakönnunum er mæling á stöðu starfsmanns, þ.e. hvort hann er flokkaður sem yfirmaður eða undirmaður. Í launakönnunum Hagstofu (áður Kjararannsóknarnefndar) hefur legið fyrir að í launbókhaldi er fjöldi yfirmanna flokkaður sem undirmenn og einnig kemur fyrir að undirmenn séu flokkaðir sem yfirmenn. Svona villa bjagar mat á meðallaunum bæði yfirmanna og undirmanna. Þar sem yfirmannshlutfall er misjafnt eftir kynjum verður bjögunin misjöfn eftir kynjum. Gerum ráð fyrir að yfirmenn hafi tvöföld laun undirmanna og að líkur á að yfirmaður sé ranglega flokkaður sem undirmaður séu 30% og að undirmaður sé ranglega flokkaður sem yfirmaður séu 5%. Gerum einnig ráð fyrir 30% karla séu yfirmenn og að 5% kvenna séu yfirmenn. Þessar tölur eru raunhæfar miðað við það sem var í úrtaki Kjararannsóknarnefndar á árunum 1986-1990 fyrir skrifstofufólk. Með reglu Bayes (líkindafræðiregla) um skilyrtar líkur er hægt að sjá að bjögunin sem af þessu hlýst er þannig að karlkyns undirmenn virðast hafa ca. 10-12% hærri laun en kvenkyns undirmenn og að karlkyns yfirmenn virðast hafa ca. 30% hærri í laun en kvenkyns yfirmenn. Bjögun af völdum flokkunarskekkju fer því langt með að skýra þann mun sem hefur stundum verið á tímakaupi skrifstofufólks eftir kynjum í úrtaki Kjararannsóknarnefndar.

Og Helgi bætir við:

Ljóst er að mikið af mældum launamun er vegna hegðunar þeirra kynslóða sem nú eru á vinnumarkaði. Í sumum núlifandi kynslóðum er stór hluti kvenna sem hefur miklu minni reynslu á vinnumarkaði en karlar. Augljóst er að tölfræðilíkan sem ætti að skýra allan vinnumarkaðinn fyrir allar núlifandi kynslóðir er flókið. Einföld líkön gefa bjagaða mynd og leiða til þess að fólk hrapar að alröngum ályktunum. Það er ljóst að hugsanlegt misrétti milli kynja eða kynþátta getur ekki skipt mörgum prósentum. Sömuleiðis er afar ósennilegt að menn hafi myndað samtök um að stunda mismunum sem bitnar á heilum hóp.

[...]Slíkt getur hins vegar ekki viðgengist til lengdar í markaðskerfi og alls ekki í slíku mæli að dugi til að hreyfa til meðaltal stórs hóps. [...]Á Íslandi hafa verið nefndar tölur á bilinu 65%-90% allt eftir því hvers konar tölfræði líkön eru notuð. Fyrir marga einsleita hópa eru prósenturnar jafnari en ótrúlega einföld líkön virðast skýra mjög mikið. Eðlilegt og sjálfsagt er að efast um þessar tölur. Þeir sem eru að fara út í fyrirtækjarekstur á Íslandi ættu ekki að láta sig dreyma um að reyna að borga konum lægri laun og ætlast til sömu afkasta.


[1] Hér eftir Vefþjóðviljanum; andriki.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband