Lausnarorðið er frelsi

Allir eru sammála um að einokun sé af hinu slæma, en engu að síður finnst fáum nokkuð athugavert við það að ríkið skuli einoka jafnmörg svið þjóðlífsins og raun ber vitni, það gerir jafnvel kröfu um þessa einokun, sérstaklega á sviði heilbrigðis- og menntamála.

Og ekki nóg með að ríkið ákveði framboðshluta þjónustunnar sem það veitir, það ákveður jafnframt hvað rukkað skuli fyrir hana. Og fólki finnst einhvern veginn að svona einokun sé í lagi, því okkur er innrætt, af ríkisreknum menntastofnunum, að ríkið sé gott, jafnvel óskeikult. Og ef eitthvað fari úrskeiðis, sé ríkið best til þess fallið að leysa vandamálið. En það sem flestir gera sér ekki grein fyrir er að kerfið, sem komið hefur verið á fót, víðast hvar með valdi í nafni ríkisins, er uppspretta vandamálsins. Því þykir það nokkuð kyndugt, þegar í sífellu heyrast raddir óma í samfélaginu, sem krefjast þess að ríkið bæti úr vandamálinu sem það skapaði sjálft. Þeir sem helst eru háværastir, virðast álíta að ef einungis rétti mannskapurinn veljist til starfans muni hlutirnir leysast farsællega.
Ekkert gæti verið fjær sanni. Það skiptir engu hver fer með völdin, hvort það er mjög hæfur einstaklingur, hvort hann er auðmjúkur, hvort hann meini vel, jafnvel hvort hann telji sig til hægri eða vinstri.

Ástæðan er sú að þegar hann hefur flækst í vef kerfisins, er hætt við því að hann komi aldrei til með að breyta því svo nokkru nemi. Allar hugmyndir um slíkt mæta harðri andstöðu frá kerfinu sjálfu, og þeim sérhagsmunaöflum sem ráða og hafa hvað mest áhrif á stjórnmálamennina.

Menn geta haft göfugar hugmyndir og háleitar, en um leið og þeir verða hluti af kerfinu, er þeim gert ljóst að í engu verður hvikað og völd verða seint látin af hendi. Ekki bara völdin sem þeir hafa sjálfir, heldur einnig þau völd sem stórir leikendur hafa, s.s. bankar, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök. Og stjórnmálamennirnir ganga jafnvel svo langt í þessari viðleitni sinni, að þeir eru tilbúnir til að reka ríkissjóð með halla og skuldbinda þar með komandi kynslóðir, sem hvorki fengu að njóta þeirra verka sem skuldsett var fyrir, né höfðu þær nokkuð (augljóslega) um málið að segja, svo þeir fái notið þess að sitja á notalegum stólum sínum eitt kjörtímabil í viðbót, með lítil sem engin tengsl við þá sem kusu þá. Því á þeim hraða sem nú er á lækkun skulda ríkissjóðs, verða þær að fullu greiddar eftir einhver 500 ár. Einhverjum þætti slíkt afrek, sér í lagi þeim sem álíta stjórnmálamennina vinna verk sín í þágu almennings. En það er tómur misskilningur, því öll þeirra verk bera kostnað sem einungis einn greiðandi er að; nefnilega umbjóðandinn sjálfur.

'Ríkið er sú hugmynd að allir geti lifað frítt á kostnað annarra'


Nú er svo komið að skuldir ríkisins nema rúmlega 6 milljónum á hvert mannsbarn. Skuldir bæjarfélagsins Reykjanesbæjar og ríkisins nema um 20 milljónum á hverja fjögurra manna fjölskyldu bæjarfélagsins. Þetta eru ótrúlegar tölur. Margir telja að þeir komi til með að eiga fullt í fangi með að greiða af eins og einu húsnæðisláni, og endist jafnvel ekki einu sinni ævin til, þó svo að þeir telji að þeir verði jafn gamlir og flestir hinir. En jafnvel þó svo sé komið, að ríkinu, ásamt sveitarfélaginu, hafi tekist að bæta öðru sæmilegu fasteignaláni við uppgjör vísutölufjölskyldunnar, nánast eins og bíræfnir þjófar að hábjörtum degi, er það fyrsta sem fólk hugsar; 'hvernig ætlið þið að bjarga mér?'

Hvarvetna er það innprentað í okkur að faðmur ríkisins sé heitur og mjúkur, alltumlykjandi og eigi að koma okkur til aðstoðar þegar illa árar. En að ætlast til þess og vona, er líkt og að bíða eftir þeim sem kveikti í til að koma og slökkva; algjörlega fráleitt. Ríkið er þannig brennuvargurinn og slökkviliðið.

En hvað er þá til ráða, kann einhver að spyrja, ef við getum ekki leitað á náðir þessara kláru og vel meinandi stjórnmálamanna, sem við höfum kosið í góðri trú? Er ekki hægt að ætlast til þess að þeir beri hagsmuni okkar fyrir brjósti.

Nei! Alls ekki! 
Einstaklingur hugsar vel um sjálfan sig og eignir sínar, en stjórnmálamenn eru ekkert frábrugðnir öðrum einstaklingum. Þeir eru fáir sem hirða um að sjá um sameign, svo til góðs geti talist. Þannig hugsar stjórnmálamaðurinn einungis hvernig hann skuli bera sig að til að halda völdum/sæti í næstu kosningum. Það þjónar ekki hagsmunum hans að segja nei við stóran eða háværan hóp, nema hvorttveggja sé, jafnvel þó neikvætt svar kæmi til með að þjóna hagsmunum mun fleiri kjósenda hans. 

Þannig gerir hávær hópur kröfu til stjórnmálamannsins, að seilast ofan í vasa kjósenda sinna og stela þaðan nokkur hundruð krónum, það munar engum um þær, hugsa menn og fáir nenna að gera neitt veður vegna þessa. En háværi hópurinn gengur sáttur frá borði, og finnst fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt að hann (hópurinn) eigi tilkall til þessa fjár, með verðbótum og jafnvel hækkandi raunframlögum ár hvert. Frekjan er algjör. Það er líkt og sumir haldi að féð komi úr töfrasprota.

Og segja má að það sé raunin. Því ríkið hefur einokunarvald á útgáfu gjaldmiðla, sem hafa í raun ekkert verðmæti. Og gjaldmiðilinn getur ríkið prentað að vild (auðvitað eru því takmörk sett, líkt og dæmin sanna), því stundum eru skattahækkanir ekki vinsælar, þó svo að til séu margir sem telja að skattleggja ætti hér allt í drep, en virðast ekki átta sig á, að þeim er fullfrjálst að gefa 90% launa sinna til ríkisins, líkt og góðhjartaði forsetinn í Suður-Ameríku. En líklega verður þess lengi að bíða, því ólíkt rausnarlega, vinstri sinnaða valdsmanninum, hafa skoðanabræður hans hér heima, og raunar fleiri (því í raun eru þetta allt bölvaðir sósíalistar, líkt og sagt var einu sinni í Sviss forðum) mestan áhuga á að eyða fjármunum annarra, en eru fastheldnir á sitt eigið.

Og með pappír og bleki má framkalla töfra og óminni í einhvern tíma, en svo brennur við að koma þarf að skuldadögum. Því pappírinn, sem seðlarnir eru prentaðir á eru ekki mikils virði, og þá staðreynd virðist kerfið okkar þekkja mæta vel, og raunar mun betur en flestir. Því þegar stjórnmálamennirnir góðhjörtuðu hafa, af sinni einskæru góðmennsku og gjafmildi, prentað vel handa okkur, því okkur þóttu kjörin ekki 'mannsæmandi', er líkt og hagveran hafi fengið nóg og vilji helst æla og skila þannig því sem lagt hafði verið til hennar í allra bestu trú. En hún ein veit, að ekkert verður smíðað úr engu. Það þarf raunveruleg verðmæti til að búa til, og gera enn meira af raunverulegum verðmætum. Því er eins og fylleríið standi í sjö ár og timburmennirnir, með tilheyrandi ælu (minnkun á peningamagni, sem einkennir kreppur), í önnur sjö. Og þegar partýið hefst á ný, er það gamla okkur öllum löngu gleymt.

Væri ekki nær að horfa í aðra átt en til brennuvargsins eftir vatni? Er ekki kominn tími á nýja nálgun, án ríkis, sem gerir í raun fátt annað en að skapa vandamál, sem þegnarnir fara svo fram á að séu leyst, svo fjármálaöflin, bankarnir og lánastofnanirnar sem, þrátt fyrir að hafa rétt til að búa til peninga úr engu með góðfúslegu leyfi frá valdhöfunum, sem krefja þá sem vilja komast í snertingu við töfrasprotann um litlar 1000 milljónir fyrir þátttöku í töfrasýningunni, geta orðið gjaldþrota, líkt og stærsti hluti hins vestræna heims fékk að upplifa, þrátt fyrir þá meinloku sumra að sýningin sú hefði einungis verið sett upp hér á landi.

Það þýðir ekki að hatast við leikendur sýningarinnar, né er til nokkurs að vera gramur út í þá sem sköpuðu kerfið, eða þá sem viðhalda því. Þó svo að auðvitað beri að bregðast við lögbrotum, er engum greiði gerður með ofsóknum eða nornaveiðum. Hugsanlegt er, að þrátt fyrir gjörvuleika stjórnendanna, hafi sýningin verið illa sett upp, af óviðráðanlegum ástæðum. En það er aldrei of seint að snúa við og feta nýja braut. Leið sem margir virðast óttast, en hefur fyrir löngu sannað gildi sitt. Leið hins frjálsa manns og hins frjálsa markaðar, því lausnarorðið er, jú, eftir allt saman; frelsi!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband