Nöldur

Ég er maður margra ágætra kosta. Ég hef sérstaklega gaman af að nöldra. En ég nöldra ekki yfir hverju sem er, heldur þegar þörf er á að leggja áherslu á eitthvað sem miður er í mannlegri hegðan. Sérstaklega finnst mér mikilvægt að hífa upp raust mína og leggja áherslu á orð mín þegar fólki hættir til að gleyma því að það er til fleira fólk í heiminum en það sjálft. Það gerist oft! Fólk, eðli málsins samkvæmt, hugsar fyrst og fremst um eigin hag. Fólk er sjálfhyggið, eða sjálfhverft. Einhver kynni að segja, að þar sem ég sé mikill einstaklingshyggjusinni, hljóti ég að vera sjálfhverfur um leið. Það er vissulega rétt, en á því eru þó takmörk. Með sjálfhverfu minni má ég ekki, undir nokkrum kringumstæðum, ganga á rétt annarra til  að hugsa um eigin hag. Ég má einungis hugsa um eigin hag að því marki, að gjörðir mínar takmarki ekki rétt annarra til að gæta eigin hagsmuna.

Stundum liggur mér á. Það virðist einkenna nútíma samfélag, að fólki liggur almennt öll reiðinnar býsn á. Það þarf að komast hratt frá einum stað til annars. Annað fólk getur tafið för mína á þessari leið, en það er með öllu óheimilt. Það hefur ekki rétt á því að koma í veg fyrir að ég geti fullnægt mínum hagsmunum til hins ýtrasta, svo framarlega sem þeirra hagsmunir verði ekki fyrir skaða af á för minni.

Afhverju neyðist fólk til að standa í rúllustiga? Rúllustigi hreyfist ekki svo fólk geti stoppað, hvílt sig, spjallað saman, eða virt fyrir sér útsýnið eða annað forvitnilegt sem kann að bera fyrir augu. Rúllustigar hreyfast svo fólk færist hraðar milli hæða. Þetta virðast flestir Íslendingar eiga mjög bágt með að skilja þegar þeir eru staddir á sínu ástkæra föðurlandi, en birtist þeim svo ljóslifandi um leið og þeir hafa stigið fætinum út úr Boeing bumbunum, og á erlent yfirráðasvæði.[1] Íslendingar hafa nefnilega í gegnum aldirnar séð margt einstaklega sniðugt hjá öðrum þjóðum. Margt sem hefði jafnvel getað komið okkur til góða hér heima. Jafnan verður hinn týpíski Íslendingur upprifinn þegar hann sér eitthvað sér framandi erlendis. Hann er jafnvel mjög fljótur að tileinka sér nýjungina, enda eru Íslendingar einkar nýjungagjarnir að upplagi. En þegar tími er kominn til að koma sér heim á leið er tilvalið að skilja nýfundna nýjungina eftir, líkt og fólk sér hrætt við að tollverðirnir haldi að þeir séu með eiturlyf innvortis. Þetta á þó ekki við um hvers kyns tækninýjungar, enda er hinn dæmigerði Íslendingur einkar hrifinn af stöðunni sem gripur, innblásinn af nýjustu tækni og vísindum Sigurðar H. Richter, getur veitt honum í samfélagi við hina dæmigerðu Íslendingana.  

Íslendingnum dettur heldur ekki í hug að færa sig þó maður komi rösklega gangandi upp að honum í rúllustiganum og staðnæmist í tröppunni fyrir neðan hann. Hann lítur ekki einu sinni við, heldur einungis áfram í innihaldsríku samræðunum sem hann á við förunaut sinni. Og þegar maður biður hann um að afsaka sig, lítur hann á mann líkt og maður sé maðurinn sem átti í ástarsambandi við Florence Nightingale, sá sem saurgaði hina dýrðlegu mannveru, og veltir fyrir sér afhverju í andskotanum þessum gæti legið svona lífið á. Guess what! It´s none of your f%/$&%$ business!!! Hann færir sig að lokum með semingi og megnri ímugust, hægt!

Við sjáum svipaða hegðan í umferðinni. Það má helst enginn taka fram úr okkur. Við gerum hvað sem er til að hindra ökumanninn fyrir aftan okkur í að komast fram fyrir okkur. Það er gjörsamlega óþolandi. Ertu eitthvað tregur? Ég átti svo sem ekki von á að ég væri að skrifa fyrir einhverja mannvitsbrekku, en þú hlýtur að geta framfylgt einföldustu óskum hins dáða umferðarráðs, sem hefur það að markmiði að bæta umferðarmenningu okkar, færa nýjungarnar heim frá útlandinu. Eða biðja þeir okkur ekki um að keyra á hægri akrein ef meiningin er að halda okkur innan ramma laganna. Þú átt ekki að gerast laganna vörður og reyna að fá alla, sem vilja keyra hraðar, til að keyra á þínum hraða. Færðu þig yfir á hægri akreinina og leyfðu mér að komast fram hjá. Mér liggur á!

Að lokum langar mig að spyrja hvort ekki sé í lagi með fólk sem ræktar líkamann. Gleymir það að rækta hugann? Hættir blóðið að streyma upp í höfuð eftir æfingu? Hvað er málið með íþróttatöskur uppi á þeim fáu bekkjum sem eru í búningsklefum líkamsræktarstöðvanna? Er ekki augljóst hverjum þeim sem hefur gáfur á við amöbu að bekkir eru gerðir fyrir þá sem vilja tylla sér? Taskan þarf ekki á hvíld að halda. Taskan þarf heldur ekki að tylla sér niður til að auðvelda sér að komast í skóna. Burtu með æfingatöskur af bekkjunum.

[1] Auðvitað er þér velkomið að standa í rúllustiganum, en vinsamlega gerðu það þá hægra megin!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ingi Kristinsson

So.

Guðmundur Ingi Kristinsson, 10.11.2010 kl. 03:10

2 identicon

Mér hefur lengi vel þótt vanta upp á siðfágun í rúllustigamenningu Íslendinga. Manni er lífsins ómögulegt að taka fram úr nokkrum manni þar sem fólk plantar sér bæði vinstri og hægra megin stigans án þess að gera ráð fyrir því að manneskja í flýti kynni að eiga þar leið um. En um leið og maður kemur yfir á meginlanlandið er þessu aldeilis öðruvísi háttað.

Með bílaumferðarmenninguna vil ég hafa örfá orð. Mér finnst Íslendingar taka of mikið framúr. Þar fær maður að sjá innra eðli þjóðarsálarinnar þar sem hún ráfar stefnulaust á milli akreina í von þess um að fá að vera „fyrst“ en það er meginmarkmið eyjaskeggjans að njóta alþjóðlegrar hylli sökum þess að standa framúr að öllu eða einhverju leyti. Sérstæði eyjaskeggjans er óumdeilanlegt og skal það koma skýrt og skorinort fram þó svo að dónaskapur, sjálfumgleði eða skortur á háttvísi beri þar við.

Íþróttatösku- vandamálið hef ég ekki upplifað sjálf. En almennt séð þá er mikill hluti þeirra sem stundar hreyfingu reglulega ekki tíma til að líta í bækur eða horfa á hámenningarlegt sjónvarpsefni. Hvað þá að sýna náunganum tillitsemi. Það hefur aðeins tíma til að dást af lítilfjörlegum vöðvum sem það hefur sankað að sér í gegnum tíðina með því einu að ganga á milli íþróttavöruverslana í leit að hinum fullkomna samfestingi til þess að ganga í augun á hinu kyninu.

 Góðar stundir.

Súsanna Gestsdóttir (IP-tala skráð) 10.11.2010 kl. 05:10

3 identicon

Nei þú nöldrar ekki fyrir hverju sem er,  en mikið af því sem upp er talið leiða margir framhjá sér og telja ekki nöldursvert.

Að nota hægri akrein í undir  hámarkshraða en ekki þá vinstri er skiljanlegt að vekji pirring.... þegar maður er að flýta sér, en þessi litla borg okkar er þeim kostum gædd að það tekur mann yfirleitt aldrei lengur en 15 mín að komast frá a-ö..... gæti kannski tafið mann um mínútu eða tvær með svona "slowdrivers"  væri ekki vitlaust að benda umferðastofu á að vera með þessi sniðugu innskot sín um tilgang hægri og vinstri akreina á hverju kvöldi og kannski nokkru sinnum á kvöldi, aukinn skilningur á því mundi eflaust bæta hug margra.

Hvað varðar rúllustiga, þá stórefa ég að þessir örfáu rúllustigar á Íslandi hafi verið settir upp með  það markmið að fólk komist hraðar á milli hæða, þetta eru svo litlir stigar að þeir geta varla tekið meira en 20 sek. að komast sína leið.  Þegar fólk er í makindum  sínum að versla er því eflaust sama þó að við bætist 20 sek. og ég held það taki frekar rúllustigann af því að það er of latt til þess að taka stigann eða nenni ekki að bíða  eftir lyftunni sem yfirleitt rúmar bara 3-4..... en það gæti verið fólk sem þarf að flýta sér sökum vinnu og og kýs að taka rúlluna frekar en næsta stiga. Þetta gæti líka verið tilvalið innlegg fyrir umferðastofu, þetta er jú umferð 

Annars væri sniðugt fyrir fólk sem er mjög timabundið og getur ekki séð af 10-15 mín.,  hámark, á dag í daglegar tafir að temja sér þann sið að gefa sér meiri tíma á ferðalög milli staða eða gera sér grein fyrir að maður "skreppur" ekki í kringluna á 5 mín. ef maður leggur í hann með raunsætt markmið um tímasetningu á "ferðinni" hvort sem um ræðir umferð á götum bæjarins eða göngum verslunarmiðstöðva gæti það skapað viðkomandi aukna hugarró, eða hann gæti notað þennan auka tíma sem hann óvænt fékk til að rækta hugann 

Ég verð að játa það að ég er ekki sú duglegasta að mæta í ræktina og ég nota bekkinn undir töskuna mína þegar ég klæði mig, dótið mitt rúmast ekki í skápnum með góðu móti og ég vill ekki teppa gangveg búningslefans, að hafa töskuna á bekknum auðveldar aðgang að dótinu, auk þess er ég  í nokkuð góðu formi og get státað mig að því að þurfa ekki að setjast niður til að komast í skóna, get gert það standandi  en það auðvitað geri ég frammi því  ég er svo heppin að vera örlítið vitrari en Ambra og kann að lesa, það stendur við innganginn að umgengni á  útiskóm sé ekki leyfð í búningsklefa, þar frammi er t.d. stóll fyrir þá sem vilja tylla sér á meðan farið er í skóna :)  svo að eftir ræktina get ég gengið út með ræktaðan skrokk og huga án þess að vera að pirra mig yfir því að hafa átt í vandræðum með að komast í skóna mína :)

Freydís Jósdóttir (IP-tala skráð) 10.11.2010 kl. 05:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband