Í Fréttablaðinu í dag, þriðjudaginn 2. nóvember, birtist frétt um kostnað þjóðfélagsins vegna menntunar í háskólum landsins. Þar segir að kostnaður á hvern einstakling sé frá kr. 474.000 2.995.000 á ársgrundvelli, eftir því um hvaða nám ræðir. Þannig er B.A. gráða í félagsvísindum, s.s. mannfræði, lögfræði o.s.frv. ódýrust, en listnám virðist vera dýrast. Reyndar er kostnaður á hvern nemanda í listnámi mjög mismunandi, eða frá kr. 731.000 2.995.000.
Vegna núverandi efnahagsástands er ekki úr vegi að spyrja sig hvort ekki megi ná þessum kostnaði niður. Sátt hefur einkennt núverandi skipulag menntamála á Íslandi. Því má telja það óðs manns æði að ætla sér að varpa fram róttækum hugmyndum um þetta kerfi.
Menntun er gæði og gæði kosta fjármuni. Sátt hefur verið um það hingað til að ríkið greiði fyrir þessi gæði, þó svo að finna megi á því undantekningar. Nærtækast er að benda á að MBA nám við Háskóla Íslands, og nám í verkefnastjórnun við sama skóla, kostar umtalsvert meira en einungis skráningargjaldið. Mörgum hefur fundist þeir knúnir til að reka upp hávært kvein þegar skrifstofa skólans sér fram á að innritun nemenda er dýrari frá því árinu á undan. Fólki þykir algjörlega fráleitt að borga um kr. 50.000 á ári fyrir háskólanám hérlendis. Því þykir fráleitt að það borgi fyrir gæði sem það nýtir fyrir sig sjálft, en finnst hins vegar sjálfsagt að þjóðfélagið beri kostnaðinn. Afhverju á verkamaðurinn að borga fyrir nám þess sem hyggst leggja stund á lögfræði? Hagur verkamannsins hefur ekki vænkast, þó svo að háskóli útskrifi einn lögfræðing í viðbót. Hann þarf eftir sem áður að greiða fyrir þjónustu lögfræðingsins, þó svo hann hafi þá þegar greitt fyrir þekkingu hans. Hins vegar getur lögfræðingurinn haft umtalsvert hærri tekjur en verkamaðurinn, vegna þekkingarinnar sem verkamaðurinn tók þátt í að greiða fyrir.
Menntun nýtist fyrst og fremst einstaklingnum sem hana hlýtur. Engum dettur í hug að leggja á sig langt og strangt háskólanám, eingöngu vegna þess að samfélagið kunni á endanum að njóta góðs af menntun viðkomandi í framtíðinni. Ástæðan hlýtur að vera von um bætt kjör í framtíðinni, enda sýna rannsóknir fram á sterk, jákvæð tengsl milli menntunar og launa, þ.e. því meiri menntun í árum talið, því hærri laun. Aukin laun einstaklingsins leiða svo til hærri skattgreiðslna viðkomandi. Vissulega nýtur samfélagið aukinnar þekkingar einstaklinganna, en það er vegna þess að einstaklingurinn þarf að hafa eitthvað meira fram að færa en náungi sinn ef hann fer fram á stærri hluta launakökunnar. Hannes Hólmsteinn Gissurarson færir fyrir því rök, í bók sinni Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, að þeir sem hærri hafa launin, eigi að greiða meira til samfélagsins, þar sem þeir njóta þjónustu þess í ríkari mæli.
Því þykir mér sjálfsagt að nemandi greiði fyrir menntun sína. Hugsanlega gæti verið um mótframlag frá ríkinu að ræða, en líta mætti á það sem hvatningu fyrir fólk til að afla sér þekkingar, samfélaginu til heilla. Þetta myndi fækka brottfalli úr greinum, því nemandi myndi síður velja sér fag ef hann væri þess ekki fullviss að það ætti við hann. Fólk myndi ekki skrá sig í skóla, nema það væri þess fullvisst að það væri það sem því langaði til að gera. Kostnaður samfélagsins er umtalsverður vegna þess að fólk ákveður eftir eitt ár að greinin sem það valdi sé ekki fyrir það, eða vegna þess að fólk stundar nám sitt ekki af festu.
Ljóst er að kostnaður Listaháskóla Íslands er mjög hár á hvern leiklistarnema, svo tekið sé dæmi. Ástæðan fyrir þessu er sú að mjög fáir nemendur eru á hvern kennara, en að jafnaði eru um 8 10 nemendur í bekk. Auk þess er einungis tekið inn í skólann annað hvert ár, en áður fyrr voru nemendur teknir inn árlega. Til að ná fram sparnaði mætti taka inn nemendur á hverju ári, líkt og var, auk þess að fjölga nemendum í bekk. Erlendis þekkist vel að a.m.k. 20 nemendur séu í bekk.
Það er algjörlega fráleitt að ríkið haldi uppi takmörkunum á fjölda útskrifaðra leiklistarnema. Afhverju er engin takmörkun á fjölda útskrifaðra mannfræðinga, eða ábyrgist einhver að vinna bíði þeirra frekar en leiklistarnemanna? Eða getur leikari ekkert annað gert en að leika? Er ekki möguleiki á að hann finni sér aðra vinnu, ef engin eftirspurn reynist eftir hæfileikum hans á fjölum leikhúsanna? Auk þess að ýta undir ógegnsæi og klíkuskap við val á nemendum í inntökuprófi, getum við ekki verið þess fullviss að við séum að útskrifa hæfileikaríkustu leikarana. Það hefur oft gerst að nemendum hefur verið vísað frá, sem svo komast inn síðar. Valnefndin gat ekki verið þess fullviss, að þessir umsækjendur myndu gera aðra tilraun.
Að jafnaði sækja margir um í leiklistardeildina, en að öllum líkindum myndi þeim fækka ef nemendum væri gert að greiða fyrir nám sitt að einhverju, eða öllu leyti sjálfir. Auk þess ætti að veita fleirum tækifæri til að reka leiklistardeild. Ef þeir sæju hag í því að hafa fáa nemendur í bekk, og þurfa þá að rukka hærri námsgjöld, væri þeim það í sjálfvald sett. Markaðurinn myndi styrkja hugmyndina, eða benda þeim á að fleiri nemendur í bekk væri betri hugmynd.
Einhverjir kunna að mótmæla hugmyndum mínum á þá leið að verið sé að mismuna fólki eftir efnahag þess og stöðu. Þau rök eru fráleit. LÍN þjónar hlutverki sínu ágætlega, þó vissulega megi margt finna að störfum og/eða reglum stofnunarinnar. LÍN bæri þannig skylda að lána hverjum þeim sem hyggðist leggja stund á nám, fyrir námsgjöldunum. Ef nemandi vildi skipta um námsgrein þyrfti að sníða sérstakar reglur. Þannig mætti hugsa sér að það væri einungis leyfilegt einu sinni og eigi síðar áður en að annað ár í grunnnámi hæfist, ef nemandi ætlaði á annað borð að eiga rétt á láni.
Líklegt verður að teljast að fyrirtæki myndu vilja laða til sín hæfileikaríkustu nemendurna og myndu því bjóða þeim styrki, t.d. endurgreiðslu á hluta af námsgjöldum gegn því að einstaklingurinn myndi hefja störf hjá fyrirtækinu að námi loknu. Jafnframt mætti hugsa sér að ríkið gæti, með þessu kerfi, hvatt nemendur í ákveðnar greinar eftir þörfum. Það mætti gera með því að styrkja þann nemanda sem hæfi nám í því fagi. Nú er þannig komið að vöntun er á fólki með raunvísindamenntun á vinnumarkaði. Ef raunvísindamenntun væri ódýrari en önnur menntun, er ekki líklegra að við myndum útskrifa fleiri nemendur af því sviði?
Þegar ríkið leggur fram fjármuni og fjárfestir í nemanda sem ákveður að mennta sig er aldrei spurt hvort raunverulegur skortur sé á fólki með þessa eða hina menntunina. Með því að gera fólki að greiða fyrir menntun sína sjálft, þyrfti fólk um leið að spyrja sig hvort fjárfestingunni væri best borgið í náminu sem það hefði kosið sér. Það bæri á endanum skaðann, og væri ábyrgt, ef fjárfestingin reyndist ekki arðbær, þ.e. ef framtíðartekjur þess yrðu ekki í samræmi við væntingar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.