Svar við grein Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra.

Adam Smith, oft nefndur faðir hagfræðinnar, skrifaði tímamótaverk, Rannsóknir á eðli og orsökum auðlegðar þjóðanna, sem kom út árið 1776. Bókin felur í sér tvær meginhugmyndir sem deila á merkantílismann, eða kaupauðgisstefnu. Fyrri hugmyndin er, að eins gróði þurfi ekki alltaf að vera annars tap. Allir geti grætt á frjálsum viðskiptum, því að í þeim nýti þeir sér ólíka aðstöðu og hæfileika hver annars. Verkaskiptingin sé helsta orsök auðlegðar þjóðanna. Hin hugmyndin er, að atvinnulífið geti verið skipulegt án þess að þurfa að vera skipulagt. Sjálfstýring á markaði geti komið í stað miðstýringar, frjáls viðskipti í stað valdboðs. Þetta náttúrlega jafnvægi sem hér er lýst stýrist af lögmálum framboðs og eftirspurnar. Adam Smith lýsti þessu sem svo að það væri líkt og „ósýnileg hönd leiddi menn, sem væru að keppa að eigin hag, til þess að vinna jafnframt að almannahag, svo að samræmi gæti myndast í mannlegu samlífi“.[1]

Í grein í Fréttblaðinu þann 19. ágúst 2010, nefnir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, þrjár ástæður fyrir því að ekki megi einungis kenna hegðun bankaforkólfa og viðskiptajöfra um hvernig fór þegar kreppa skall á alþjóðlegum fjármálamörkuðum haustið 2008. Það sé „of einfalt og ódýrt að velta allri ábyr[g]ðinni þangað,“ segir Steingrímur í greininni. Hér er um algjöra rökvillu hjá ráðherranum að ræða. Gefum okkur að lausn á einhverju máli sé x og að vitað sé að x sé rétt lausn málsins. Gefum okkur að það sé til önnur lausn, x+x, en vitað sé að hún sé jafnframt vitlaus lausn málsins. Eigum við samt að gefa okkur að x+x sér rétta lausnin, vegna þess að lausn x sé of einföld og ódýr? Varla![2]

Steingrímur heldur því fram að orsakir kreppunnar megi rekja til hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar. Bendir hann á þrjú atriði, máli sínu til stuðnings. Fyrsta forsendan, sem ráðherrann telur að sé brostin vegna kreppunnar, er sú hugmynd að einkaaðilar reka fyrirtæki að jafnaði betur en ríkið og því sé þeim betur treystandi fyrir viðskiptarekstri. Er fjármálaráðherranum ekki ljóst, eins og öllum núlifandi mönnum, að kalda stríðinu lauk með sigri kapítalismans. Voru það ekki kommúnistaríkin sem þurftu að reisa múra til að halda þegnum sínum frá því að flýja til landa þar sem atvinnufrelsi var meira? Það er ófrávíkjanlega staðreynd að rekstri fyrirtækja er betur borgið í umsjá einkaaðila.

Önnur forsendan sem Steingrímur gefur sér að hafi brostið er sú hugmynd Adam Smith, um að til væri áðurnefnd ósýnileg hönd. Steingrímur hættir sér út á hála braut með þessari staðhæfingu, því segja má að kenningar Smith séu grundvallarkenningar innan hagfræðinnar. Að fjármálaráðherra Íslands skuli leyfa sér að bera á borð fyrir almenning að þær séu vitleysa, án þess að veita honum skýr svör um hvað koma eigi í staðinn, er með öllu óásættanlegt. Steingrímur er ekki fræðimaður á sviði hagvísinda og ætti að eftirláta vísindamönnum á því sviði um að hrekja  gamlar kenningar, ásamt smíði nýrra.

Hvernig er unnt að laða fram hugvit manna og hæfileika og nýta í almannaþágu? Svar Smiths er einfalt: Með frjálsri samkeppni á markaði. Setjum svo, að maður sé sérgóður, eigingjarn, jafnvel ágjarn, eins og við vitum, að margir eru. Að minnsta kosti gagnvart ókunnugu fólki. Ef slíkur maður þarf að keppa við aðra á markaðnum, þá hlýtur hann einmitt sérgæsku sinnar vegna að leggja sig allan fram um að afla viðskiptavina, og það getur hann aðeins með því að bjóða fram betri eða ódýrari vöru eða þjónustu en keppinautar hans. Hvort sem honum líkar betur eða verr, hlýtur hann að reyna að fullnæja þörfum samborgara sinna sem mest og best. Þannig virkjar samkeppnin ávinningsvonina í almannaþágu. Eins og Adam Smith orðar það, leiðir „ósýnileg hönd“ hann til að keppa að almenningsheill, þótt hann hafi aðeins ætlað sér að keppa að eigin hag.[3]

Ég hvet Steingrím eindregið til að taka upp pennann og skrifa eitthvað sem komið gæti í staðinn fyrir þessa kenningu, í staðinn fyrir að gaspra um að orðið hafi forsendubrestur, án þess að svo mikið sem skrifa einn bókstaf um kenningu sem komið gæti í staðinn.

Þriðja forsendan sem Steingrímur boðar okkur að hafi brostið er sú hugmynd frjálshyggjunnar að eftirlit eigi að vera í lágmarki. Það eru líklega fáir betur til þess fallnir að svara Steingrími, en Vefþjóðviljamenn. Á vef sínum, andriki.is, keppast þeir við að halda úti boðskap frjálshyggjunnar og segja okkur í raun og veru um hvað hún snýst. Þeir benda okkur jafnframt á, að á Íslandi hafi í raun ekki verið nein frjálshyggja, ólíkt því sem Steingrímur heldur fram:

Hér á landi ríkti ekki frjálshyggja, og það sem meira var, stjórnvöld sögðust hvorki vinna eftir henni né hafa í hyggju að koma henni á. Hér var hins vegar ekki kommúnískt alræðisríki heldur, fjarri því. Hér hefur undanfarin ár verið byggt á hefðbundnu blönduðu hagkerfi – og væri gaman að vita hvort þeir sem telja að nú þurfi að „byggja nýtt Ísland“ vilji í ljósi þess afnema blandað hagkerfi. Hitt er annað mál að síðustu tuttugu ár tæp voru ýmis opinber fyrirtæki einkavædd og ríkið lækkaði ýmis skatthlutföll á landsmenn og greiddi niður opinberar skuldir. Allt var það í rétta átt og framfaraspor. Hin einkavæddu ríkisfyrirtæki skiluðu gríðarlegu fé til hins opinbera eftir einkavæðingu, bæði með eigin sköttum en ekki síður með því að hafa mikinn fjölda hálaunamanna í vinnu og lána til framkvæmda.

Það hefur engin „frjálshyggja“ komið landinu eða neinum öðrum á kaldan klaka. Það er engin frjálshyggja í því að láta skattgreiðendur ábyrgjast erlend innlán í íslenskum bönkum. Ef hér hefði ríkt frjálshyggja þá hefði engin ríkisstjórn fengið að skuldbinda ríkið til að ábyrgjast stórfelld lán vegna sparireikninga íslensku bankanna erlendis. Íbúðalánasjóður ríkisins hefði ekki stundað æðisgengna keppni við einkabankana með þeim afleiðingum að hér varð til fasteignabóla. Ef hér hefði ríkt frjálshyggja hefðu ríkisútgjöldin ekki verið aukin með ótrúlegum hætti á síðustu árum – og má þar minnast að vinstriflokkanir töldu aldrei nóg að gert í neinum ríkisútgjöldum nema til lögreglunnar. Í þessu landi „nýfrjálshyggjunnar“ hefur opinberum starfsmönnum fjölgað ár frá ári, nýtt Íslandsmet verið sett í opinberum útgjöldum á hverju einasta ári, annar hver maður er í fæðingarorlofi á kostnað ríkisins lungann úr árinu og Íslendingar reka sendiráð í Nýju Delhi og Jóhannesarborg, svo dæmi séu tekin af handahófi.

Á fjármálamarkaði hafa gilt ýtarlegar og umfangsmiklar reglur hér í þessu landi nýfrjálshyggjunnar. Svo mikla áherslu lagði ríkið á eftirlit með fjármálamarkaðnum að árið 1998 bjó það til sérstaka stofnun, Fjármálaeftirlitið, til að fylgjast vandlega með honum. Að auki eru viðskiptaráðuneyti, viðskiptanefnd alþingis, samkeppnisstofnun, seðlabanki, neytendastofa, umboðsmaður neytenda og neytendasamtök á ríkisstyrk til að gæta hagsmuna almennings.[4]

Ekki má svo gleyma endurskoðendum bankanna, innri endurskoðendum þeirra, að ógleymdum þeim mikla fjölda sérfræðinga erlendra lánastofnanna sem rýndu í ársreikninga og önnur gögn, þegar meta átti hvort veita átti lán til þeirra. Til að fullkomna eftirlitið eru svo starfræktar hinar óskeikulu greiningadeildir fyrirtækja á borð við Standard & Poor´s, Fitch og hvað þær nú heita allar, sem hikuðu ekki við, eftir ýtarlega legu yfir Excel skjölunum sínum, að veita íslensku bönkunum 1. einkunn þegar kom að lánshæfismati. Og svo fullyrða menn að eftirlitið hafi ekki verið til staðar! Engu að síður er uppi hávær krafa í samfélaginu um að efla þurfi eftirlitið, svo við getum öll sofið vært, vitandi að ríkið muni breiða út faðminn þegar næsta fjármálastofnun fer í þrot. Ætli menn spyrji sig þá afhverju hið aukna eftirlit hafi brugðist?


[1] Hannes Hólmsteinn Gissurarson: Fiskar undir steini, Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og Háskólaútgáfan, Reykjavík 2001, 14. bls.

[2] Ég er þó ekki að halda því fram að ábyrgðin liggi öll hjá bankastarfsmönnum, eða stjórnendunum yfirhöfuð. Einungis að benda á að rökin sem hann gefur sér eru ekki rétt. Einföld lausn getur verið rétt lausn, en þarf ekki endilega að vera röng vegna þess að hún er einföld.

[3] Hannes Hólmsteinn Gissurarson: S.r. 27.-28. bls.

[4] Af vef andriki.is, Fimmtudagur 5. febrúar 2009, 36. tbl. 13. árg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband