Mörgum hefur orðið tíðrætt um slæma skuldastöðu íslensks sjávarútvegs. Nægir þar að nefna skýrslu Rannsókna- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri (RÞHA), sem kom út nú fyrir skömmu. Þar eru áhrif fyrningarleiðarinnar á íslensk sjávarútvegsfyrirtæki metin.
Ólafur Margeirsson birtir grein á Pressunni, þar sem hann bendir á leiðir fyrir ríkisstjórnina til að takmarka þau áhrif sem upptaka eigna í greininni hefði á íslenskt hagkerfi. Til að svara þessari grein er nauðsynlegt að kynna sér örlítið efnahagsreikninga íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja, ásamt skýrsluna sem Ólafur vitnar til.
Upplýsingar stærstu fyrirtækjanna eru ekki opinberar, ef frá er talinn ársreikningur HB Granda hf.[1] Glögglega kemur í ljós, við lestur ársreiknings HB Granda hf, að gengisvísitala íslensku krónunnar hefur engin áhrif á verðmæti kvótaeignar fyrirtækisins. Ástæðan fyrir því er að starfrækslugjaldmiðill fyrirtækisins er Evra. Ef fyrirtækið gerði upp í íslenskum krónum liti málið öðruvísi út. Þá gætu erlend lán hækkað og lækkað í bókum fyrirtækisins, eftir gengissveiflum krónunnar. Verðmæti kvótans stæði hins vegar í stað, þrátt fyrir aukið verðmæti í raun við gengisfall krónunnar, þ.e. framtíðartekjuflæði vegna kvótans eykst.[2] Af þessu leiðir að eignir geta orðið umtalsvert lægri en skuldir og eigið fé þar með neikvætt.
Líkt og fram kemur í skýrslu RÞHA, námu nettóskuldir (heildarskuldir að frádregnum veltufjármunum) íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja 892 millj. SDR, eða 87 ma. ISK árið 1997. Í árslok 2008 voru skuldirnar hins vegar 2.479 millj. SDR, eða 465 ma. ISK. Samhliða þessari hækkun á skuldum íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja, sökum gengishruns íslensku krónunnar, þurrkaðist eigið fé fyrirtækjanna út, var neikvætt sem nemur 318 millj. SDR árið 2008 en var jákvætt um 1.120 millj. SDR árið 2007. Skuldirnar eru hærri en eignirnar sem standa undir þeim. En er það í raun svo?
Tökum lítið dæmi til að skilja málið örlítið betur. Sjávarútvegsfyrirtækið X tekur lán árið 2006 til að kaupa kvóta. Lánið er 100 kr. í erlendri mynt. Árið 2009 er eignin sú sama, 100 kr., en lánið stendur í 200 kr. En þar með er bara hálf sagan sögð, því tekjur fyrirtækisins eru jafnframt í erlendum gjaldmiðlum, en því virðist Ólafur gleyma.
Ólafur bendir réttilega á að aflaheimildir eru í grundvallaratriðum líkt og hlutabréf, ávísun á vænt framtíðartekjuflæði. En framtíðartekjuflæðið eykst samhliða hækkun skuldanna, þ.e. nær allar tekjur íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja eru í erlendum gjaldmiðli. Þær nægja því vel til að standa undir greiðslum á lánum til þeirra. Bókfært virði eignanna hækkar þó ekki, líkt og fram hefur komið, en við það verður eigið fé fyrirtækisins neikvætt. Það þýðir þó ekki að fyrirtækið geti ekki mætt framtíðarskuldbindingum sínum.
Jafnframt má benda á að nær flest útgjöld íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja eru í íslenskum krónum, s.s. kaup á kvóta, laun[3] og annar rekstrarkostnaður. Veiking krónunnar hefur því jákvæð áhrif á þessa liði, að því gefnu að verð á þeim hækki ekki sem sumpart er vissulega óraunhæft.
Ólafur bendir á að bankarnir geti ekki skuldfellt lán sín til sjávarútvegsfyrirtækjanna, vegna þess að við það færu bankarnir á hausinn. Sjávarútvegsfyrirtækin eru kerfislega of mikilvæg, líkt og hann bendir á. En hvaða hag hafa bankarnir af því, ef greiðslurnar skila sér á tilsettum tíma? Raunar verður að teljast harla ólíklegt að bankarnir færu á hausinn við þessa aðgerð, því ef kvótinn er veðsettur fyrir skuldunum verður að teljast líklegt að þeim tækist að fá sanngjarnt verð fyrir hann á markaði, sem og aðrar eignir. Jafnframt verður að hafa í huga að búið er að afskrifa skuldir bankanna verulega, líkt og margoft hefur komið fram.
Einnig kemur fram í skýrslu RÞHA að tvö félög (8-10%)[4] af 20 stærstu eru alveg skuldlaus, 30% (30-35%)þeirra eru í góðri stöðu, 45% (45-50%)eru í slæmri stöðu og 15% (8-12%) þeirra eru í vonlausri stöðu, þ.e. geta aldrei greitt upp skuldir sínar að mati höfunda. Slæm staða er að mati höfunda skýrslunnar þegar það tekur fyrirtæki 18,8 ár að greiða upp allar skuldir sínar.[5] Bankarnir hefðu því enga ástæðu til að gjaldfella lán til þeirra sem eiga rúm 90% heildarkvótans.
Ólafur segir jafnframt að ...íslensk stjórnvöld ættu (...) [að] snúa upp á hendur eigenda of skuldsettra sjávarútvegsfyrirtækja og neyða þá til að samþykkja ríkisaðstoð gegn eignarhlut í fyrirtækjunum sjálfum, einkum og sér í lagi til þess að styrkja bankakerfið. Jafnvel ætti hið opinbera einfaldlega að taka yfir tæknilega gjaldþrota sjávarútvegsfyrirtæki í heild sinni.
Ólafur gleymir tvennu hér. Í fyrsta lagi á ríkið einungis einn banka, Landsbankann. Ríkið gæti því augljóslega ekki beitt áhrifum sínum nema í gegnum hann. Slíkt væri þó alls ekki réttlætanlegt, nema að því gefnu, að brýnir hagsmunir væru í húfi, þ.e. séð væri fram á að fyrirtækið gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Þá þyrfti ríkið augljóslega ekki að snúa upp á hendur neins, fyrirtækið væri einfaldlega tekið til gjaldþrotaskipta og skiptastjóri færi með eigur þess skv. lögum þar um. Ekki á að gera fyrirtæki gjaldþrota einungis vegna þess að ríkið hefur það á stefnuskrá sinni að eignast kvótann aftur til úthlutunar. Engin lagaleg sanngirni væri fólgin í slíkri aðgerð.
Og Ólafur heldur áfram:
Í stað þess að gefa of skuldugum sjávarútvegsfyrirtækjunum færi á því að endurbyggja efnahaginn hægt og bítandi með endurgreiðslu skulda, gæti hið opinbera nýtt áhrif sín innan bankakerfisins, rekið þau í gjaldþrot og látið bankakerfið taka þau yfir í örstuttan tíma. Samstundis ætti að stofna móðurfélag, 100% í eigu ríkisins, sem myndi kaupa viðkomandi gjaldþrota sjávarútvegsfyrirtæki af viðkomandi banka með litlum afföllum (ellegar færu bankarnir á hausinn). Móðurfélagið tæki þannig yfir eignir viðkomandi sjávarútvegsfyrirtækis og skuldbindingar. Gera mætti hið sama við öll sjávarútvegsfyrirtæki sem færu í gjaldþrot eða væru með neikvætt eigið fé; öll væru þau sett undir hatt móðurfélagsins.
Kostirnir af þessu fyrirkomulagi væru allnokkrir. Í fyrsta lagi yrðu áhættudrifin og illa rekin fyrirtæki ekki klippt úr snörunni heldur send beina leið í gjaldþrot það væri hreinsað til. Það má hljóma hart en frumskógarlögmál frjáls og skilvirks markaðar virkar einfaldlega þannig; ef þú rekur fyrirtækið þitt illa þá endar þú gjaldþroti. Vandamálið er að láta ekki aðra verða gjaldþrota í massavís í kjölfarið vegna kerfislegs mikilvægis þess sem fór fyrstur á hausinn; einhver verður að stoppa dómínóáhrifin. Þar kemur venjulega til kasta hins opinbera á einhvern hátt. Rekstri viðkomandi fyrirtækja væri haldið áfram; þau héldu áfram veiðum, fáir misstu vinnuna og allt væri eðlilegt á yfirborðinu. Neikvæð ytri áhrif gjaldþrots stórs sjávarútvegsfyrirtækis væru þannig takmörkuð; þau yrðu einöngruð gjaldþrot og engin dómínóáhrif ættu sér stað.
Hér virðist Ólafur eitthvað misskilja hugtakið frjáls og skilvirkur markaður. Ólafur vill að ríkið knýi sjávarútvegsfyrirtæki í þrot (þrátt fyrir að einungis 15% þeirra 20 stærstu séu í vonlausri stöðu) í gegnum bankana, sem það þó á ekki. Ríkið á ekki að skipta sér af því hverjir fara í þrot, það er eðli hins frjálsa markaðar! Ríkið á heldur ekki að eiga fyrirtæki, það er annað lögmál hins frjálsa markaðar. Ef til gjaldþrots kæmi gæti bankinn vissulega yfirtekið rekstur sjávarútvegsfyrirtækisins, en ekki í þeim tilgangi að selja reksturinn til ríkisins. Eða vill Ólafur hverfa aftur til þess tíma er ríkið átti hér allt? Hann vill hugsanlega taka upp áætlunarbúskap líkt og tíðkaðist í Sovétríkjunum sálugu? Bankinn gæti hins vegar ákveðið að reka fyrirtækið í einhvern tíma, meðan unnið væri að endurskipulagningu þess og selt það svo til hæstbjóðanda í opnu útboði. Það væri samkvæmt lögmáli hins frjálsa og skilvirka markaðar, sem Ólafi er svo annt um. Engin ástæða er til að knésetja fyrirtæki með neikvætt eigið fé, líkt og bent hefur verið á.
Ólafur heldur því fram að þegar sjávarútvegsfyrirtækin væru komin komin í faðm ríkisins væri áhættuleiðréttur eiginfjárgrunnur bankanna sterkari en áður. Rökin sem hann færir fyrir þessu eru einfaldlega þau að lánin væru ekki til einkaaðila, heldur til ríkissjóðs. Þetta er ekki rétt. Lánin eru til fyrirtækisins sem ætti sjávarútvegsfyrirtækin, móðurfélagsins sem Ólafur stingur upp á að verði stofnað, en ekki ríkissjóðs. Ríkissjóður er vissulega eigandi þess, en lánveitandi getur ekki gengið að því sem vísu að ríkissjóður komi hlaupandi með fullar hendur fjár ef halli verður á rekstrinum, sem ylli því að skuldari gæti ekki greitt af lánum sínum. Ef ríkissjóður ætlaði að veita slíka ábyrgð, þyrftu stjórnendur fyrirtækjanna litlar áhyggjur að hafa af rekstri þeirra, þeir myndu líklega bara sitja fundi með fínu bakkelsi og lítt sinna rekstri þeirra. Fræg dæmi eru til um slíkan íslenskan ríkisrekstur. Jafnframt væri samkeppnisstaða einkarekinna fyrirtækja verulega skekkt, þ.e. þau fengju augljóslega ekki jafn hagstæð lán og þau ríkisreknu.
[Þ]essi aðgerð [þyrfti] alls ekki að vera svo kostnaðarsöm fyrir ríkissjóð. Kaupa mætti fyrirtækin af bönkunum með langtíma ríkisskuldabréfi sem ekki væri of íþyngjandi fyrir greiðslugetu hins opinbera nú þegar síst má við því. Ekki þyrfti skuldabréfið að vera hátt heldur því nettó virði gjaldþrota fyrirtækja er neikvætt. Eina sem þyrfti að passa væri að núvirði skuldabréfsins væri nægilega hátt til þess að eiginfjárgrunnur bankanna tæki ekki á sig of mikið högg. Ekki þyrfti heldur marga milljarða stofnfjárframlag frá ríkinu til að mynda eiginfjárgrunn móðurfélagsins sem nægilegur væri til þess að halda því gangandi þótt dótturfélögin væru of skuldsett.
Skuldabréfið þyrfti ekki að vera hátt, en samt nægilega hátt! Ætlar Ólafur veljar vexti með því að stinga fingri upp í loftið þegar hann núvirðir bréfið? Ætlar hann ekki að taka mið af núvirtu framtíðarfjárstreymi þegar hann metur virði kvótans við sölu hans til ríkisins? Er það ekki eðlileg krafa þess sem selur að hann fái sem hæst verð fyrir eignir sínar, svo þær standi undir þeim kröfum sem eignirnar voru upphaflega veðsettar fyrir? Maður skyldi ætla að það væri krafa eigenda nýju bankanna, en Ólafur gleymir því auðvitað að ríkið er í minnihluta þegar að því kemur.
Raunar mætti móðurfélagið vera með mjög lágt eiginfjárhlutfall án þess að það ylli vandræðum. Allt sem þyrfti væri tími. Tekjur af sjávarútvegi í framtíðinni eru vafalaust nægilegar til þess að dótturfyrirtækin gætu, á nokkrum árum, rétt efnahagsreikning sinn af og þar með móðurfélagsins sérstaklega þegar skuldasöfnun vegna aflakaupa væri hætt.
En það má ekki gefa raunverulegum eigendum fyrirtækjanna þennan tíma? Jafnvel þó framtíðartekjur af sjávarútvegi séu nægar til að rétta efnahagsreikninginn við? Og er líklegt að ríkið sé betur til þess fallið að reka fyrirtækin, heldur en eigendur þeirra nú?
Ólafi finnst sú krafa eðlileg, og að aðferð sín verði til þess, ...að tekjur af sameiginlegri eign þjóðarinnar, auðlindum hafsins í kringum landið, endi í raun og reynd hjá þjóðinni en ekki örfáum útvöldum einstaklingum. Ég hef áður fært fyrir því rök afhverju kvótinn ætti að vera í einkaeigu. Það hafa margir fleiri gert, og óþarfi er að tíunda þau hér. En helst má þó nefna að með kvótakerfinu er sjávarútvegurinn arðbær og skilar tekjunum af þessari sameiginlegu eigu okkar í formi skatttekna til ríkisins. Jafnframt má benda á að mörg þessara fyrirtækja eru hlutafélög, og almenningur er meðal eigenda, m.a. í gegnum lífeyrissjóði.
Ólafur heldur því jafnframt fram að nokkrir litlir einkaaðilar, sem væru eftir á veiðum, myndu veita ...pólitískt aðhald í formi arðseminnar sem væri af þeirra rekstri...[.] Hingað til hefur það jafnan þótt slæmt ef ríkið er í samkeppni við einkaaðila, en Ólafur gleymir alveg að minnast á það. Ólafur telur að það væri jafnframt ...merki um hið hefðbundna hagsmunapot og vannýtingu aðfanga í ríkisrekstri ef rekstur móðurfélagsins, 100% í eigu ríkisins, væri lakari en einkaaðila sem samkvæmt hagfræðinni hámarka alltaf nýtingu sinna aðfanga. Má þá spyrja Ólaf á móti afhverju ríkisrekstur hefur hingað til ekki þótt vænlegur til að hámarka arðsemi, og hví íslenska ríkið seldi nær allar eigur sínar á 10. áratug síðustu aldar, og á 1. áratug á þeirri núverandi? Þarf eitthvað að reyna að færa frekari sönnur fyrir því að ríkið kann illa við sig í fyrirtækjarekstri? Engu máli skiptir þó litlir aðilar eigi að veita aðhald á markaði. Samkeppnisstaða þeirra verður alltaf skert, enginn þarf að velkjast í vafa um það.
Í lok greinar sinnar bendir Ólafur svo á mikilvægi þess að menn hámarki ...nyt þjóðarinnar í heild af auðlindunum sem hún hefur yfir að ráða. Þar gæti ég ekki verið meira sammála honum, en okkur greinir augljóslega á um leiðirnar að því marki, því hann vill eðlilega ...aðkomu hins opinbera þegar einstaklingurinn ræður ekki við verkefnið eða brýtur reglur samfélagsins... [.] Aðkoma hins opinbera er með öllu óþörf, íslenskur sjávarútvegur skilar eigendum sínum og samfélaginu öllu miklum arði, og það er ekki síst því kerfi að þakka sem við búum við nú í sjávarútvegi, kvótakerfinu. Á hinn bóginn eru skuldirnar háar, og reksturinn er vissulega þungur hjá sumum sjávarútvegsfyrirtækjunum. Þau eru ekki ónæm fyrir þeirri kreppu sem nú ríður yfir hinn vestræna heima, frekar en önnur fyrirtæki hér á landi.
[1] Leitað var að ársreikningum þriggja stærstu fyrirtækjanna í greininni, HB Granda hf, Samherja hf og Ísfélags Vestmannaeyja hf.
[2] Þannig mætti hugsanlega leiða að því rök að kvótinn væri rangt skráður í bókum fyrirtækisins, sérstaklega ef hann sætti virðisrýrnunarprófi, enda um óefnislega eign að ræða. Virðisrýrnunarprófið byggir á núvirðingu sjóðsflæðis en ef eignin hefur sjálfstætt markaðsvirði þá gildir það í staðinn til að meta hvort virðisrýrnun hefur farið fram. Sterk rök hníga samt að því að núvirðing sjóðsflæðis ætti hér betur við.
[3] Laun sjómanna eru reiknuð miðað við verðmæti afla, svo þetta á augljóslega ekki við um þau.
[4] Áætlað hlutfall kvóta miðað við allan sjávarútveginn.
[5] Margir hafa bent á slæma stöðu Landsvirkjunnar, en það tæki fyrirtækið um 12 ár að greiða upp allar sínar skuldir, miðað við að ekkert yrði fjárfest. Stefán Svavarsson, endurskoðandi, segir allt tal um slæma skuldastöðu fyrirtækisins vera þvætting, hann telji það frábært fyrirtæki sem gæti greitt upp allar sínar skuldir á svo skömmum tíma.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.