Af sköttum og atvinnulífi

Guðmundur Örn Jónsson ritar grein á Pressunni sem nokkurs konar andsvar við grein Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um styrki fyrirtækja til stjórnmálaflokka. Þar heldur Guðmundur því fram að álögur ríkisins á atvinnulífið skipti ekki máli fyrir arðsemi þessi. Guðmundur slengir þessari staðhæfingu fram líkt og hún sé allur sannleikurinn í þessu máli og dettur ekki í hug að færa rök fyrir máli sínu. Hér skal hrekja staðhæfingu Guðmundar með nokkrum rökum.

Guðmundur virðist gleyma því að mörg fyrirtæki eru í alþjóðlegri samkeppni. Tökum dæmi af fyrirtæki sem framleiðir lyf á Íslandi. Skattar á fyrirtæki er nú 18%. Ef erlendur samkeppnisaðili fyrirtækisins starfar í hagstæðara skattaumhverfi, hlýtur það fyrirtæki að hafa samkeppnisforskot. Forskotið felst í meiri fjármunum til umráða, sem það getur nýtt til að skila til kröfuhafa, hvort sem um ræðir skuldunauta eða fjárfesta. Ennfremur getur fyrirtækið nýtt fjármagnið í fýsileg fjárfestingatækifæri.

Skattastefna stjórnvalda getur haft áhrif á verðlagningu fyrirtækja á markaði. Ef ósamræmi er á milli skattlagningar á arðgreiðslur og söluhagnaðar myndast annað verð á fyrirtæki, en þegar samræmi gætir þar á milli.

Tökum dæmi af tveimur fyrirtækjum sem eru jöfn að áhættu. Gefum okkur jafnframt að skattur á arðgreiðslur sé 40%, en skattur á arðgreiðslur sé helmingi lægri, eða 20%. Kennarar mínir í fjármálafræðum höfðu jafnan á orði hve illa þeim væri við skatta. Eðli málsins samkvæmt er okkur flestum illa við skatta, við viljum meira til handa okkur sjálfum. Undir framangreindum aðstæðum ætti fjárfestir því að borga hærra verð fyrir hlut í fyrirtæki sem greiðir lítið/ekkert út í arð til hans, en fá ávöxtunina frekar í formi hækkun á verði hlutabréfanna. Fyrir fjárfestinn felst skattalegt hagræði í lágum arðgreiðslum.[1]

Vísbendingar eru uppi um að skattar hafi haft áhrif á val bandarískra fjárfesta á hlutabréfum. Lágt skattlagðir fjárfestingasjóðir hafa þannig hneigst til að fjárfesta í fyrirtækjum sem greiða út háar arðgreiðslur, meðan einstaklingar, og aðrir sem eru hátt skattlagðir, hafa kosið fyrirtæki sem greiða jafnan út litlar arðgreiðslur. Þegar skattalögum í Ástralíu var breytt til að koma í veg fyrir íþyngjandi skattheimtu á arðgreiðslur árið 1987, jókst vilji fyrirtækja til að greiða út arð.

En það er annað veigameira atriði þar sem skattar geta með beinum og afgerandi hætti haft áhrif á verðmæti fyrirtækja á markaði, skattalegt hagræði sem felst í vaxtaberandi skuldum, hér nefnt skattaskjöldur (e. Interest tax shield). Markaðsvirði fyrirtækis eykst þannig eftir því sem fyrirtækið er meira skuldsett. Því hærri sem skattlagningin er, því meira virði er skattaskjöldurinn. Háir skattar eru því aukinn hvati fyrir fyrirtæki til að auka skuldir sínar. Vissulega felst áhætta í aukinni skuldasöfnun, en engu að síður er eitt af markmiðum fyrirtækja að hámarka virði þess, og þar með auð hluthafanna. Þar getur samsetning efnahagsreiknings fyrirtækisins skipt máli, líkt og bent hefur verið á.

Undanfarið hef ég rýnt í bók Hannesar, Áhrif Skattahækkana á Hagvöxt og Lífskjör, þar sem höfundurinn ber saman tvö lönd sem kosið hafa sitthvora greinina af sama stofninum, Svíþjóð og Bandaríkin. Sýnir Hannes fram á að Verg landsframleiðsla (VLF) Svía á hvern íbúa hefur jafnt og þétt dregist aftur úr því sem gerist í Bandaríkjunum. Ennfremur bendir Hannes á þá staðreynd, að ef Svíþjóð væri eitt af ríkjum Bandaríkjanna, væri það í hópi þeirra fátækustu (miðað við VLF), lífskjör væru örlitlu skárri en í Arkansas og Mississippi.

Í Svíþjóð er atvinnulífið staðnað, atvinnuleysi er verulegt og nánast öll störf, eftir 1950, hafa verið sköpuð af hinu opinbera. Ástæðan er einföld, að mati Hannesar; Skattar eru hærri þar en í nokkru öðru ríki sem telst velmegandi.

Að halda því fram að álögur á fyrirtæki skipti atvinnulífið engu máli, líkt og Guðmundur gerir, er því alrangt. Skattalegt umhverfi skiptir fyrirtæki miklu máli til lengri tíma. Ríki stunda það leynt og ljóst að bjóða fyrirtækjum hagstætt umhverfi fyrir þau að starfa í, með það að markmiði að auka hagvöxt og efla atvinnulífið. Það á líka vera eitt af háleitustu markmiðum stjórnvalda í hverju ríki fyrir sig. Það eru ekki einungis fyrirtæki sem standa frammi fyrir samkeppni, heldur þjóðir líka. Lokamarkmiðið er að hámarka velsæld og auð þegnanna.

 


[1] Lesa má nánar um þetta í bókinni Principles of Corporate Finance, e. Brealey; Myers og Allen (17. Kafli).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband