Hugleiðingar um kvótakerfið

Ég velti því fyrir mér hvernig hægt sé að kenna kvótakerfið við arðrán, sérstaklega þar sem því er ætlað að koma í veg fyrir slíkt. Fiskurinn er auðlind sem einhver þarf að nýta og fyrir samfélagið er arðvænlegast að þessi auðlind sé nýtt á sem hagkvæmastan hátt. Kvótakerfið kemur þessu til leiðar. Áður en að kvótakerfið var sett á var fiskurinn ofveiddur sem hefði ekki komið neinum til góða, hvorki útgerðum né samfélaginu almennt, til lengri tíma litið. Með kvótakerfinu var kvóta dreift á eigendur skipa af fenginni veiðireynslu. Þannig var tryggt að þeir fengju kvóta sem raunverulega höfðu verið að veiðum og nýtt auðlindina fram að þeim tíma sem kvótakerfið var sett á. Þetta var gott fyrir samfélagið af þeirri einföldu ástæðu að þeir sem verið höfðu á veiðum kunna jú best til verka og kunna þar af leiðandi best með auðlindina að fara.
Ef kvótanum hefði verið dreift á almenning, líkt og einhverjir hafa bent á að hefði verið sanngjarnt, hefði fólk fengið kvóta sem aldrei hafði komið nálægt sjómennsku og kunni ekkert til slíkra verka. Þetta fólk hefði síðan að öllum líkindum selt sinn kvóta, útgerðarmönnum og þeim sem höfðu nýtt auðlindina gjaldfrjálst og óheft fram að þessum tíma, til mikillar fjárútláta. Hefði það verið sanngjarnt? Nei!  
Hafið er eins og búsetujörð, auðlind sem einhver þarf að nýta. Nú er svo komið að einhver bóndi á búsetujörð sem við skulum kalla X en hún er stödd á landinu MÍNU, Íslandi. Veitir það mér einhvern rétt til að nýta þessa jörð eða gera annað tilkall til hennar? Nei, vegna þess að bóndinn á jörðina og hefur annaðhvort keypt hana eða hún gengið mann fram af manni til þess sem svo tók við henni til ræktar. Nú var land numið hér fyrir einum þúsund árum og menn eignuðu sér þessar jarðir, þeir borguðu ekki fyrir hana. Líkt og með kvótakerfið, fékk ríkissjóður aldrei neinar tekjur af sölu á jörðum í upphafi. Líkt og John Stuart Mill benti svo réttilega á í bókinni sinni Frelsið kemur þetta þeim sem á eftir koma og fá enga jörð (eða engan kvóta) alls ekki illa, því hvort vildir þú vera innflytjandi á Íslandi í dag eða á Íslandi fyrir 1000 árum? Hugmyndin um að afturkalla kvóta er sambærileg við þá hugmynd að ríkið tæki jarðir landsins eignarnámi og dreifði upp á nýtt. Eftir 100 ár verða svo komnar nýjar kynslóðir sem fengu heldur engan kvóta og hvað á þá að gera? Dreifa upp á nýtt?
Kvótakefið og eignaraðild á bújörðum er svo sambærilegt að því leiti að of margir stunduðu fiskveiðar við Íslandsstrendur en í raun var þörf á. Ólíkt bújörðunum, var enginn eigandi að hafinu, eða auðlindum þess öllu heldur. Til að sporna við ofveiðinni var nauðsynlegt að koma á skipulegri eignaraðild líkt og gert hafði verið 1000 árum áður við jarðirnar í landinu. Slíkt var nauðsynlegt vegna þess að fólk hirðir ekki um það sem það ekki á og hefur engan hag af að hirða um. Þannig kepptust menn við að veiða sem mest þeir máttu og hugsuðu ekki um afleiðingarnar vegna þess að þeir höfðu engan hag af því. Skammtímasjónarmið voru höfð að leiðarljósi, ólíkt því sem nú gerist meðal útgerðarmanna þar sem langtímasjónarmið og skipulagning er í hávegum höfð alveg eins og hjá öðrum þeim sem eiga sínar auðlindir. Og þegar loks kom að því að kvótanum var úthlutað fékk ég engann kvóta og þú ekki heldur vegna þess að hvorki þú né ég höfðum átt skip sem veitt hafði fisk. Þú hafðir aldrei haft lífsviðurværi þitt af sjómennsku og áttir þar af leiðandi ekkert tilkall til auðlindarinnar, áttir ekkert undir með að fá kvótanum úthlutað. Með öðrum orðum, þú græddir ekki neitt en þú tapaðir heldur ekki neinu. Að vísu var með komið í veg fyrir að þú gætir keypt þér skip og byrjað að stunda veiðar án nokkurs tilkostnaðar en það var nauðsynlegt og hinn raunverulegi tilgangur með kvótakerfinu. Þú getur ekki keypt þér traktor og byrjað að yrkja jörð, þú verður að byrja á því að kaupa jörðina.
Með kvótakerfinu var svo snilldarlega fækkað þeim sem stundað höfðu sjóinn. Það var gert HÆGT! Ef ríkið hefði selt kvótann, sem einhverjum hefur þótt góð hugmynd, þá hefði einungis þeim sem best voru staddir fjárhagslega gert kleift að kaupa þann kvóta sem í boði var. Ríkið hefði þannig gert fjöldann allan af fólki atvinnulaust með einu pennastriki. Snjallt?  
Nauðsynlegt var að fækka skipum og með kvótakerfinu var séð til þess að þeir sem ekki sáu hag sínum borgið í fiskveiðum gátu selt þennan kvóta og þar með lokið sinni starfsemi í sjávarútvegi. Ríkið þurfti ekki að borga þeim skaðabætur sem þeir líklega annars hefðu átt rétt á ef ríkið hefði selt kvótann og þeir ekki getað keypt, þ.e. búið var að kippa undan þeim lifibrauði sínu. Þeir sem betri voru urðu eftir og borguðu hinum skaðabæturnar sem ekki voru jafngóðir fyrir að leggja niður vinnu, snúa sér annað og jafnfram fyrir að sjá á eftir þeim fjárfestingum sem þeir á annað borð höfðu lagt í sína útgerð.
Þú getur svo aftur yfirfært hugmyndina um jarðirnar ef þú vilt tala um að ríkið eigi að leigja kvótann. Á þá ríkið ekki alveg eins að taka jarðirnar eignarnámi og leigja bændunum þær aftur? Svar þitt er að öllum líkindum nei og að sama skapi á ríkið ekki að eiga kvóta og leigja hann öðrum til afnota. Leigjandi fer aldrei jafnvel með eign og eigandi hennar gerir. Ríkið á heldur ekki að afla tekna með slíkum aðferðum, heldur á skattkerfið að sjá til þess og ég veit ekki betur en að sjávarútvegurinn skili sínu í ríkissjóð ásamt miklum gjaldeyristekjum.
Að lokum, það kemur hvorki mér, þér né nokkrum öðrum við hvernig eigandi auðlindar nýtir hana, svo framarlega sem hann veldur ekki öðrum skaða með framferði sínu. Þar með er ég þó ekki að skjóta loku fyrir það að ríkið geti sett honum reglur en þær ættu þó helst að lúta að umhirðu auðlindarinnar. Hvernig útgerðarmaður telur rekstri sínum best borgið, hvort heldur er með að selja fisk á markað, fullvinna hann hér eða annars staðar hlýtur að vera best undir honum komið. Hann er nauðbeygður að leitra allra leiða til að fá sem hæst verð fyrir afurð sína og selja hana með sem lægstum tilkostnaði. Ef það kostar meira að vinna hana hérlendis hlýtur hann að láta vinna hana annarsstaðar, annað væri órökrétt og heimskulegt. Þetta er hagur allra vegna þess að því meira sem skilar sér til eigandans, því meira skilar sér til okkar í gegnum skattkerfið. Og ég get fullvissað þig um það, og þó að alltaf megi gera betur, að eftir veru mína á sjó reyna menn að leita allra leiða til að hámarka aflaverðmætið og þó að vissulega séu gallar á þessu kerfi þá tel ég að ekkert annað kerfi sé betur til þess fallið að leysa það af hólmi.

mbl.is Fyrningarleið víst farin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Þú ert fullkomlega á villgötum, greyið mitt. Kvótakerfið hefur ekki skilað neinum ávinningi.

Jóhannes Ragnarsson, 7.5.2009 kl. 18:29

2 identicon

Laaangbesta grein sem ég hef lesið um kvótakerfið og fyrningarleiðina. Hittir naglann beint á höfuðið. Hef einmitt sjálfur notað dæmið með bændurnar og jarðirnar, nákvæmlega það sama, eini munurinn er sá að það er eftir meiru að slægjast í auðlindum hafsins.

Rúnar (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 10:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband