Frá því hrunið varð hefur mörgum orðið tíðrætt um ábyrgð stjórnvalda sem voru við völd á þeim tíma. Sérstaklega hefur komið fram harkaleg gagnrýni á stefnu Davíðs Oddssonar, en margir vilja meina að hún sé rótin að hruninu sjálfu. Öllum er frjálst að hafa skoðun, en hver er skilgreining heimspekinnar á orðinu skoðun?
Í heimspeki er skoðun venjulega skilgreind sem sannfæring án staðfestingar, þ.e. haldi maður að eitthvað sé satt án þess að vita það með vissu. En skoðun og þekking (þekking í merkingunni að vita eitthvað með fullri vissu) eru samrýmanleg hugtök. Þetta þýðir, að ef maður veit eitthvað getur það jafnframt verið skoðun manns.
Hversdagslega er skoðun venjulega sögð vera það að halda að eitthvað sé satt án þess að hafa fyrir því fulla vissu. Í því felst þá sú ranga túlkun að þegar maður veit eitthvað, geti það ekki verið skoðun manns.
Munurinn á þekkingu og skoðun er því falinn í réttlætingu og óhagganleika, staðreyndum! Þannig getur einhver haft skoðun sem getur verið vel eða illa rökstudd, en á sama tíma verið sönn eða ósönn.
Þannig kann einhver að hafa þá skoðun um það hvað eða hver olli bankahruninu. Hann kann jafnvel að hafa þá skoðun að einhver ein manneskja hafi ollið því öllu, jafnvel þó margt hafi komið fram sem bendi sterklega til annars. En án staðfestingarinnar verður skoðunin ekkert annað en íbyggið viðhorf.
Egill Helgason og Ólafur Arnarson eru menn með það íbyggna viðhorf að Davíð hafi verið arkitektinn að öllum okkar óförum. Þessu kasta þeir reglulega fram, oft án þess að færa fyrir því nokkur rök. Eitt dæmi um slíkt er fyrirsögn á dv.is, þar sem vitnað er til Egils: Nú er sagt að aðeins eitt gæti gert út af við Besta flokkinn: Ef Davíð Oddsson lýsti yfir stuðningi við hann Þetta er ódýr brandari sem á að vísa í andúð manna á Davíð, settur fram af manni sem heldur að einhver taki hann alvarlega. Vert er að benda þeim Agli og Ólafi á könnun sem Viðskiptablaðið lét gera á haustmánuðum 2009, þar sem niðurstöður sýndu að tæpur fjórðungur treysti Davíð best til að leiða þjóðina út úr kreppunni. Á eftir honum voru bæði Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon.
Davíð hafði þá skoðun, byggða á verkum virtra fræðimanna og nóbelsverðlaunahafa, að ríkið ætti ekki að koma nálægt fyrirtækjarekstri. Raunar er Davíð ekki einn um þessa skoðun, heldur er þetta viðtekin skoðun nánast hvar sem stigið er niður fæti. Hann, ásamt samstarfsmönnum sínum, hóf því sölu á eignum ríkisins, með hag Íslands og Íslendinga að leiðarljósi. Eða trúir því einhver að manninum hafi gengið eitthvað annað en gott til?
Ég ætla að leyfa mér að benda á regluverk ESB sem stóran þátt í því sem hér gerðist. Reyndar kemur skýrt fram í því regluverki að ábyrgðin hvíli alls ekki á heimaríki banka sem fellur[1], heldur virðist sem leiðtogum ESB finnist það siðferðilega rétt, að fyrst hið íslenska ríki kom sínum EIGIN þegnum til bjargar, þá sé nú rétt að íslenskir þegnar borgi einnig fyrir ógæfu þegna ESB.[2] Forkólfum ESB dettur ekki til hugar að benda þegnum sínum á þá staðreynd að regluverkið var meingallað. Og inn í þessa dásemdar regluverkaparadís vilja forsprakkar Samfylkingarinnar ótrauðir stefna. Ef eitthvað fer ekki eins og til var ætlast, er ábyrgðin færð af einstaklingunum og yfir á samfélagið.
Einhverjir hafa jafnframt bent á það með mikilli visku og fyrirlitningu að hér hafi nýfrjálshyggja og græðgi grandað öllu. Líkt og hér hafi verið einhver hrein og ómenguð frjálshyggja. Frelsi fyrirtækja var vissulega aukið í einhverjum skilningi, en hér var jafnframt margþætt eftirlit, lög og reglugerðir sem áttu að koma í veg fyrir svona óhöpp. Og þegar óhöppin gerast, þá á svo sannarlega að læra af þeim, með ritun faglegrar skýrslu, stofnun nefnda sem eiga að fara yfir hitt og þetta sem miður fór, allt til þess að auka við reglurnar og eftirlitið svo ganga megi kyrfilega úr skugga um að svona hlutir endurtaki sig nú aldrei aftur.
En dettur virkilega nokkrum í hug að hægt sé að koma í veg fyrir að þetta komi fyrir aftur með því einfaldlega að setja reglur sem segja að þetta geti ekki komið fyrir aftur? Sem dæmi má nefna, að til er heill staðall, bara um venslaða aðila sem fyrirtækjum ber að fara eftir, sem gefinn var út af Alþjóðanefnd endurskoðenda (FASB). Er ekki að renna upp fyrir mönnum að eftir þessum reglum, ásamt fleirum, var bara einfaldlega ekki farið?
Sjá virkilega ekki allir þá einföldu staðreynd að það sem kollvarpaði efnahag okkar var ekki gjaldþrot nokkurra fyrirtækja, heldur sá sú barnslega einfeldni okkar að halda að við gætum borið ábyrgð á gjaldþroti þeirra, ásamt blindri ofurtrú okkar allra á ofurmannlega viðskiptahæfileika þjóðarinnar. Er ekki möguleiki á að stjórnendur þessara fyrirtækja hefðu hagað sér með öðrum og ábyrgari hætti, vitandi að ríkið kæmi ekki með útbreiddan faðminn ef illa færi? Væri ekki líklegra að einstaklingar myndu vanda val sitt betur við val á viðskiptabanka og/eða fjárfestingum ef ábyrgðin væri þeirra eigin? Ef menn vilja vera öruggir má alltaf fjárfesta í ríkisskuldabréfum.
[2] Reyndar var ekki um neina mismunun að ræða, þ.e. allar innistæður á reikningum hérlendis voru tryggðar, óháð þjóðerni eigandans, líkt og bent hefur verið á.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.