Stjórnmálaflokkarnir eru reknir á kostnað almennings. Sú staðreynd er tryggð með lögum nr 162/2006. Ríkjandi ráðamenn eru líkast til hæstánægðir með þessa staðreynd, enda rennir þetta fyrirkomulag styrkum stoðum undir þá flokka sem styrkina þiggja. Það er örugglega voðalega þægilegt að fara með fjárlagavaldið, og úthluta sjálfum sér vænan bita, allt í þágu þess að ...auka traust á stjórnmálastarfsemi og efla lýðræðið, líkt og kemur fram í markmiði laganna. Þetta gerir hins vegar öðrum flokkum, nýjum framboðum, töluvert erfiðara um vik. Þeir þurfa að leita á náðir almennings, en þá mega styrkveitingar ekki nema meiru en 300.000 kr. á lögaðila, samkvæmt lögunum. Líklega ert þú hæstánægður með þetta fyrirkomulag. Þangað til þú hugsar um að bjóða þig fram til setu í borgarstjórn eða á þingi. Það hafa nefnilega ekki allir sömu almannatengsl og Jón Gnarr.
Árið 2007 gengu Íslendingar til kosninga, en áður höfðu flokkarnir valið fólk til setu á framboðslistum sínum. Steinunn Valdís Óskarsdóttir var valin af kjósendum í opnu prófkjöri til setu á áttunda sæti á lista hans í Reykjavíkurkjördæmi norður. Hún var svo kosin á þing sem 11. þingmaður kjördæmisins. Sömu sögu má segja um alla hina þingmennina, sem undanfarið hafa verið krafðir afsagnar vegna styrkja sem þeir þáðu til að koma sér og sínum málefnum á framfæri fyrir prófkjörin. Það hljómar ansi einkennilega að leggja blessun sína, sem meðlimur flokks og leikandi í þáverandi leikfyrirkomulagi, en rjúka svo upp til handa og fóta þegar einhver hrópar að hlutirnir ÞÁ voru kannski ekki alveg eins og þeir áttu að vera!
Ég er þakklát Steinunni Valdísi fyrir þessa ákvörðun og með henni sýnir hún í senn mikla auðmýkt og kjark, sagði Jóhanna Sigurðardóttir. Hún sagði samt ekki eitt aukatekið orð í aðdraganda kosninganna. Það gerðu flokkssystkini hennar heldur ekki.
Nei, þá var tíðarandinn annar og allt í lagi að þiggja styrki. En skyndilega breyttist þetta vegna þess að bankar urðu gjaldþrota. Og þá gilda aðrar reglur um liðna hluti, eða eins og einn stjórnmálafræðiprófessorinn sagði: Það fóru margir óvarlega en auðvitað gerði þetta fólk ekkert ólöglegt. Það verður að undirstrika, að þau unnu í þeim tíðaranda sem var á þeim tíma, en er bara ekki liðinn lengur. Nei, hann verður augljóslega ekki liðinn lengur, enda búið að setja lög um málið. En hvorki þessi lög, né þessi svokallaði tíðarandi gilti ekki á þessum tíma, líkt og stjórnmálafræðiprófessorinn bendir svo réttilega á.
Annað stjórnmálafræðiséní lét hafa það eftir sér að rétt væri fyrir þetta fólk að stíga til hliðar vegna þeirrar háværu kröfu sem uppi væri í samfélaginu. En þetta sama samfélag lagði blessun sýna yfir þetta mál á sínum tíma og aðhafðist ekki neitt. Það gæti svo alltaf endurnýjað umboð sitt í komandi kosningum, var aftur haft eftir honum. En eru kosningar ekki nýafstaðnar? Er þetta fólk ekki nýbúið að endurnýja umboð sitt? Og afhverju á það að þurfa að stíga til hliðar, þegar við kjósendur, getum rekið það í næstu kosningum ef okkur sýnist svo?
Bloggar | 28.5.2010 | 23:56 (breytt 29.5.2010 kl. 00:02) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Alþingi fer með mikið vald, á því leikur ekki nokkur vafi. Þannig geta 32 manneskjur samþykkt að setja lög, sem okkur hinum rúmlega 300.000 ber að fara eftir. Vissulega eru margir sem geta haft áhrif á þessar 32 manneskjur, en óneitanlega er það mikil ábyrgð að geta sagt öðrum, með hvaða hætti þeir eiga að haga sér. Óhjákvæmilega vaknar því sú spurning, hvort eðlilegt og réttmætt sé að einhver geti sagt öðrum hvernig hann eigi yfir höfuð að haga sér? Vissulega verður að setja stóran fyrirvara við þessa spurningu; getur verið að einhver eigi að skipta sér af hegðun sem skaðar engan nema þá sem samþykkja sjálfviljugir að haga sér á ákveðinn máta?
Eðlilegt er að setja lög sem banna mönnum að stela og myrða. Þar verður til fórnarlamb, sem óskaði sér þess ekki. En er endilega rétt að banna fólki að neyta eiturlyfja? Þó svo ég búi ekki yfir tölum, þá verður að teljast líklegt að fleiri skaði sig og aðra með neyslu áfengis, en með neyslu fíkniefna. Áfengi er þó leyft, jafnvel þó nær hver einasta fjölskylda þekki til þeirra hörmulegu afleiðinga sem neysla þess getur haft í för með sér. Eiturlyf eru hins vegar ekki leyfð, og hugsanlega á það sinn þátt í því að það skaði færri en neysla áfengis. Hægt er að réttlæta það að áfengi skuli vera leyft; langstærsti hluti þeirra sem þess neyta kunna með það að fara. Hagsmunir heildarinnar eru teknir fram yfir hagsmuni minnihlutans, þeirra sem kunna illa með áfengi að fara. En óneitanlega getur tilviljun orðið til þess að frelsi okkar til neyslu áfengra drykkja yrði svipt frá okkur. Slíkt hefur gerst áður, og getur vel gerst aftur. Frelsi okkar er langt í frá, sjálfsagður hlutur.
En á ríkið að stjórna löstum okkar? Enn fremur, á einhver að segja okkur hinum hvað sé ósiðleg hegðun, og hvað ekki? Ávallt verður til eftirspurn eftir einstaklingum sem selja líkama sinn. Og þegar eftirspurn er til staðar, verður framboðið einnig til staðar. Engu skiptir þar um, hvort 32 einstaklingum dettur í hug að setja lög um bann við eftirspurninni, vandamálið hverfur ekki! Fíkniefnaneysla er stórt vandamál á Íslandi, þrátt fyrir bann þar um. Líklegt verður þó að telja að einhverjir hugsi sig tvisvar um, skyldi þeim detta í hug að kaupa blíðu einstaklings. En liggur meinið virkilega í eftirspurn einstaklings eftir blíðu annars einstaklings? Verður ekki að spyrja sig hvaða þættir það voru sem leiddu einstaklinginn inn á þá braut að falbjóða líkama sinn? Ólíklegt verður að telja, að manneskjur stundi vændi, eingöngu ánægjunnar vegna. Eftirspurn eftir peningum ræður þar mestu um, en telja verður hæpið að löggjafanum takist að koma í veg fyrir hana með setningu laga sem banna eftirspurn eftir þjónustunni. Vandamálið er félagslegs eðlis og tengist að öllum líkindum félagslegum þáttum sem mótuðu þann sem upp á þjónustuna býður. Einstaklingurinn sér sér ekki fært um að afla tekna með eðlilegum hætti.
Einhverjir hrósuðu happi við setningu laga um ólögmæti þess að kaupa blíðu einstaklinga. Töldu kvenréttindakonur að þar með væri mikill sigur unninn. Afhverju? Ætli þær trúi því að þar með sé vandamálið úr sögunni? Jæja, nú erum við búin að banna þetta og getum snúið okkur að öðru! Og snúa svo höfðinu í hina áttina, sem lengst frá hinu raunverulega vandamáli. Þeim félagslegu þáttum sem skópu þann einstakling, sem hefur svo lélega sjálfsmynd, svo lítið sjálfstraust, að hann sér enga aðra leið færa en að bera líkama sinn á torg hins svarta markaðar, þar sem annar einstaklingur, jafn illa mótaður af nútíma samfélagi svalar fýsnum sínum í skiptum fyrir þann gjaldmiðil sem alltaf verður eftirspurn eftir, peninga! Trúir því virkilega einhver, að ef einstaklingur kýs að falbjóða líkama sinn(kjósi það peninganna vegna), verði ekki til einhver sem sé tilbúinn að borga fyrir það, þrátt fyrir lagasetningu þar um?
Ekki hefur ríkisvaldinu enn dottið til hugar að setja lög sem meina ákveðnum hópum samfélagsins að eignast börn. Slík löggjöf væri of umdeild og líklega væri erfitt að draga fólk í dilka. Of nærri væri gengið að frelsi einstaklingsins. Ekki leikur þó nokkur vafi á því að hæfileikinn til barnauppeldis er ekki öllum gefinn. Þannig elur góður uppalandi barn, jafnoft og slæmur. Aldrei hef ég fyrr heyrt minnst á þá hugmynd að hugsanlega væri hægt að setja námskeið í uppeldi sem skilyrði fyrir því að þiggja barnabætur, fyrr en góð vinkona stakk upp á henni við mig. Afhverju ekki? Uppalandi getur skapað samfélaginu mikinn skaða, ef ekki er rétt að staðið. Engu að síður á hann rétt á greiðslu frá samfélaginu, en engin skilyrði fylgja um fullnægjandi frammistöðu. Þannig eru líkur á að slæmur uppalandi valdi samfélaginu mun meiri skaða, en þann sem samfélagið varð fyrir við afhendingu framlagsins, í formi fjár, til hans. Spurningin er, hvort hægt sé að lágmarka þennan skaða?
Afhverju vilja femínistar og félagshyggjumenn neyða kvenréttindum upp á samfélagið, í staðinn fyrir að ræða rót vandans; uppeldislega þætti sem skapa og móta undirgefnar konur? Ætla femínistar að gera kröfu um það, að ólöglegt verði fyrir tvo einstaklinga að stunda samlífi, nema að víst sé að hvor um sig fái jafn mikla ánægju við ástundun þess? Eða hvers vegna eru til karlmenn sem telja það ásættanlegt að sofa hjá konu sem virðist ekki njóta stundarinnar á nokkurn hátt? Og afhverju eru til konur sem telja það eðlilegt að vera undirgefnar karlmönnum, í stað þess að gera þá einföldu kröfu um jafnræði þar um?
Vissulega er um MIKLA einföldun í þessari grein að ræða, vel má gagnrýna hana fyrir það. En tilgangurinn er sá að benda á að lög koma ekki endilega í veg fyrir lesti mannanna. Lög koma ekki í veg fyrir misnotkun áfengis, eða annarra vímugjafa. Lög koma ekki í veg fyrir að konur séu aldar upp með öðrum hætti en karlmenn. Lög koma heldur ekki í veg fyrir ólíka eiginleika kynjanna, sem vissulega eru mótaðir að miklu leyti af því samfélagi sem við búum í. Lög munu heldur ekki koma í veg fyrir kaup á vændi. Lög eiga, ásamt fleiru, að koma í veg fyrir að manneskja geti með valdi, neytt aðra manneskju til að gera hluti sem sannanlega er ekki hennar vilji.
Bloggar | 28.5.2010 | 01:29 (breytt kl. 09:25) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það er ávallt gaman af því þegar menn í flokki lista eru á öndverðum meiði um skoðanir sem teljast til stórra málefna, eftir því hvort menn eru í lands- eða sveitarstjórn. Dagur B. Eggertsson hefur auglýst atvinnuskapandi stefnumörkun Samfylkingarinnar fyrir kosningarnar í Reykjavík. Á sama tíma birtist viðtal við Árna Pál, flokksbróður Dags, þar sem hann segir að óhjákvæmilegt sé að fækka störfum í almannatryggingakerfinu.[1] Menn tala í báðar áttir þar á bæ, sem endranær.
Vinstri Grænir eru eitthvað á báðum áttum í Grindavík, þegar kemur að kvótakerfinu. Svokölluð fyrningarleið hefur verið á dagskrá hjá VG í landstjórninni[2], en oddviti flokksins í Grindavík, Garðar Páll Vignisson, virðist vera á öndverðum meiði við aðra í flokknum, því í viðtali við vf.is segir hann: Við skulum orða það þannig að hjá pólitíkusum og sjávarútvegsfyrirtækjunum í Grindavík er bara eitt markmið og það er að tryggja að kvótinn verði áfram í Grindavík. Alveg sama hvernig, bara að kvótinn verði áfram hér í Grindavík.
Í kvöldfréttum Stöðvar tvö í kvöld, 26. maí 2010, er sagt frá því að oddvitar allra framboða í Fjarðarbyggð telja uppbyggingu álversins á Reyðarfirði hafa verið til góðs. Augljóslega er enginn samhljómur með oddvitunum þar og þeim sem stjórna landinu nú.
Flestir eru því sammála, að miðstýring er slæm. Við það færist valdið frá fólkinu og til klíku sem telur sig vita hvað sé öllum fyrir bestu. En af einhverjum ástæðum vill Samfylkingin færa valdið fjær borgurunum til stofnanaræðis Evrópusambandsins, sem veit líklega betur en Íslendingar hvað þeim sjálfum er fyrir bestu.
[1] Amx.is benti fyrst á þetta, en því miður fann ég tengilinn ekki.
[2] Þar virðist þetta reyndar einungis vera innantómt hjal, enda er farið að renna upp fyrir mönnum alvarleiki slíks gjörnings.
Bloggar | 26.5.2010 | 23:10 (breytt 27.5.2010 kl. 09:33) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Forsvarsmönnum Vinstri Grænna (VG) virðist vera mikið í mun um að auðlindir Íslands komist ekki undir erlend yfirráð. Á Pressunni í dag birtist grein sem segir frá því viðhorfi Árna Þórs Sigurðssonar, alþingismanns VG, að einkaaðilar ...sem komist hafa yfir orkuauðlindir þjóðarinnar séu í raun að beita opinbera aðila fjárkúgun sem reyni nú að komast á ný yfir hluta orkuauðlinda. Auðlindirnar hafi verið einkavæddar í tíð Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks en það sem nú sé að gerast sé það að opinberir aðilar vilji aftur eignast hlut í HS Orku.
Er þetta viðhorf mjög á skjön við lög nr. 57/1998, sem samþykkt voru í stjórnartíð Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, en í þeim er skýrt kveðið á um eignarrétt á íslenskum auðlindum. Samkvæmt 3.gr.a er ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum í þeirra eigu ...óheimilt að framselja beint eða óbeint og með varanlegum hætti eignarrétt að jarðhita og grunnvatni...[.] Jafnframt kemur fram að heimilt sé ...að veita tímabundið afnotarétt að réttindum [...]til allt að 65 ára í senn.
Ef viðhorf Árna reynist rétt ætti hann að benda ríkissaksóknara á grunsemdir sínar. Hann ætti að geta skorið úr um fyrir Árna og félögum hvort ástæða þyki til að gefa út ákæru. Dómstólar ættu síðan að geta skorið úr um sekt eða sýknu, nema þingmönnum VG þyki ástæða til að íhuga að skerast í leikinn telji þeir að dómsstólar séu ekki sömu skoðunnar og þeir í málinu.
Það er nefnilega ekki verið að selja auðlindir landsins, heldur hlut í fyrirtæki sem á nýtingarréttinn að auðlindum landsins. Þar er munur á sem þingmenn, og aðrir fylgismenn VG, virðast ekki skilja. Viðhorf VG almennt ber vott af þeim þjóðernisrembingi sem svo mjög auðkenndi íslenskt samfélag á árunum fyrir hrun. VG liðar eru augljóslega þeirrar skoðunnar að erlendir fjárfestar geta ekki komið orku til skila á jafn hagkvæman máta og íslenska ríkið og/eða fjárfestar.
Vinstri Grænir eru lítt hrifnir af einkaframtaki og auðvaldssinnum, en vilja veg ríkisins sem mestan. Kemur þetta skýrt fram í málflutningi Árna hér að ofan, svo og málflutningi Lilju Mósesdóttur, þingmanns VG, en í samtali við visir.is segir hún að Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hafi reynt að fá lífeyrissjóðina til að kaupa hlutinn sem um ræðir. Eina ástæðan fyrir því að Steingrímur kaupir hann ekki bara sjálfur, fyrir hönd okkar hinna, er sú að peningastaða ríkisins er af skornum skammti. Sem betur fer fyrir almenning, því Steingrími væri hætt til að kaupa upp öll fyrirtæki landsins.
Bæði Lilja og Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, gagnrýna svo Magma fyrir að hafa leynt þjóðerni fyrirtækisins. Lög kveða svo á um að fyrirtæki utan EES mega ekki fjárfesta á Íslandi. Svandís virðist hins vega ekki hafa áttað sig á þjóðerninu fyrr en að fyrirtækið birti auglýsingu í Fréttablaðinu þar sem þetta kom fram. Hins vegar er vert að benda Svandísi á heimasíðu fyrirtækisins, en þar kemur skýrt fram að fyrirtækið er skráð á hlutabréfamarkaðinn í Kanada. Einnig fór nefnd á vegum Alþingis yfir málið og samþykkti gjörninginn, en Svandís hefur augljóslega eitthvað út á vinnubrögð hennar að setja. Má þá benda Svandísi á að nefndin var þingkjörin og að í henni sitja eftirfarandi (varamenn innan sviga):
Unnur Kristjánsdóttir, formaður (Arnar Guðmundsson)
Silja Bára Ómarsdóttir, varaformaður (Bryndís Haraldsdóttir)
Adolf H. Berndsen (Jóna Benediktsdóttir)
Björk Sigurgeirsdóttir (Ingiveig Gunnarsdóttir)
Sigurður Hannesson (Kolfinna Jóhannesdóttir)
Svandís getur ávallt brugðið á það ráð að senda nefndinni línu til að láta í ljós aðfinnslur sínar, í staðinn fyrir að upplýsa alþjóð um fávisku sína og kunnáttuleysi á víðáttum alnetsins í fréttatímum Sjónvarpsins.
Bloggar | 24.5.2010 | 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Steingrími J. Sigfússyni og Jóhönnu Sigurðardóttur er mikið í mun að skapa norræna velferðarstjórn hér á landi. Það hefur þeim hins vegar ekki tekist, þrátt fyrir mikinn fagurgala þess efnis. Hið ofurþreytta hugtak; Skjaldborg heimilanna sem landsmenn hafa beðið svo lengi eftir hljómar líkt og fjarstæðukennd útópíuparadís sem Biblían lýsir og nú síðast birti Hagstofan niðurstöður sínar úr lífskjararannsókn sem er liður í samræmdri lífskjararannsókn Evrópusambandsins. Í stuttu máli segir þar að tæplega 40% heimila áttu í verulegum vandræðum með greiðslubyrði í upphafi þessa árs og (þ)egar heildarmyndin er skoðuð er fjárhagsstaða heimilanna verri í ársbyrjun 2009 en næstu ár á undan. Líklegt verður að telja að staðan hafi versnað til muna, enda hefur kaupmáttur rýrnað samhliða verðbólgu og ljóst að allir halda að sér höndum hvað launakjör snertir.
En það sem fæstir hugsa út í þegar Steingrímur birtist með fagurgalann, er að velferð kostar samfélagið peninga. Ein af tekjuleiðum ríkisins til að mæta þessum útgjöldum er skattheimta. Það vill svo til að fæstir mega sjá af tekjum sínum til ríkisins, hvort heldur sem um ræðir einstaklinga eða fyrirtæki. Víst er að flestir geta verið sammála um að skattheimta sé þung á Íslandi. Þessi þunga skattheimta kemur í veg fyrir að fólk geti eytt peningunum sínum, sem aftur kemur í veg fyrir að fyrirtækin í landinu rísi upp úr öskustónni, sem aftur leiðir til minnkandi skatttekna ríkisins og kemur jafnframt í veg fyrir að launakjör almennings batni. Þegar öllu er á botninn hvolft kemur í ljós að við höfum einfaldlega ekki efni á að halda úti norrænni velferðarstjórn.
Raunar má spyrja sig hver hagur heildarinnar sé, þegar kemur að því að færa aukakrónur úr einum vasa yfir í þann næsta? Einnig má spyrja hvort það sé réttlát tilfærsla? Löngum hefur verið vitað að ríkið kann illa með fé að fara. Því skiptir máli að takmarka rekstur þess og leyfa frekar einstaklingunum að sjá um það sem þeim er fært að sjá um.
Þegar nánar er að gáð, kemur í ljós að spara á þrjár milljónir króna með lokun geðdeildar Landspítalans í sumar. Hljómar ekki líkt og verk velferðarstjórnar, en auðvitað verða menn að mæta þeim gífurlega fjárlagahalla sem blasir við. Hins vegar sitja menn fastir við sinn keip og hyggjast reisa hér höll Hörpu, þrátt fyrir tug milljarða króna skuldbindingu ríkisins vega byggingarinnar næstu árin. En menningin er mikilvæg, og næsta víst að hér verða menn að geta haldið sómasamlega sinfóníutónleika. Ekki var einu sinni hægt að haga hönnun hússins þannig að hægt væri að nýta það til stærri viðburða, s.s. þegar erlendir stórflytjendur halda tónleika sína í íþróttasölum og una glaðir við, ásamt áheyrendum. Þannig hefði hugsanlega mátt ná inn einhverjum aukakrónum, en NEI, þetta er klassískur kofi, sem færir okkur klassíska menningu. Hver er eiginlega eftirspurnin eftir slíkri menningu? Nóg til að réttlæta fjárausturinn? Næsta víst er að eftirspurnin eftir poppmenningu samtímans er talsvert meiri!
Í skýrslu Tryggva Þórs Herbertssonar, Fjölgun öryrkja á Íslandi, Orsök og afleiðingar,[1] kemur fram að fjöldi öryrkja hefur aukist umtalsvert undanfarin ár. Segir meðal annars ...að kostnaður ríkissjóðs og íslenska lífeyrissjóðakerfisins vegna öryrkja hafi numið um 18 milljörðum kr. árið 2003. Þannig hafa útgjöld ríkisins vaxið úr 3,8 milljörðum kr. árið 1990 í 12,7 milljarða kr. árið 2003. Fjölgun bótaþega skýrir 82% aukningarinnar en 18% stafar af hækkun bótagreiðslna að raunvirði. Jafnframt er kostnaður samfélagsins vegna tapaðra vinnustunda árið 2003, varlega áætlaður tæplega 34 milljarðar kr. á föstu verðlagi.
Bendir Tryggvi á í skýrslu sinni að mest fjölgar í hópi yngri öryrkja og mjög fáir leita út á vinnumarkaðinn eftir að á öryrkjabætur er komið. Skýringin á þessu má að einhverju leiti rekja til ...(m)isræmis á mili lægstu launa og þeirra bóta og styrkja sem örorkulífeyrisþegar eiga rétt á. Þannig hefur myndast fjárhagslegur hvati fyrir þá lægstlaunuðu að sækja um örorkumat. Þetta misræmi skapar neikvæða, eða mjög litla arðsemi þess að hverfa af örorkuskrá og út á vinnumarkaðinn.
Líklega hefur samt ekkert haft jafn mikil áhrif á fjölgun öryrkja og nýr örorkumatsstaðall sem tekinn var í notkun árið 1999. Með honum var örorkumat nánast eingöngu nálgast frá læknisfræðilegu sjónarhorni og einstaklingar geta nú sótt um örorkubætur þrátt fyrir litla, skerta starfsgetu. Þannig er horft fram hjá ...getu einstaklingsins til að afla sér lífsviðurværis.
Jafnframt er áhugavert að skoða fjölda einstaklinga sem sækjast eftir örorkumati. Mestallan tíunda áratuginn hélst fjöldi umsókna nokkuð stöðugur, um 900 á ári. Umsóknum fjölgaði mjög um aldamótin, fóru úr 944 árið 2002 í 1.317 árið 2003. Árið 2004 var fjöldi umsókna kominn upp í 1.622.
Garðar Sverrisson, þáverandi formaður Öryrkjabandalags Íslands, rekur aukningu umsókna til stöðugleikasáttmálans sem gerður var í upphafi tíunda áratugarins, aukins atvinnuleysis samhliða sáttmálanum og aukinnar kröfu atvinnurekenda til vinnuaflsins, í grein sem hann skrifar á vef samtakanna. Skýrsla Tryggva tekur undir þetta og bendir á jákvætt tölfræðilegt samband milli atvinnuleysis og fjölgun öryrkja. Á fyrsta áratug þessarar aldar fór atvinnuleysi þó minnkandi, eftir að hafa haldist nokkuð stöðugt á tíunda áratugnum. Því er varla hægt að kenna nokkru öðru um auknar umsóknir en auknum slaka við örorkumatið, breyttu bótaumhverfi og batnandi kjörum öryrkja, líkt og Tryggvi bendir á.[2]
Annað sem rennir stoðum undir þetta er fækkun frávísana, en hlutfall þeirra fór úr 10% í byrjun tíunda áratugarins í um 20% árið 1998, en var svo komið niður í 7% árið 2004. Með auknum umsóknum hefði fjöldi synjana átt að aukast og því er ljóst að fjöldi umsókna er að fara í gegn sem ættu alls ekki að gera það.
Neikvæð áhrif á fjárhagslega velferð og tekjudreifingu þeirra heimila í landinu sem standa undir kostnaðinum sem fellur til við greiðslu bóta úr tryggingakerfinu ættu að verða okkur öllum til umhugsunar um hvort norrænt velferðarsamfélag sé virkilega ekki til þess fallið að auka fjölda þeirra sem sækist eftir örorkumati án þess að hafa til þess nokkurn rétt, ásamt því að þyngja byrðar þeirra sem að lokum þurfa að borga brúsann, hinnar vinnandi stéttar. Jafnfram er hægt að varpa fram þeirri spurningu hvort hér hafi ekki verið til staðar það norræna velferðarsamfélag, sem Steingrími er svo tíðrætt um að skapa, eða hvað finnst honum eiginlega vanta upp á til þess að svo verði?
[1] Tryggvi Þór Herbertsson: Fjölgun Öryrkja á Íslandi, orsök og afleiðingar, Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, Reykjavík 2005.
[2] Rökin fyrir sambandi milli atvinnuleysis og örorku eru þó sannfærandi að mínu mati og leiðir hugann að því að fjöldi umsókna kemur líklega til með að aukast sem aldrei fyrr í kjölfar þeirrar kreppu sem við stöndum núna frammi fyrir, verði ekkert að gert.
Bloggar | 24.5.2010 | 16:53 (breytt kl. 17:43) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Frá því hrunið varð hefur mörgum orðið tíðrætt um ábyrgð stjórnvalda sem voru við völd á þeim tíma. Sérstaklega hefur komið fram harkaleg gagnrýni á stefnu Davíðs Oddssonar, en margir vilja meina að hún sé rótin að hruninu sjálfu. Öllum er frjálst að hafa skoðun, en hver er skilgreining heimspekinnar á orðinu skoðun?
Í heimspeki er skoðun venjulega skilgreind sem sannfæring án staðfestingar, þ.e. haldi maður að eitthvað sé satt án þess að vita það með vissu. En skoðun og þekking (þekking í merkingunni að vita eitthvað með fullri vissu) eru samrýmanleg hugtök. Þetta þýðir, að ef maður veit eitthvað getur það jafnframt verið skoðun manns.
Hversdagslega er skoðun venjulega sögð vera það að halda að eitthvað sé satt án þess að hafa fyrir því fulla vissu. Í því felst þá sú ranga túlkun að þegar maður veit eitthvað, geti það ekki verið skoðun manns.
Munurinn á þekkingu og skoðun er því falinn í réttlætingu og óhagganleika, staðreyndum! Þannig getur einhver haft skoðun sem getur verið vel eða illa rökstudd, en á sama tíma verið sönn eða ósönn.
Þannig kann einhver að hafa þá skoðun um það hvað eða hver olli bankahruninu. Hann kann jafnvel að hafa þá skoðun að einhver ein manneskja hafi ollið því öllu, jafnvel þó margt hafi komið fram sem bendi sterklega til annars. En án staðfestingarinnar verður skoðunin ekkert annað en íbyggið viðhorf.
Egill Helgason og Ólafur Arnarson eru menn með það íbyggna viðhorf að Davíð hafi verið arkitektinn að öllum okkar óförum. Þessu kasta þeir reglulega fram, oft án þess að færa fyrir því nokkur rök. Eitt dæmi um slíkt er fyrirsögn á dv.is, þar sem vitnað er til Egils: Nú er sagt að aðeins eitt gæti gert út af við Besta flokkinn: Ef Davíð Oddsson lýsti yfir stuðningi við hann Þetta er ódýr brandari sem á að vísa í andúð manna á Davíð, settur fram af manni sem heldur að einhver taki hann alvarlega. Vert er að benda þeim Agli og Ólafi á könnun sem Viðskiptablaðið lét gera á haustmánuðum 2009, þar sem niðurstöður sýndu að tæpur fjórðungur treysti Davíð best til að leiða þjóðina út úr kreppunni. Á eftir honum voru bæði Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon.
Davíð hafði þá skoðun, byggða á verkum virtra fræðimanna og nóbelsverðlaunahafa, að ríkið ætti ekki að koma nálægt fyrirtækjarekstri. Raunar er Davíð ekki einn um þessa skoðun, heldur er þetta viðtekin skoðun nánast hvar sem stigið er niður fæti. Hann, ásamt samstarfsmönnum sínum, hóf því sölu á eignum ríkisins, með hag Íslands og Íslendinga að leiðarljósi. Eða trúir því einhver að manninum hafi gengið eitthvað annað en gott til?
Ég ætla að leyfa mér að benda á regluverk ESB sem stóran þátt í því sem hér gerðist. Reyndar kemur skýrt fram í því regluverki að ábyrgðin hvíli alls ekki á heimaríki banka sem fellur[1], heldur virðist sem leiðtogum ESB finnist það siðferðilega rétt, að fyrst hið íslenska ríki kom sínum EIGIN þegnum til bjargar, þá sé nú rétt að íslenskir þegnar borgi einnig fyrir ógæfu þegna ESB.[2] Forkólfum ESB dettur ekki til hugar að benda þegnum sínum á þá staðreynd að regluverkið var meingallað. Og inn í þessa dásemdar regluverkaparadís vilja forsprakkar Samfylkingarinnar ótrauðir stefna. Ef eitthvað fer ekki eins og til var ætlast, er ábyrgðin færð af einstaklingunum og yfir á samfélagið.
Einhverjir hafa jafnframt bent á það með mikilli visku og fyrirlitningu að hér hafi nýfrjálshyggja og græðgi grandað öllu. Líkt og hér hafi verið einhver hrein og ómenguð frjálshyggja. Frelsi fyrirtækja var vissulega aukið í einhverjum skilningi, en hér var jafnframt margþætt eftirlit, lög og reglugerðir sem áttu að koma í veg fyrir svona óhöpp. Og þegar óhöppin gerast, þá á svo sannarlega að læra af þeim, með ritun faglegrar skýrslu, stofnun nefnda sem eiga að fara yfir hitt og þetta sem miður fór, allt til þess að auka við reglurnar og eftirlitið svo ganga megi kyrfilega úr skugga um að svona hlutir endurtaki sig nú aldrei aftur.
En dettur virkilega nokkrum í hug að hægt sé að koma í veg fyrir að þetta komi fyrir aftur með því einfaldlega að setja reglur sem segja að þetta geti ekki komið fyrir aftur? Sem dæmi má nefna, að til er heill staðall, bara um venslaða aðila sem fyrirtækjum ber að fara eftir, sem gefinn var út af Alþjóðanefnd endurskoðenda (FASB). Er ekki að renna upp fyrir mönnum að eftir þessum reglum, ásamt fleirum, var bara einfaldlega ekki farið?
Sjá virkilega ekki allir þá einföldu staðreynd að það sem kollvarpaði efnahag okkar var ekki gjaldþrot nokkurra fyrirtækja, heldur sá sú barnslega einfeldni okkar að halda að við gætum borið ábyrgð á gjaldþroti þeirra, ásamt blindri ofurtrú okkar allra á ofurmannlega viðskiptahæfileika þjóðarinnar. Er ekki möguleiki á að stjórnendur þessara fyrirtækja hefðu hagað sér með öðrum og ábyrgari hætti, vitandi að ríkið kæmi ekki með útbreiddan faðminn ef illa færi? Væri ekki líklegra að einstaklingar myndu vanda val sitt betur við val á viðskiptabanka og/eða fjárfestingum ef ábyrgðin væri þeirra eigin? Ef menn vilja vera öruggir má alltaf fjárfesta í ríkisskuldabréfum.
[2] Reyndar var ekki um neina mismunun að ræða, þ.e. allar innistæður á reikningum hérlendis voru tryggðar, óháð þjóðerni eigandans, líkt og bent hefur verið á.
Bloggar | 23.5.2010 | 17:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ef kvótanum hefði verið dreift á almenning, líkt og einhverjir hafa bent á að hefði verið sanngjarnt, hefði fólk fengið kvóta sem aldrei hafði komið nálægt sjómennsku og kunni ekkert til slíkra verka. Þetta fólk hefði síðan að öllum líkindum selt sinn kvóta, útgerðarmönnum og þeim sem höfðu nýtt auðlindina gjaldfrjálst og óheft fram að þessum tíma, til mikillar fjárútláta. Hefði það verið sanngjarnt? Nei!
Hafið er eins og búsetujörð, auðlind sem einhver þarf að nýta. Nú er svo komið að einhver bóndi á búsetujörð sem við skulum kalla X en hún er stödd á landinu MÍNU, Íslandi. Veitir það mér einhvern rétt til að nýta þessa jörð eða gera annað tilkall til hennar? Nei, vegna þess að bóndinn á jörðina og hefur annaðhvort keypt hana eða hún gengið mann fram af manni til þess sem svo tók við henni til ræktar. Nú var land numið hér fyrir einum þúsund árum og menn eignuðu sér þessar jarðir, þeir borguðu ekki fyrir hana. Líkt og með kvótakerfið, fékk ríkissjóður aldrei neinar tekjur af sölu á jörðum í upphafi. Líkt og John Stuart Mill benti svo réttilega á í bókinni sinni Frelsið kemur þetta þeim sem á eftir koma og fá enga jörð (eða engan kvóta) alls ekki illa, því hvort vildir þú vera innflytjandi á Íslandi í dag eða á Íslandi fyrir 1000 árum? Hugmyndin um að afturkalla kvóta er sambærileg við þá hugmynd að ríkið tæki jarðir landsins eignarnámi og dreifði upp á nýtt. Eftir 100 ár verða svo komnar nýjar kynslóðir sem fengu heldur engan kvóta og hvað á þá að gera? Dreifa upp á nýtt?
Kvótakefið og eignaraðild á bújörðum er svo sambærilegt að því leiti að of margir stunduðu fiskveiðar við Íslandsstrendur en í raun var þörf á. Ólíkt bújörðunum, var enginn eigandi að hafinu, eða auðlindum þess öllu heldur. Til að sporna við ofveiðinni var nauðsynlegt að koma á skipulegri eignaraðild líkt og gert hafði verið 1000 árum áður við jarðirnar í landinu. Slíkt var nauðsynlegt vegna þess að fólk hirðir ekki um það sem það ekki á og hefur engan hag af að hirða um. Þannig kepptust menn við að veiða sem mest þeir máttu og hugsuðu ekki um afleiðingarnar vegna þess að þeir höfðu engan hag af því. Skammtímasjónarmið voru höfð að leiðarljósi, ólíkt því sem nú gerist meðal útgerðarmanna þar sem langtímasjónarmið og skipulagning er í hávegum höfð alveg eins og hjá öðrum þeim sem eiga sínar auðlindir. Og þegar loks kom að því að kvótanum var úthlutað fékk ég engann kvóta og þú ekki heldur vegna þess að hvorki þú né ég höfðum átt skip sem veitt hafði fisk. Þú hafðir aldrei haft lífsviðurværi þitt af sjómennsku og áttir þar af leiðandi ekkert tilkall til auðlindarinnar, áttir ekkert undir með að fá kvótanum úthlutað. Með öðrum orðum, þú græddir ekki neitt en þú tapaðir heldur ekki neinu. Að vísu var með komið í veg fyrir að þú gætir keypt þér skip og byrjað að stunda veiðar án nokkurs tilkostnaðar en það var nauðsynlegt og hinn raunverulegi tilgangur með kvótakerfinu. Þú getur ekki keypt þér traktor og byrjað að yrkja jörð, þú verður að byrja á því að kaupa jörðina.
Með kvótakerfinu var svo snilldarlega fækkað þeim sem stundað höfðu sjóinn. Það var gert HÆGT! Ef ríkið hefði selt kvótann, sem einhverjum hefur þótt góð hugmynd, þá hefði einungis þeim sem best voru staddir fjárhagslega gert kleift að kaupa þann kvóta sem í boði var. Ríkið hefði þannig gert fjöldann allan af fólki atvinnulaust með einu pennastriki. Snjallt?
Nauðsynlegt var að fækka skipum og með kvótakerfinu var séð til þess að þeir sem ekki sáu hag sínum borgið í fiskveiðum gátu selt þennan kvóta og þar með lokið sinni starfsemi í sjávarútvegi. Ríkið þurfti ekki að borga þeim skaðabætur sem þeir líklega annars hefðu átt rétt á ef ríkið hefði selt kvótann og þeir ekki getað keypt, þ.e. búið var að kippa undan þeim lifibrauði sínu. Þeir sem betri voru urðu eftir og borguðu hinum skaðabæturnar sem ekki voru jafngóðir fyrir að leggja niður vinnu, snúa sér annað og jafnfram fyrir að sjá á eftir þeim fjárfestingum sem þeir á annað borð höfðu lagt í sína útgerð.
Þú getur svo aftur yfirfært hugmyndina um jarðirnar ef þú vilt tala um að ríkið eigi að leigja kvótann. Á þá ríkið ekki alveg eins að taka jarðirnar eignarnámi og leigja bændunum þær aftur? Svar þitt er að öllum líkindum nei og að sama skapi á ríkið ekki að eiga kvóta og leigja hann öðrum til afnota. Leigjandi fer aldrei jafnvel með eign og eigandi hennar gerir. Ríkið á heldur ekki að afla tekna með slíkum aðferðum, heldur á skattkerfið að sjá til þess og ég veit ekki betur en að sjávarútvegurinn skili sínu í ríkissjóð ásamt miklum gjaldeyristekjum.
Að lokum, það kemur hvorki mér, þér né nokkrum öðrum við hvernig eigandi auðlindar nýtir hana, svo framarlega sem hann veldur ekki öðrum skaða með framferði sínu. Þar með er ég þó ekki að skjóta loku fyrir það að ríkið geti sett honum reglur en þær ættu þó helst að lúta að umhirðu auðlindarinnar. Hvernig útgerðarmaður telur rekstri sínum best borgið, hvort heldur er með að selja fisk á markað, fullvinna hann hér eða annars staðar hlýtur að vera best undir honum komið. Hann er nauðbeygður að leitra allra leiða til að fá sem hæst verð fyrir afurð sína og selja hana með sem lægstum tilkostnaði. Ef það kostar meira að vinna hana hérlendis hlýtur hann að láta vinna hana annarsstaðar, annað væri órökrétt og heimskulegt. Þetta er hagur allra vegna þess að því meira sem skilar sér til eigandans, því meira skilar sér til okkar í gegnum skattkerfið. Og ég get fullvissað þig um það, og þó að alltaf megi gera betur, að eftir veru mína á sjó reyna menn að leita allra leiða til að hámarka aflaverðmætið og þó að vissulega séu gallar á þessu kerfi þá tel ég að ekkert annað kerfi sé betur til þess fallið að leysa það af hólmi.
Fyrningarleið víst farin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 7.5.2009 | 02:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Lést af völdum áverka | |
Tenging við þessa frétt hefur verið rofin vegna kvartana. |
Bloggar | 10.11.2008 | 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Rússneskur barnaníðingur ákærður af 19 stúlkum í Kambódíu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 16.11.2007 | 10:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég komst ekki hjá því að verða ansi hvumsa þegar ég hlustaði á síðdegisþátt Bylgjunnar í dag. Þangað hringdi fólk inn eftir að stjórnendur höfðu varpað fram þeirri spurningu hvort múslimar mættu reisa sér mosku á Íslandi. Málið hefur vakið talsverða eftirtekt, enda ekki að ósekju. Í stuttu máli hafa íslenskir múslimar sótt um að fá að reisa umrædda mosku en lítil sem engin viðbrögð fengið frá yfirvöldum.
Já, kerfið getur verið erfitt og svifaseint, það þekki ég af eigin raun. En viðbrögð þeirra sem hringdu inn komu mér þó talsvert meira á óvart heldur en viðbragðsleysi yfirvalda. Meirihluti hlustenda vildi ekki sjá neina mosku hér á landi og einn gerðist meira að segja svo ósvífinn að segja að vonandi myndu einhverjir mætir menn kveikja í draslinu (eins og hann orðaði það) ef hún yrði á annað borð reist. Mér finnst afskaplega sorglegt þegar menn er þeirrar ógæfu aðnjótandi að hugsa ekki skoðanir sínar til enda.
Í fyrsta lagi ríkir trúfrelsi á Íslandi samkvæmt 63. gr. stjórnarskrárinnar. Þeim sem á Íslandi búa er því fullkomlega frjálst að trúa því sem þeir vilja trúa, hvað svo sem öðrum kann að finnast um þeirra trú. Þeir sem vilja ekki leyfa múslimum að byggja mosku hafa greinilega ekki enn frétt af þessari grein eða vilja ekki sætta sig við hana. Þeim sem á Íslandi búa er einnig frjálst að tjá skoðanir sínar, slíkt er kallað tjáningafrelsi og er einnig lögbundið í stjórnarskránni okkar, nánar tiltekið í 73. grein. Þetta tvennt, ásamt öðru, er jafnan talið vera hornsteinn hinna frjálsu ríkja, sem við viljum endilega kenna okkur við. Þeir sem eru á móti því að múslimar byggi sér mosku, og greinilega einnig á móti trúfrelsi, ættu gjarnan að spyrja sig að því hvort þeir væru ekki tilbúnir til að missa þau sjálfsögðu réttindi (að mér finnst, þau eru það þó ekki) að mega tjá sig. Við værum þó að minnsta kosti laus við þessa blogg vitleysu í mér, frjálsa fjölmiðla og einnig að hlusta á fólk sem hringir inn á Bylgjuna.
Trú er ákveðin menning og það fylgir ákveðin menning ákveðinni trú. En það að fremja hryðjuverk eða annan glæp er ekki boðað í Kóraninum og er ekki hluti af trú múslima. Trúarbrögð fremja ekki glæpi né hryðjuverk, glæpir og hryðjuverk eru framin í nafni trúarinnar. Það er þó ekki þar með sagt að sá sem fremji glæpinn fremji hann með samþykki allra hinna sem iðka sömu trú og sökudólgurinn. Flestir sem iðka múslimatrú eru ekkert frábrugðnir okkur, þeim þykir alveg jafn vænt um náungann og okkur sem iðkum kristna trú. Í Kóraninum (helgirit múslima) er raunar boðað umburðarlyndi gagnvart annarri trú: (Tekið af vef múslima á Íslandi, islam.is)
Í nafni Guðs, hins náðuga, hins miskunnsama
1. Segðu: ó þið vantrúaðir!
2. Ég tilbið ekki það sem þið tilbiðjið
3. Né tilbiðjið þið það sem ég tilbið
4. Og ég mun ekki tilbiðja það sem þið tilbiðjið
5. Né munuð þið tilbiðja það sem ég tilbið
6. Fyrir ykkur sé ykkar trú og fyrir mig sé mín trú.
Mér finnast þetta vera falleg orð, bera vott um það umburðarlyndi sem almennt er boðað í Kóraninum. Múslimatrú er ekki verri en önnur trú. Öll trúarbrög eru af hinu góða svo framarlega sem þau veita þeim sem þau iðka sálarstyrk og skaða hvorki þá sem þau iðka, né hina sem þau ekki iðka. Sýnið öðrum umburðarlyndi og þið verðið einnig umberin......
Guð veri með ykkur
Bloggar | 19.9.2007 | 20:51 (breytt kl. 20:55) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)