Dólgafrjálshyggja Sjálfstæðisflokksins

Katrín Jakobsdóttir fer mikinn í gagnrýni sinni á fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, og segir glitta í dólgafrjálshyggju Sjálfstæðisflokksins. Ég get ekki varist því, sem eindreginn frjálshyggjumaður, að ég varð hvumsa við þessi orð Katrínar. Ég get ekki fallist á söguskoðun vinstri manna, um að hér hafi frjálshyggja ráðið lögum og lofum, árin fyrir hrun, og átt sinn þátt í gjaldþroti íslensku bankanna. Þvert á móti, hér var ekki nógu mikil frjálshyggja.

En svo datt mér það snjallræði í hug að fletta orðinu dólgur upp í orðabók, vitandi það að Katrín Jakobsdóttir er með BA í íslensku. Í raun er fátt merkilegt um það að segja, en fyrir neðan kom í ljós að orðið er notað sem forliður samsetninga um yfirborðslegar kenningar,, s.s. dólgamarxismi, en það er einmitt eitt af þeim dæmum sem notað er í minni bók. Þetta vissi Katrín, en líklega ekki margir aðrir, sem, líkt og ég til að byrja með, hneyksluðust á ummælum Katrínar. Og þetta get ég alveg tekið undir. Sjálfstæðisflokkurinn stundaði dólga-, eða yfirborðskennda, frjálshyggju, á árunum fyrir hrun. Ég myndi kalla það pilsfaldakapítalisma, en innlegg Katrínar er gott, sérstaklega í ljósi þess að henni tókst að hrista upp í frjálshyggjumönnum.

Ég er ánægður með að Katrín skuli ekki hafa fallið í þann forarpytt að notast við ónefnið nýfrjálshyggja. Sjálfir vita frjálshyggjumenn ekki um neina gamla, og voru aldrei látnir vita að hún hefði gengið í einhverja endurnýjun lífdaga. Boðskapurinn er skýr, og hefur lítið breyst frá dögum Adam Smith; laizzez faire, eða látið markaðinn vera. Vissulega hafa menn skrifað og rætt um hvað frjálshyggja sé, og hvað teljist til frjálshyggju, á þessum rúmu 200 árum sem liðin eru, og sitt sýnist hverjum í þeim efnum. Sumir telja það til frjálshyggju að loka landamærum, á meðan aðrir vilja leggja niður allt landamæraeftirlit. En eitt er þó skýrt, eitthvað sem allir frjálshyggjumenn eru sammála um. Þeir vilja veg einstaklingsins sem mestan, en ríkisins sem minnstan. Það er engin regla um hvert jafnvægið þarna á milli eigi að vera, en þó eru flestir sammála um að flest ríki heimsins taki til sín of stóran hluta af þjóðarframleiðslunni. Á árunum fyrir hrun óx hluti ríkisins í þjóðarframleiðslunni, og frjálshyggjumenn munu seint kvitta undir að einhver frjálshyggja felist í því, hvorki gömul né ný.

Ég vona svo auðvitað að Sjálfstæðisflokkurinn láti af dólgafrjálshyggjunni, og taki upp eindregna og staðfasta frjálshyggju, en ég veit að það er fjarlægur draumur. Frjálshyggja er róttækt kerfi, en Sjálfstæðisflokkurinn er íhaldsflokkur sem vill ekki of miklar breytingar. Í raun má færa fyrir því rök að allir stjórnmálaflokkarnir vilji standa vörð um óbreytt kerfi, en það er efni í annan pistil. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband