Það tíðkast alls staðar annars staðar...

Eftir að hið svokallaða Lekamál kom upp hafa hinir réttsýnu margsinnis bent á, að víðast hvar myndu ráðherrar segja af sér, ef upp kæmu sambærileg mál á þeirra vakt. Auðvitað fylgja þessum fullyrðingum aldrei eitt einasta dæmi. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, er fullyrðingaglaður í dag og fullyrðir að „[í] öll­um öðrum lönd­um, á öll­um tím­um og á Íslandi allt fram til þessa dags hefði það leitt til þess að ráðherr­ann axlaði póli­tíska ábyrgð og segði af sér.“

Á síðasta kjörtímabili sat ríkisstjórn sem missteig sig svo oft, og svo illa, að varla verður tölu á komið. Árni Páll var ráðherra í þeirri ríkisstjórn og studdi tilveru hennar sem þingmaður. Og málefnin voru umtalsvert stærri heldur en leki á ómerkilegu minnisblaði úr ráðuneyti. Nægir að minnast á stjórnarskrármálið, Evrópusambandsaðildina og Icesave-málið. Hanna Birna hefur aldrei legið undir grun um lögbrot, en Árni Páll vill meina að stjórnmálamenn eigi að bera ábyrgð á gjörðum sínum til að hlífa stjórnkerfinu.. Það er nefnilega það. Það er orðið ansi auðvelt að koma ráðherrum frá. Brjótumst inn í tölvur, lekum eins og einu viðkvæmu, ómerkilegu skjali, klínum því á aðstoðarmanninn, fáum vini okkar í DV til liðs við okkur, gerum kröfu um afsögn, og volai!

En afhverju fór Árni Páll ekki fram á afsögn ríkisstjórnarinnar á síðasta kjörtímabili, t.d. þegar hún tapaði Icesave málinu 98-2? Var það til að halda hlífiskyldi yfir stjórnkerfinu? Eða þegar tveir af ráðherrum hennar, þær Jóhanna Sigurðardóttir og Svandís Svavarsdóttir, voru dæmdir fyrir að brjóta jafnréttislög

Er ekki rétt að staldra við og spyrja hver hafi haft hag af því að leka þessu ómerkilega minnisblaði? Var það Hanna Birna, eða aðstoðarmaðurinn? Nei, þau höfðu engan hag af því, einungis mikinn skaða, líkt og bersýnilega hefur komið í ljós. Einhver sem er í nöp við ráðherrann? Já, það lætur nærri. Reyndar vilja DV-menn meina að hagur ráðherra hafi verið sá að sverta mannorð þess sem um ræddi í minnisblaðinu. Það er aum skýring. Telja verður hæpið að ráðherra sé að skipta sér af einstaka málum, hvað þá að fara í manngreinarálit. Hver voru viðbrögð blaðamannsins, Jóns Bjarka Magnússonar, þegar hann komst yfir minnisblaðið? Voru þau að skrifa frétt um það? Nei. Hann áframsendir það í tölvupósti til lögmanna málsaðilaundir fyrirsögninni „Minnisblaðið komið!“, líkt og Andrés Magnússon bendir á. Það hefur líklega hlakkað í honum, enda þykir DV mönnum lítt til Sjálfstæðisflokksins og Hönnu Birnu koma. Ekki ber þetta vott um mikla fagmennsku af hendi Jóns Bjarka, enda svo sem ekki við því að búast. Auvitað ætlast enginn til þess að blaðamenn séu lausir við skoðanir, en það er spurning hvernig maður fer með þær. 

Blaðamenn DV kalla ekki allt ömmu sína, þó líklegt verði að teljast að þeim myndi hugnast síðasti forsætisráðhenna vel. Líklegt verður að telja að þeim finnist að tilgangurinn helgi meðalið, og að þeir myndu leita ansi langt eftir því. Vert er að minnast á gagnastuld ungs manns úr gagnaþjónum Milestone, en ljóst þótti að DV hefði nýtt sér þau gögn í fréttaflutningi sínum. Áður hafði fréttastofu Vísis verið boðin þau til kaups, en neitað. DV-menn voru einir sem höfðu hag af því að minnisblaðið færi úr ráðuneytinu, þó svo að þeir skáldi upp annað. Ekki nóg með að þeir hafi fengið margra mánaða fréttamat, heldur komu þeir höggi á pólitískan andstæðing. Það eru tvær stórar flugur í einu höggi.




 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband