Ég komst ekki hjá því að verða ansi hvumsa þegar ég hlustaði á síðdegisþátt Bylgjunnar í dag. Þangað hringdi fólk inn eftir að stjórnendur höfðu varpað fram þeirri spurningu hvort múslimar mættu reisa sér mosku á Íslandi. Málið hefur vakið talsverða eftirtekt, enda ekki að ósekju. Í stuttu máli hafa íslenskir múslimar sótt um að fá að reisa umrædda mosku en lítil sem engin viðbrögð fengið frá yfirvöldum.
Já, kerfið getur verið erfitt og svifaseint, það þekki ég af eigin raun. En viðbrögð þeirra sem hringdu inn komu mér þó talsvert meira á óvart heldur en viðbragðsleysi yfirvalda. Meirihluti hlustenda vildi ekki sjá neina mosku hér á landi og einn gerðist meira að segja svo ósvífinn að segja að vonandi myndu einhverjir mætir menn kveikja í draslinu (eins og hann orðaði það) ef hún yrði á annað borð reist. Mér finnst afskaplega sorglegt þegar menn er þeirrar ógæfu aðnjótandi að hugsa ekki skoðanir sínar til enda.
Í fyrsta lagi ríkir trúfrelsi á Íslandi samkvæmt 63. gr. stjórnarskrárinnar. Þeim sem á Íslandi búa er því fullkomlega frjálst að trúa því sem þeir vilja trúa, hvað svo sem öðrum kann að finnast um þeirra trú. Þeir sem vilja ekki leyfa múslimum að byggja mosku hafa greinilega ekki enn frétt af þessari grein eða vilja ekki sætta sig við hana. Þeim sem á Íslandi búa er einnig frjálst að tjá skoðanir sínar, slíkt er kallað tjáningafrelsi og er einnig lögbundið í stjórnarskránni okkar, nánar tiltekið í 73. grein. Þetta tvennt, ásamt öðru, er jafnan talið vera hornsteinn hinna frjálsu ríkja, sem við viljum endilega kenna okkur við. Þeir sem eru á móti því að múslimar byggi sér mosku, og greinilega einnig á móti trúfrelsi, ættu gjarnan að spyrja sig að því hvort þeir væru ekki tilbúnir til að missa þau sjálfsögðu réttindi (að mér finnst, þau eru það þó ekki) að mega tjá sig. Við værum þó að minnsta kosti laus við þessa blogg vitleysu í mér, frjálsa fjölmiðla og einnig að hlusta á fólk sem hringir inn á Bylgjuna.
Trú er ákveðin menning og það fylgir ákveðin menning ákveðinni trú. En það að fremja hryðjuverk eða annan glæp er ekki boðað í Kóraninum og er ekki hluti af trú múslima. Trúarbrögð fremja ekki glæpi né hryðjuverk, glæpir og hryðjuverk eru framin í nafni trúarinnar. Það er þó ekki þar með sagt að sá sem fremji glæpinn fremji hann með samþykki allra hinna sem iðka sömu trú og sökudólgurinn. Flestir sem iðka múslimatrú eru ekkert frábrugðnir okkur, þeim þykir alveg jafn vænt um náungann og okkur sem iðkum kristna trú. Í Kóraninum (helgirit múslima) er raunar boðað umburðarlyndi gagnvart annarri trú: (Tekið af vef múslima á Íslandi, islam.is)
Í nafni Guðs, hins náðuga, hins miskunnsama
1. Segðu: ó þið vantrúaðir!
2. Ég tilbið ekki það sem þið tilbiðjið
3. Né tilbiðjið þið það sem ég tilbið
4. Og ég mun ekki tilbiðja það sem þið tilbiðjið
5. Né munuð þið tilbiðja það sem ég tilbið
6. Fyrir ykkur sé ykkar trú og fyrir mig sé mín trú.
Mér finnast þetta vera falleg orð, bera vott um það umburðarlyndi sem almennt er boðað í Kóraninum. Múslimatrú er ekki verri en önnur trú. Öll trúarbrög eru af hinu góða svo framarlega sem þau veita þeim sem þau iðka sálarstyrk og skaða hvorki þá sem þau iðka, né hina sem þau ekki iðka. Sýnið öðrum umburðarlyndi og þið verðið einnig umberin......
Guð veri með ykkur
Flokkur: Bloggar | 19.9.2007 | 20:51 (breytt kl. 20:55) | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.