Jeff Deist, fyrrum liðsmaður Ron Paul, og núverandi starfsmaður Mises stofnunarinnar í Bandaríkjunum hélt ræðu á fundi sem bar heitið "Society Without the State" (Samfélag án ríkisvaldsins). Ræðan var svo birt, í styttri útgáfu á vef Mises stofnunarinnar. Ég ákvað að þýða hana lauslega.
Deist lýtur framtíðin björtum augum, og telur ástæðu fyrir frjálshyggjumenn að vera bjartsýna. Einhver bjartsýnasti frjálshyggjumaðurinn, að mati Deist, var Murray Rothbard. Hann var hamingjusamur fræðimaður sem var mjög áhugasamur og ákafur um byltingu hugmynda frjálshyggjunnar, því hann skildi að frelsi væri eina leiðin til að skipuleggja samfélagið í samræmi við mannlegt eðli og mannlega hegðun.
Og það var þessi bjartýni, þessi óbilandi trú á því að við (frjálshyggjumenn) hefðum rétt fyrir okkur og að miðstýringarsinnarnir rangt fyrir sér, sem varð þess valdandi að hann skrifaði gríðarlegt magn verka til varnar einstaklingsfrelsi. Rothbard leit á hugmyndir sínar sem raunsæjar, en ekki óraunhæfar eða útópískar. Það var fyrst og fremst þessi útópíska sýn, sú trú manna að til væri hægt að búa til fyrirmyndarríkið, sem gat af sér alla einræðisherra síðustu aldar (sem enn sér auðvitað ekki fyrir endan á) og margar af þeim styrjöldum sem háðar voru, að hans mati.
En fyrst og fremst skildi Rothbard að hinir sönnu fyrirmyndarríkjasinnar (þeir sem halda að hægt sé að skapa fyrirmyndarríki, eða útópíu) eru miðstýringarmennirnir sem standa í þeirri trú að þeir geti sigrast á mannlegu eðli og stjórnað mannlegum leikendum efnahagslífsins líkt og um búfénað væri að ræða, eða með orðum Rothbard; "Sá maður sem lætur allar byssur og ákvarðanatökuvald í hendur ríkisstjórnarinnar og segir valdhöfunum svo að hafa stjórn á sér; það er hann sem sannarlega er óraunhæfur fyrirmyndarríkjasinni." (e. The man who puts all the guns and all the decision-making power into the hand of the government and then says, Limit yourself; it is he who is truly the impractical utopian.) Rothbard taldi að heimurinn yrði betri ef hugmyndir frjálshyggjunnar væru í hávegum hafðar, en hann yrði þó alls ekki fullkominn. En á sama tíma og bylting okkar er svo sannarlega vitsmunaleg, þá er hún jafnframt bjartsýn og raunhæf.
Allir frjálshyggjumenn hafa kynnst því að frjálshyggjan sé talin óraunhæf af öðru fólki. Það er eitt að skrifa og tala um kapítalisma án ríkis, en þannig samfélag væri óraunsætt og of gott til að vera satt.
En ef þú trúir því að ríkið sé skaðlegt, fremur en vel meinandi; ef þú trúir að ríkið ógni einstaklingsréttindum og eignarréttindum, frekar en að verja þau; ef þú trúir því að ríki dragi úr líkunum á friði og velmegun; ef þú trúir því að ríkið sé yfirhöfuð verkfæri sem leiðir einungis til slæmrar niðurstöðu, niðurstöðu sem gerir okkur öll verr sett, afhverju er óraunhæft að tala um útrýmingu þess?
Takið eftir að ásakanirnar um að vera óraunsæ, óraunhæf eða hugmyndafræði sem sé of góð til að geta gengið upp, er aldrei beitt þegar talað er um lækningar eða glæpaforvarnir. Enginn segir við þann sem rannsakar krabbamein að hann ætti að vera raunsærri, krabbamein og aðrir lífshættulegir sjúkdómar munu alltaf vera til. "Afhverju vinnurðu ekki frekar að því að minnka alvarleika kvefs?"
Enginn segir við rannsóknarlögreglumanninn að skipulögð glæpastarfsemi sé bara partur af mannlegu eðli og eitthvað sem við þurfum bara að sætta okkur við, því það er vonlaust að koma í veg fyrir hana. "Hugsanlega ættirðu bara að einbeita þér að stolnum hjólum."
Hvers vegna ættum við því að vera full eftirsjár vegna mistaka sem hafa ekki verið gerð, eða huglítil, eða minna en full bjartsýni í baráttu okkar gegn ríkinu. Við ættum nefnilega ekki að vera það. Líkt og rannsakendurnir báðir ættum við að vera áræðin, við ættum að vera bjartsýn og við ættum að vera kröftug í andstöðu okkar við ríksstjórnina. Við ættum að vera alveg jafn sannfærð um endanlega útkomu baráttu okkar.
Því við munum vinna. Ríkið, að minnsta kosti í núverandi mynd, er flýtur sofandi að feigðarósi vegna gríðarlegs fjárlagahalla sem orðinn er ósjálfbær.
Hagfræðingurinn Herbert Stein, sem vann náið með Nixon og Ford (fyrrum forsetum Bandaríkjanna), setti fram lögmál; "Ef eitthvað getur ekki gengið til eilífðar, þá mun það stöðvast." Það hljómar einfalt, en hann notaði það til að lýsa efnahagslegri þróun greiðslujöfnuðar (mismunur á því sem ríki selur og hvað það flytur inn). Hann vildi meina, að enga áætlun þyrfti til að stöðva eitthvað sem myndi einfaldlega stöðvast af sjálfsdáðum, þetta eitthvað verandi það sem ekki væri hægt að viðhalda til eilífðar. Og augljóslega getur bandarísku alríkisstjórninni, valdamestu stjórn heimsins, ekki verið viðhaldið, ef menn líta til fjárlagahallans. Það er einfaldlega engin leið út úr þeim ógöngum sem menn eru búnir að koma sér í.
Við erum ekki einungis að tala um 17 þúsund milljarða skuld ríkissjóðsins við lánadrottna sína. Við erum að tala um ósjálfbærni á mun stærri skala. Núvirði heildar framtíðartekna að frádregnu núvirði heildarskuldbindinga ríkissjóðs Bandaríkjanna, sýnir að bilið er nær því að vera 200 þúsund milljarðar!
Og verið viss um að það er enginn pólitískur vilji í Wahington til að skera niður í stærstu kostnaðarliðuum. Og það er heldur enginn vilji til að hækka skatta svo nokkru nemi, sem myndi hvort eð er ekki hjálpa. Stjórnmál munu ekki leysa þetta vandamál. Ríkisfjármálin verða ekki leiðrétt. Við munum ekki vaxa út úr þessu. Eina leiðin sem fær er, og gerir hlutina einungis alvarlegri, er að prenta peninga.
Það kann að hljóma fyndið, en þessi staða ætti að fylla okkur bjartsýni. Við vitum að núverandi ástand verður ekki framhaldið, og því munum við, hugsjónamenn frelsis, hafa gríðarlegt tækifæri til að benda á þetta og byrja að byggja upp til framtíðar. Við þurfum ekki að vinna undir þeirri tálsýn að allt muni ganga sinn vanagang, að kerfið muni komast í lag ef við betrumbætum það og kjósum rétta fólkið. Við getum verið heiðarleg og viðurkennt að lýðræði virkar ekki, og mun ekki virka. Og því fyrr, því betra. Við ættum að fagna þessum skilningi okkar, því að engar framfarir í átt til frelsis verða nema við skiljum þann raunveruleika sem við búum við og það vandamál sem við glímum við.
En það er jafnframt dýpri og ánægjulegri ástæða fyrir bjartsýni. Ríkið er ekki einungis ósjálfbært fjárhagslega, heldur jafnframt vitsmunalega. við ættum að vera full bjartsýni því við lifum á tímum, sem Hans-Hermann Hoppe (hagfræðingur) kallar "frá botni og uppúr" byltinguna (e. "bottom-up" revolution). Hún dregur nafn sitt af því að hún byrjar hjá einstaklingnum og er staðbundin. Jafnframt vegna þess að hún stólar á róttæka valddreifingu og flótta frá hinum pólitísku stofnunum. Ennfremur vegna þess að hún sniðgengur pólitík og hefðbundinn valdastrúktúr. Og síðast en ekki síst, vegna þess að hún sniðgengur ríkisskóla, hugsuði sem eru handgengnir núverandi ástandi og fjölmiðla, sem allir eru jafnframt handgengnir ríkinu og eru fremur hlynntir meiri miðstýringu en minni.
Ríkisstjórnir, og þær pólitísku stéttir sem stjórna þeim, standa andspænis ofbeldislausri byltingu hugmynda sem var óhugsandi fyrir tuttugu árum. Og þessi bylting mun hitta í hjartastað einu raunverulegu eign þessara ríkja; lögmæti þeirra í augum þeirra sem eru þeim handgengnir. Byltingin er byggð á upplýstum einstaklingum sem, í auknum mæli, þurfa ekki á pólitískum-, fræðilegum- eða vísindalegum elítum til að ráðskast með líf sitt. Hún er byggð á þeirri staðreynd að innlendar, jafnt sem alþjóðlegar, stjórnir hafa brugðist í leit sinni að lausn gríðarlegra kerfislægra vandamála, s.s. hungursneiðar, heilbrigðisþjónustu, orku og efnahagslegrar framþróunar. Byltingin er byggð á róttækri valddreifingu, bæði pólitískri og annarskonar, þvi fjölbreytni áhugamála einstaklinganna krefst þess bundinn sé endir á úrskurði sem koma ofanfrá, að bundinn sé endir kúgun 51% kjósendanna.
Þetta getur gerst, og þetta er að gerast, jafnvel án þess að samþykki eða skilningur á frelsi meðal meirihluta fólks sé nauðsynlegt. Fólkið sér með eigin augum að ríkið gengur ekki upp í núverandi mynd, og það fer því óhjákvæmilega að horfa í aðra átt.
Tækni skipar stóran sess í byltingunni. Tæknin hefur veitt okkur þann möguleika að finna þá sem hafa svipaðar skoðanir og við sjálf hvar sem er í heiminum, og til að bera saman gögn og það sem núverandi stjórnvöld hafast við. Tæknin hefur tekið einokun á markaði hugmyndanna frá hefðbundnum fjölmiðlum. Hún hefur lækkað kostnað við lærdóm og öflun þekkingar. Hún hefur bókstaflega fært megnið af þekkingu mannkyns að fingurgómum okkar! Stjórnvöld munu eiga í miklum vandræðum með að halda öllum þessum upplýsingum frá almenningi, að ekki sé minnst á frelsishugmyndina, sem er sífellt tengdari og fýsir betra líf.
Tannkremið er komið úr túbunni, ef við getum sagt sem svo. Til að undirstrika það ennfrekar; tækni er ekki hugmyndafræði. Og tækni er notuð af ríkisvaldinu, alveg með sama hætti og hún er notuð gegn því. Og tæknin getur aldrei breytt þeim grundvallarkostum sem við höfum val um; frelsi eða sameignarstefnu. Það er engin þriðja leið. Annað hvort munu manneskjur eigast við sjálfviljugar hvor við aðra, í gegnum borgaralegt samfélag og markaði, eða með því að nota kúgun í gegnum glæpi og stjórnvöld. Valið stendur á milli þess sama, hvort heldur er pólitískt eða efnahagslega.
En frjálst flæði og nánast ótakmarkað magn upplýsinga hefur gjörbreytt heiminum. Stjórnvöld tala gjarnan um lýðræði. En þau munu fá það óþvegið. Raunverulegt lýðræði, þar sem fólkið kemur til með að kjósa með fótunum, veskjunum og farsímunum, þvert á landamæri.
Ég er bjartsýnn að þessi alþjóðlega samþætting muni verða þyrnir í augum margra þjóðríkja, og þeirrar pólitísku elítu sem ræður ríkjum í hverju landi fyrir sig. Fólk er núna tengt i gegnum hugmyndir, gegnum áhugamál, gegnum sameiginleg gildi, gegnum viðskipti en ekki nauðsynlega vegna landfræðilegrar staðsetningar eða sameiginlegs ríkisfangs.
Hugsanlega mun helsta arfleifð þessarar tækniþróunar verða hnignun ríkisrekinna skóla. Stéttafélög kennara, lélegir skólar og skyldunám, gríðarlegar stjórnenda yfirbyggingar og yfirþyrmandi skuldir útskrifaðra, sem eru á endanum ósjálfbærar. Ríkisreknir skólar munu óhjákvæmilega kosta of mikið og kenna of lítið gagnlegt, s.s. hefðbundið tungumál, flókna stærðfræði og vísindi, iðnfög og peningastjórnun. Það sem þeir kenna er jafnan skaðlegt og miðstýrt.
Frelsi er ekki mögulegt í samfélagi þar sem fólk er illa menntað, og með innrætt hugmyndir frá stjórnvöldum. Því er gríðarlega mikilvægt að menntun sé aðskilin frá ríkisvaldinu, og sá möguleiki er handan seilingar. Tæknibyltingin og netmenntunarbyltingin, sem enn er að slíta barnsskónum, mun gera lærdóm ódýrari, auðveldari og hagkvæmari, og það sem meira er, ábyrgari. Markaðssinnuð menntun mun framkalla raunverulegar niðurstöður, ólíkt því sem ríkið hefur fært okkur fram að þessu. Við ættum öll að fagna því að verða vitni að hruni menntastofnanna ríkisins.
Öll þessi ánægjulega þróun mun eiga sér stað á sínum eigin hraða, stundum hraðar, líkt og þegar Sovétríkin hrundu, og stundum hægar. Tilefnið til bjartsýni er ærið, að byltingin muni fara fram án þess að hún verði stöðvuð og án ofbeldis.
En margar þessar breytingar hafa þegar hafið innreið sína, og maður hefur það á tilfinningunni að völdin eru að færast frá hinni pólitísku elítu, hægt en örugglega. Ríki og miðstýringarsinnar eru að missa sína stærstu eign; lögmæti.
Það, að lögmæti ríkjanna sé að hverfa sjónum okkar, ætti ekki að koma okkur á óvart. Alveg eins og Mises sýndi óyggjandi fram á að sósíalismi væri óframkvæmanlegur, þá hefur spænski hagfræðingurinn Jesús Huerta de Soto og aðrir, bent á ómöguleika miðstýringar sem samfélagslegs-, lagalegs og pólitísks kerfis. Og líkt og hann bendir á, þá er ekki hægt fræðilega, að réttlæta ríki sem þvingar þegna sína með einokun og valdi. Slíkt ríki fær ekki náð samhæfðum markmiðum sínum, alveg eins og þeir, sem vilja skipuleggja efnahagslífið, geta ekki verðlagt ákveðið magn hveitis (eða hvaða aðra vöru sem er) eða þekkt það magn bifreiða sem á að framleiða. Það magn upplýsinga sem hið alltumlykjandi ríki þyrfti á að halda, er of dreift, of óljóst, breytist of hratt og er of brenglað þegar því er stjórnað af ríkinu, fremur en markaðinum.
Það er ekki frelsi sem er ómögulegt, dömur mínar og herrar. Það er sameignarstefna og sósíalismi. Það er sú hugmynd að ríkið sé jafn stór þáttur lífs okkar, og raun ber vitni; jafnvel sú hugmynd að ríkið sé til yfirhöfuð.
Það skiptir engu máli hvað þið kallið ykkur; íhaldsmenn, frjálshyggjumenn, anarkókapítalista, róttæka eða hvað sem er; þessi skilaboð eru handa ykkur. Allt sem skiptir máli er að þið viðurkennið og samþykkið þá hugmynd að það er ríkið sem er orðið stjórnlaust, jafnvel þó það sé ekki nema á einu sviði, s.s. á sviði fíkniefnalöggjafar eða utanríkismála, við getum sammælst um ítarlegri þætti síðar. Við erum svo langt frá því sem nokkur okkar álítur vera frjálst samfélag að margir þessara hugmyndafræðimerkimiða virðast hjómið eitt, svo ekki sé dýpra í árina tekið.
Murray Rothbard notaðist við frelsislest sem myndlíkingu, sem ég tel að eigi einkar vel við í dag. Reyndar fékk hann hugmyndina lánaða frá Gene Burns, sem var mikill skörungur um árabil á sviði útvarpsmennsku í San Francisco.
Frelsislestarmyndlíkingin til að byggja hreyfingu er mjög einföld; ef þú vilt meira frelsi, gakktu til liðs við okkur. Stígðu um borð í lestina. Þér er velkomið að yfirgefa hana hvenær sem er. Hugsanlega ertu hlynntur 60% hugmynda okkar, hugsanlega 80, 90, eða hvað sem er. Stígðu bara um borð og farðu eins hratt og þú kærir þig um, og þú getur yfirgefið okkur þegar þér hentar. Líkt og ég hef áður sagt, við erum svo langt frá því sem nokkur álítur vera frjálst samfélag, að við ættum varla að hafa áhyggjur af raunverulegu lokamarki okkar. Komum bara lestinni af stað í rétta átt! Ég kann virkilega vel við þessa myndlíkingu, því hún tekur því fram að ramma okkur inn í þrönga kassa.
Að lokum vil ég hvetja ykkur til að tileinka ykkur jákvæða og bjartsýna stefnu til frelsis. Og munið, að við þurfum ekki að sannfæra alla, og jafnvel ekki meirihlutann, um að frelsi sé rétta leiðin. Og við þurfum svo sannarlega ekki að sannfæra andstæðinga okkar. Í dag, rétt eins á nýlendutímanum á tímum byltingarinnar, sitja flestir hjá.
Líkt og útvarpsmaðurinn Herman Cain sagði nýverið við hlustanda; við getum einungis bjargað þeim sem vilja láta bjarga sér. Allt of oft látum við miðstýringarsinnana ramma umræðuna. Allt of oft eru þeir, sem aðhyllast frelsi, skilgreindir af því sem við erum á móti; stjórnvöldum, fremur en því sem við aðhyllumst og leggjum til; frelsi.
Leggjum til frelsi, og vörðum leið bjartsýninnar. Eftir allt saman, þrátt fyrir ríkið og árásir þess, þá lifum við enn frábæru lífi miðað við bókstaflega allar þær manneskjur sem hafa gengið um jörðina, að meðtöldum kongunum og drottningum. Ef við leyfum ríkinu að gera okkur óhamingjusöm eða svartsýn varðandi framtíðina, þá höfum við ekki einungis brugðist börnunum okkar og barnabörnum, held forfeðrum okkar líka.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.