Afhverju kreppur? Róbinson Krúsó og Hans Hermann Hoppe

Ég skrifaði langa stöðuuppfærslu á smettisskruddu síðuna mína fyrir nokkrum dögum, en hún vakti ekki nógu mikla athygli. Hugsanlega lásu hana þó margir, og viðurkenndu að allt í henni væri satt og rétt og höfðu ekki fyrir því að skilja eftir athugasemd eða like. Ég ætla því að fleygja uppfæslunni hér inni og vona að allir lesi.

Margt hefur verið rætt og ritað um kreppuna. Alþingi lagðist í ritun mikils verks, sem fáir nenna að lesa, en mörgum þykir flott að vitna til í viðleitni sinni til að virka vel að sér. En skýrslan atarna skýrir fátt, og líklega enn minna fyrir leikmanninum, sem ekki er vel að sér í hagfræði. Hún gerir í raun fátt annað en slá ryki í augu fólks og varpa ábyrgðinni af raunverulegum sökudólgi; peningakerfinu! Eins og þeir segja á útlenskunni: "Don´t hate the player, hate the game."

En almenningur lætur glepjast. Sumir telja að stjórnmálamennirnir séu ábyrgir, gjarnan á þeirri forsendu að þeir hefðu átt að sjá hlutina fyrir og koma í veg fyrir þá með fleiri reglum og lögum, ásamt auknu eftirliti. Aðrir gera leikendurna að glæpamönnum, og sumir gerast svo djarfir að saka báða um græsku. Þeir krefjast réttlætis, en vilja ekki horfast í augu við, að í raun er gallinn innbyggður í kerfið. Og átökin sem þetta skapar beinir sjónum fólks frá hinu raunverulega vandamáli og styrkir grundvöll valdhafanna.

Enn aðrir kenna því kerfi, sem er það eina sem getur komið í veg fyrir að slíkur glundroði skapist; frjálshyggjunni, sem ásamt austurríska skólanum í hagfræði hefur lengi bent á gallann, en fyrir daufum eyrum. Það verður ekki komið í veg fyrir gallann með auknum reglugerðum eða auknu eftirliti. Einungis róttæk kerfisbreyting kemur til með að skipta einhverju máli.

Hagfræðiprófessorinn Hans Hermann Hoppe tók frábært dæmi um ástæður þess að þessi villa skuli vera innbyggð í kerfið. Dæmið er svo einfalt að hver sem er ætti að skilja það, ef viðkomandi nennir að lesa það. Ég þýddi dæmið og það fer hér á eftir. Vonandi veitir það þér, lesandi góður, skilning á nauðsyn breytinga og færir þér aukinn áhuga og mikilvægi þess að kynnast frjálshyggju, ásamt austurríska skólanum í hagfræði.

Róbinson Krúsó og Frjádagur lifa saman á eyðieyju. Nú brennur svo við að Frjádagur verður allslaus, hann á ekki mat né nokkuð annað til að verða sér úti um mat. Til þess að bjarga sér, biður hann vin sinn Krúsó, um lán. Krúsó sér aumur á Frjádegi, enda vel birgður, og lánar honum einn fisk. Vopnaður fiskinum, býr Frjádagur sér til net, þ.e. hann neytir fisksins, safnar orku og orkuna notar hann svo til framleiðslu á neti. Takið eftir, að við færslu fjármunanna og framleiðslu netsins í kjölfarið, vex hagkerfið, öfugt við hnignun þess ef fiskurinn hefði einungis verið étinn og ekkert net verið framleitt. Vænta má aukinnar auðlegðar í framtíðinni. Eitthvað var framleitt úr einhverju. Netið notar Frjádagur svo til að veiða fleiri fiska, í þeim tilgangi að nærast og greiða skuld sína, ásamt vöxtum, til baka. Allir hafa grætt og eru nú betur settir en áður. Hagvöxtur hefur orðið.
En gefum okkur nú að sambýlingarnir byggju við sambærilegt peningakerfi og við gerum í dag. Gefum okkur að Róbinson (sem nú verður ríkið), ætli að lána Frjádegi fisk til framleiðslunnar. En Róbinson á engan fisk og tekur því upp á því að búa til ávísun á fisk (peningaseðil). Frjádagur tekur fegins hendi við seðlinum, vongóður um að getið aflað sér lífsviðurværis í framtíðinni. Með vonina að vopni og seðilinn, byrjar hann að sauma sér net, hann ætlar sér að framleiða eitthvað úr einhverju. En brátt verður hann svangur, og það áður en netið er tilbúið. Nú er illt í efni. Hann hefur enga orku til að klára netið og fer því til Róbinson, afhendir honum ávísun á fiskinn og biður um að fá að nærast. En þá koma svikin í ljós. Enginn er fiskurinn og því verður ekkert net og því vex hagkerfið ekki, heldur stendur í stað. Ekkert verður til úr engu. Ekkert hefur breyst, nema hvað Frjádagur er enn svangur. En takið eftir að framleiðsla netsins hófst, hagkerfið tók við sér og byrjaði auðlegðarsöfnunina (við getum kallað það uppgang, eða boom) en um leið og svikin komu í ljós (pappírspeningar ríkisvaldsins eru í raun svik og ekki ávísun á nein raunveruleg verðmæti), sprakk blaðran (Frjádagur varð enn hungraðari, það myndaðist kreppa og hagkerfið leiðrétti sig). Ekkert verður til úr engu.

Þrátt fyrir að skýringin á kreppum sér tiltölulega einföld og frjálshyggjumenn á borð við Mises hafi m.a. séð stóru kreppuna fyrir, neitast menn að horfast í augu við vandamálið. Langt er orðið um liðið frá því að peningar voru teknir af gullfæti og hugsanlega er erfitt að gera þá kröfu að slíkt kerfi verði tekið upp að nýju. En hugmynd Haeyks um frjálsa útgáfu gjaldmiðla er áhugaverð. 

Nú eru komnar fram rafmyntir, sem hafa verðmæti á bak við sig, og eru því í raun mun betri gjaldmiðlar heldur en ríkisgjaldmiðlarnir, sem ekkert er á bak við. Engu að síður heyrum við íslenska alþingismenn vara við þessum gjaldmiðlum. Ég vil ekki trúa því að þingmenn séu svo ósvífnir að halda þessari vitleysu að almenningi með ásetningi, og vona svo sannarlega að menn séu bara ekki betur að sér í hagfræðinni. Það virðist a.m.k. jafnan eiga við, og er áverandi í samfélaginu, hve litla þekkingu fólk, jafnvel fólk sem gegnir opinberum trúnaðarstörfum, hefur á fræðunum. Og því miður er allt of lítið af fólki sem treður vitleysu þessa fólks þangað sem hún á heima.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvaða verðmæti eru á bakvið rafeyri?  Ég bara spyr.

Guðlaugur (IP-tala skráð) 13.11.2014 kl. 21:07

2 Smámynd: Guðmundur Óskar

Sæll Guðlaugur

Rafmyntir eru búnar til sem umbun fyrir tölvuvinnslu þar sem notendur leyfa notkun á vélbúnaði sínum til að staðfesta og skrá greiðslur í opna, almenna höfuðbók. Þetta er kallað að náma (e. mining), en einstaklingar og fyrirtæki taka þátt og fá í skiptum þjónustugjöld og mynt sem er búin til vegna aukinnar verðmætaaukningar í tengslum við þá þjónustu sem veitt hefur verið.

Guðmundur Óskar, 14.11.2014 kl. 16:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband