Stjórnmálaflokkarnir eru reknir á kostnað almennings. Sú staðreynd er tryggð með lögum nr 162/2006. Ríkjandi ráðamenn eru líkast til hæstánægðir með þessa staðreynd, enda rennir þetta fyrirkomulag styrkum stoðum undir þá flokka sem styrkina þiggja. Það er örugglega voðalega þægilegt að fara með fjárlagavaldið, og úthluta sjálfum sér vænan bita, allt í þágu þess að ...auka traust á stjórnmálastarfsemi og efla lýðræðið, líkt og kemur fram í markmiði laganna. Þetta gerir hins vegar öðrum flokkum, nýjum framboðum, töluvert erfiðara um vik. Þeir þurfa að leita á náðir almennings, en þá mega styrkveitingar ekki nema meiru en 300.000 kr. á lögaðila, samkvæmt lögunum. Líklega ert þú hæstánægður með þetta fyrirkomulag. Þangað til þú hugsar um að bjóða þig fram til setu í borgarstjórn eða á þingi. Það hafa nefnilega ekki allir sömu almannatengsl og Jón Gnarr.
Árið 2007 gengu Íslendingar til kosninga, en áður höfðu flokkarnir valið fólk til setu á framboðslistum sínum. Steinunn Valdís Óskarsdóttir var valin af kjósendum í opnu prófkjöri til setu á áttunda sæti á lista hans í Reykjavíkurkjördæmi norður. Hún var svo kosin á þing sem 11. þingmaður kjördæmisins. Sömu sögu má segja um alla hina þingmennina, sem undanfarið hafa verið krafðir afsagnar vegna styrkja sem þeir þáðu til að koma sér og sínum málefnum á framfæri fyrir prófkjörin. Það hljómar ansi einkennilega að leggja blessun sína, sem meðlimur flokks og leikandi í þáverandi leikfyrirkomulagi, en rjúka svo upp til handa og fóta þegar einhver hrópar að hlutirnir ÞÁ voru kannski ekki alveg eins og þeir áttu að vera!
Ég er þakklát Steinunni Valdísi fyrir þessa ákvörðun og með henni sýnir hún í senn mikla auðmýkt og kjark, sagði Jóhanna Sigurðardóttir. Hún sagði samt ekki eitt aukatekið orð í aðdraganda kosninganna. Það gerðu flokkssystkini hennar heldur ekki.
Nei, þá var tíðarandinn annar og allt í lagi að þiggja styrki. En skyndilega breyttist þetta vegna þess að bankar urðu gjaldþrota. Og þá gilda aðrar reglur um liðna hluti, eða eins og einn stjórnmálafræðiprófessorinn sagði: Það fóru margir óvarlega en auðvitað gerði þetta fólk ekkert ólöglegt. Það verður að undirstrika, að þau unnu í þeim tíðaranda sem var á þeim tíma, en er bara ekki liðinn lengur. Nei, hann verður augljóslega ekki liðinn lengur, enda búið að setja lög um málið. En hvorki þessi lög, né þessi svokallaði tíðarandi gilti ekki á þessum tíma, líkt og stjórnmálafræðiprófessorinn bendir svo réttilega á.
Annað stjórnmálafræðiséní lét hafa það eftir sér að rétt væri fyrir þetta fólk að stíga til hliðar vegna þeirrar háværu kröfu sem uppi væri í samfélaginu. En þetta sama samfélag lagði blessun sýna yfir þetta mál á sínum tíma og aðhafðist ekki neitt. Það gæti svo alltaf endurnýjað umboð sitt í komandi kosningum, var aftur haft eftir honum. En eru kosningar ekki nýafstaðnar? Er þetta fólk ekki nýbúið að endurnýja umboð sitt? Og afhverju á það að þurfa að stíga til hliðar, þegar við kjósendur, getum rekið það í næstu kosningum ef okkur sýnist svo?
Flokkur: Bloggar | 28.5.2010 | 23:56 (breytt 29.5.2010 kl. 00:02) | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.