Alþingi fer með mikið vald, á því leikur ekki nokkur vafi. Þannig geta 32 manneskjur samþykkt að setja lög, sem okkur hinum rúmlega 300.000 ber að fara eftir. Vissulega eru margir sem geta haft áhrif á þessar 32 manneskjur, en óneitanlega er það mikil ábyrgð að geta sagt öðrum, með hvaða hætti þeir eiga að haga sér. Óhjákvæmilega vaknar því sú spurning, hvort eðlilegt og réttmætt sé að einhver geti sagt öðrum hvernig hann eigi yfir höfuð að haga sér? Vissulega verður að setja stóran fyrirvara við þessa spurningu; getur verið að einhver eigi að skipta sér af hegðun sem skaðar engan nema þá sem samþykkja sjálfviljugir að haga sér á ákveðinn máta?
Eðlilegt er að setja lög sem banna mönnum að stela og myrða. Þar verður til fórnarlamb, sem óskaði sér þess ekki. En er endilega rétt að banna fólki að neyta eiturlyfja? Þó svo ég búi ekki yfir tölum, þá verður að teljast líklegt að fleiri skaði sig og aðra með neyslu áfengis, en með neyslu fíkniefna. Áfengi er þó leyft, jafnvel þó nær hver einasta fjölskylda þekki til þeirra hörmulegu afleiðinga sem neysla þess getur haft í för með sér. Eiturlyf eru hins vegar ekki leyfð, og hugsanlega á það sinn þátt í því að það skaði færri en neysla áfengis. Hægt er að réttlæta það að áfengi skuli vera leyft; langstærsti hluti þeirra sem þess neyta kunna með það að fara. Hagsmunir heildarinnar eru teknir fram yfir hagsmuni minnihlutans, þeirra sem kunna illa með áfengi að fara. En óneitanlega getur tilviljun orðið til þess að frelsi okkar til neyslu áfengra drykkja yrði svipt frá okkur. Slíkt hefur gerst áður, og getur vel gerst aftur. Frelsi okkar er langt í frá, sjálfsagður hlutur.
En á ríkið að stjórna löstum okkar? Enn fremur, á einhver að segja okkur hinum hvað sé ósiðleg hegðun, og hvað ekki? Ávallt verður til eftirspurn eftir einstaklingum sem selja líkama sinn. Og þegar eftirspurn er til staðar, verður framboðið einnig til staðar. Engu skiptir þar um, hvort 32 einstaklingum dettur í hug að setja lög um bann við eftirspurninni, vandamálið hverfur ekki! Fíkniefnaneysla er stórt vandamál á Íslandi, þrátt fyrir bann þar um. Líklegt verður þó að telja að einhverjir hugsi sig tvisvar um, skyldi þeim detta í hug að kaupa blíðu einstaklings. En liggur meinið virkilega í eftirspurn einstaklings eftir blíðu annars einstaklings? Verður ekki að spyrja sig hvaða þættir það voru sem leiddu einstaklinginn inn á þá braut að falbjóða líkama sinn? Ólíklegt verður að telja, að manneskjur stundi vændi, eingöngu ánægjunnar vegna. Eftirspurn eftir peningum ræður þar mestu um, en telja verður hæpið að löggjafanum takist að koma í veg fyrir hana með setningu laga sem banna eftirspurn eftir þjónustunni. Vandamálið er félagslegs eðlis og tengist að öllum líkindum félagslegum þáttum sem mótuðu þann sem upp á þjónustuna býður. Einstaklingurinn sér sér ekki fært um að afla tekna með eðlilegum hætti.
Einhverjir hrósuðu happi við setningu laga um ólögmæti þess að kaupa blíðu einstaklinga. Töldu kvenréttindakonur að þar með væri mikill sigur unninn. Afhverju? Ætli þær trúi því að þar með sé vandamálið úr sögunni? Jæja, nú erum við búin að banna þetta og getum snúið okkur að öðru! Og snúa svo höfðinu í hina áttina, sem lengst frá hinu raunverulega vandamáli. Þeim félagslegu þáttum sem skópu þann einstakling, sem hefur svo lélega sjálfsmynd, svo lítið sjálfstraust, að hann sér enga aðra leið færa en að bera líkama sinn á torg hins svarta markaðar, þar sem annar einstaklingur, jafn illa mótaður af nútíma samfélagi svalar fýsnum sínum í skiptum fyrir þann gjaldmiðil sem alltaf verður eftirspurn eftir, peninga! Trúir því virkilega einhver, að ef einstaklingur kýs að falbjóða líkama sinn(kjósi það peninganna vegna), verði ekki til einhver sem sé tilbúinn að borga fyrir það, þrátt fyrir lagasetningu þar um?
Ekki hefur ríkisvaldinu enn dottið til hugar að setja lög sem meina ákveðnum hópum samfélagsins að eignast börn. Slík löggjöf væri of umdeild og líklega væri erfitt að draga fólk í dilka. Of nærri væri gengið að frelsi einstaklingsins. Ekki leikur þó nokkur vafi á því að hæfileikinn til barnauppeldis er ekki öllum gefinn. Þannig elur góður uppalandi barn, jafnoft og slæmur. Aldrei hef ég fyrr heyrt minnst á þá hugmynd að hugsanlega væri hægt að setja námskeið í uppeldi sem skilyrði fyrir því að þiggja barnabætur, fyrr en góð vinkona stakk upp á henni við mig. Afhverju ekki? Uppalandi getur skapað samfélaginu mikinn skaða, ef ekki er rétt að staðið. Engu að síður á hann rétt á greiðslu frá samfélaginu, en engin skilyrði fylgja um fullnægjandi frammistöðu. Þannig eru líkur á að slæmur uppalandi valdi samfélaginu mun meiri skaða, en þann sem samfélagið varð fyrir við afhendingu framlagsins, í formi fjár, til hans. Spurningin er, hvort hægt sé að lágmarka þennan skaða?
Afhverju vilja femínistar og félagshyggjumenn neyða kvenréttindum upp á samfélagið, í staðinn fyrir að ræða rót vandans; uppeldislega þætti sem skapa og móta undirgefnar konur? Ætla femínistar að gera kröfu um það, að ólöglegt verði fyrir tvo einstaklinga að stunda samlífi, nema að víst sé að hvor um sig fái jafn mikla ánægju við ástundun þess? Eða hvers vegna eru til karlmenn sem telja það ásættanlegt að sofa hjá konu sem virðist ekki njóta stundarinnar á nokkurn hátt? Og afhverju eru til konur sem telja það eðlilegt að vera undirgefnar karlmönnum, í stað þess að gera þá einföldu kröfu um jafnræði þar um?
Vissulega er um MIKLA einföldun í þessari grein að ræða, vel má gagnrýna hana fyrir það. En tilgangurinn er sá að benda á að lög koma ekki endilega í veg fyrir lesti mannanna. Lög koma ekki í veg fyrir misnotkun áfengis, eða annarra vímugjafa. Lög koma ekki í veg fyrir að konur séu aldar upp með öðrum hætti en karlmenn. Lög koma heldur ekki í veg fyrir ólíka eiginleika kynjanna, sem vissulega eru mótaðir að miklu leyti af því samfélagi sem við búum í. Lög munu heldur ekki koma í veg fyrir kaup á vændi. Lög eiga, ásamt fleiru, að koma í veg fyrir að manneskja geti með valdi, neytt aðra manneskju til að gera hluti sem sannanlega er ekki hennar vilji.
Flokkur: Bloggar | 28.5.2010 | 01:29 (breytt kl. 09:25) | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.