Forsvarsmönnum Vinstri Grænna (VG) virðist vera mikið í mun um að auðlindir Íslands komist ekki undir erlend yfirráð. Á Pressunni í dag birtist grein sem segir frá því viðhorfi Árna Þórs Sigurðssonar, alþingismanns VG, að einkaaðilar ...sem komist hafa yfir orkuauðlindir þjóðarinnar séu í raun að beita opinbera aðila fjárkúgun sem reyni nú að komast á ný yfir hluta orkuauðlinda. Auðlindirnar hafi verið einkavæddar í tíð Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks en það sem nú sé að gerast sé það að opinberir aðilar vilji aftur eignast hlut í HS Orku.
Er þetta viðhorf mjög á skjön við lög nr. 57/1998, sem samþykkt voru í stjórnartíð Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, en í þeim er skýrt kveðið á um eignarrétt á íslenskum auðlindum. Samkvæmt 3.gr.a er ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum í þeirra eigu ...óheimilt að framselja beint eða óbeint og með varanlegum hætti eignarrétt að jarðhita og grunnvatni...[.] Jafnframt kemur fram að heimilt sé ...að veita tímabundið afnotarétt að réttindum [...]til allt að 65 ára í senn.
Ef viðhorf Árna reynist rétt ætti hann að benda ríkissaksóknara á grunsemdir sínar. Hann ætti að geta skorið úr um fyrir Árna og félögum hvort ástæða þyki til að gefa út ákæru. Dómstólar ættu síðan að geta skorið úr um sekt eða sýknu, nema þingmönnum VG þyki ástæða til að íhuga að skerast í leikinn telji þeir að dómsstólar séu ekki sömu skoðunnar og þeir í málinu.
Það er nefnilega ekki verið að selja auðlindir landsins, heldur hlut í fyrirtæki sem á nýtingarréttinn að auðlindum landsins. Þar er munur á sem þingmenn, og aðrir fylgismenn VG, virðast ekki skilja. Viðhorf VG almennt ber vott af þeim þjóðernisrembingi sem svo mjög auðkenndi íslenskt samfélag á árunum fyrir hrun. VG liðar eru augljóslega þeirrar skoðunnar að erlendir fjárfestar geta ekki komið orku til skila á jafn hagkvæman máta og íslenska ríkið og/eða fjárfestar.
Vinstri Grænir eru lítt hrifnir af einkaframtaki og auðvaldssinnum, en vilja veg ríkisins sem mestan. Kemur þetta skýrt fram í málflutningi Árna hér að ofan, svo og málflutningi Lilju Mósesdóttur, þingmanns VG, en í samtali við visir.is segir hún að Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hafi reynt að fá lífeyrissjóðina til að kaupa hlutinn sem um ræðir. Eina ástæðan fyrir því að Steingrímur kaupir hann ekki bara sjálfur, fyrir hönd okkar hinna, er sú að peningastaða ríkisins er af skornum skammti. Sem betur fer fyrir almenning, því Steingrími væri hætt til að kaupa upp öll fyrirtæki landsins.
Bæði Lilja og Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, gagnrýna svo Magma fyrir að hafa leynt þjóðerni fyrirtækisins. Lög kveða svo á um að fyrirtæki utan EES mega ekki fjárfesta á Íslandi. Svandís virðist hins vega ekki hafa áttað sig á þjóðerninu fyrr en að fyrirtækið birti auglýsingu í Fréttablaðinu þar sem þetta kom fram. Hins vegar er vert að benda Svandísi á heimasíðu fyrirtækisins, en þar kemur skýrt fram að fyrirtækið er skráð á hlutabréfamarkaðinn í Kanada. Einnig fór nefnd á vegum Alþingis yfir málið og samþykkti gjörninginn, en Svandís hefur augljóslega eitthvað út á vinnubrögð hennar að setja. Má þá benda Svandísi á að nefndin var þingkjörin og að í henni sitja eftirfarandi (varamenn innan sviga):
Unnur Kristjánsdóttir, formaður (Arnar Guðmundsson)
Silja Bára Ómarsdóttir, varaformaður (Bryndís Haraldsdóttir)
Adolf H. Berndsen (Jóna Benediktsdóttir)
Björk Sigurgeirsdóttir (Ingiveig Gunnarsdóttir)
Sigurður Hannesson (Kolfinna Jóhannesdóttir)
Svandís getur ávallt brugðið á það ráð að senda nefndinni línu til að láta í ljós aðfinnslur sínar, í staðinn fyrir að upplýsa alþjóð um fávisku sína og kunnáttuleysi á víðáttum alnetsins í fréttatímum Sjónvarpsins.
Athugasemdir
Það gengur fjöllunum hærra hér suðurfrá að skítalyktin af sölunni á HS orku leggi langar leiðir,menn séu bara ekki að "skoða þau atriði sem raunverulega hanga þarna á spýtunni", það sem mest er talað um er að SÖLULAUNIN vegna sölunnar séu alveg gríðarlega há og þar hafi háttsettir aðilar innan SjálfstæðisFLokksins í Reykjanesbæ (kúlulánamenn sem ennþá lifa og hrærast í 2007 umhverfinu), makað krókinn. Ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti en sjálfum finnst mér þessi samsæriskenning ekki vera svo fjarstæð............
Jóhann Elíasson, 24.5.2010 kl. 22:17
Hvað kallast það annað en að selja auðlindirnar, þegar nýtingin er látin af hendi í rúma öld? Er nokkur munur þar á að afsala sér afnotarétti eða auðlindinni sjálfri. Hverslags andskotans spuni er þetta í þér maður?
Þetta er bara leikur að orðum og hugtökum hjá þér og kallast einu orði spuni og óheiðarleiki, sem kemur jú ekkert á óvart frá þeirri glæpamafíu, sem sjálfstæðisflokkurinn er.
SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN. Þvílík öfugmæli! Þessi grein ætti að vera sett í kennslubók um siðblindu.
Jón Steinar Ragnarsson, 24.5.2010 kl. 22:35
Hvernig er starfsemi Magma háttað í Kanada?
kv D
Halldóra Hjaltadóttir, 24.5.2010 kl. 22:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.