Steingrími J. Sigfússyni og Jóhönnu Sigurðardóttur er mikið í mun að skapa norræna velferðarstjórn hér á landi. Það hefur þeim hins vegar ekki tekist, þrátt fyrir mikinn fagurgala þess efnis. Hið ofurþreytta hugtak; Skjaldborg heimilanna sem landsmenn hafa beðið svo lengi eftir hljómar líkt og fjarstæðukennd útópíuparadís sem Biblían lýsir og nú síðast birti Hagstofan niðurstöður sínar úr lífskjararannsókn sem er liður í samræmdri lífskjararannsókn Evrópusambandsins. Í stuttu máli segir þar að tæplega 40% heimila áttu í verulegum vandræðum með greiðslubyrði í upphafi þessa árs og (þ)egar heildarmyndin er skoðuð er fjárhagsstaða heimilanna verri í ársbyrjun 2009 en næstu ár á undan. Líklegt verður að telja að staðan hafi versnað til muna, enda hefur kaupmáttur rýrnað samhliða verðbólgu og ljóst að allir halda að sér höndum hvað launakjör snertir.
En það sem fæstir hugsa út í þegar Steingrímur birtist með fagurgalann, er að velferð kostar samfélagið peninga. Ein af tekjuleiðum ríkisins til að mæta þessum útgjöldum er skattheimta. Það vill svo til að fæstir mega sjá af tekjum sínum til ríkisins, hvort heldur sem um ræðir einstaklinga eða fyrirtæki. Víst er að flestir geta verið sammála um að skattheimta sé þung á Íslandi. Þessi þunga skattheimta kemur í veg fyrir að fólk geti eytt peningunum sínum, sem aftur kemur í veg fyrir að fyrirtækin í landinu rísi upp úr öskustónni, sem aftur leiðir til minnkandi skatttekna ríkisins og kemur jafnframt í veg fyrir að launakjör almennings batni. Þegar öllu er á botninn hvolft kemur í ljós að við höfum einfaldlega ekki efni á að halda úti norrænni velferðarstjórn.
Raunar má spyrja sig hver hagur heildarinnar sé, þegar kemur að því að færa aukakrónur úr einum vasa yfir í þann næsta? Einnig má spyrja hvort það sé réttlát tilfærsla? Löngum hefur verið vitað að ríkið kann illa með fé að fara. Því skiptir máli að takmarka rekstur þess og leyfa frekar einstaklingunum að sjá um það sem þeim er fært að sjá um.
Þegar nánar er að gáð, kemur í ljós að spara á þrjár milljónir króna með lokun geðdeildar Landspítalans í sumar. Hljómar ekki líkt og verk velferðarstjórnar, en auðvitað verða menn að mæta þeim gífurlega fjárlagahalla sem blasir við. Hins vegar sitja menn fastir við sinn keip og hyggjast reisa hér höll Hörpu, þrátt fyrir tug milljarða króna skuldbindingu ríkisins vega byggingarinnar næstu árin. En menningin er mikilvæg, og næsta víst að hér verða menn að geta haldið sómasamlega sinfóníutónleika. Ekki var einu sinni hægt að haga hönnun hússins þannig að hægt væri að nýta það til stærri viðburða, s.s. þegar erlendir stórflytjendur halda tónleika sína í íþróttasölum og una glaðir við, ásamt áheyrendum. Þannig hefði hugsanlega mátt ná inn einhverjum aukakrónum, en NEI, þetta er klassískur kofi, sem færir okkur klassíska menningu. Hver er eiginlega eftirspurnin eftir slíkri menningu? Nóg til að réttlæta fjárausturinn? Næsta víst er að eftirspurnin eftir poppmenningu samtímans er talsvert meiri!
Í skýrslu Tryggva Þórs Herbertssonar, Fjölgun öryrkja á Íslandi, Orsök og afleiðingar,[1] kemur fram að fjöldi öryrkja hefur aukist umtalsvert undanfarin ár. Segir meðal annars ...að kostnaður ríkissjóðs og íslenska lífeyrissjóðakerfisins vegna öryrkja hafi numið um 18 milljörðum kr. árið 2003. Þannig hafa útgjöld ríkisins vaxið úr 3,8 milljörðum kr. árið 1990 í 12,7 milljarða kr. árið 2003. Fjölgun bótaþega skýrir 82% aukningarinnar en 18% stafar af hækkun bótagreiðslna að raunvirði. Jafnframt er kostnaður samfélagsins vegna tapaðra vinnustunda árið 2003, varlega áætlaður tæplega 34 milljarðar kr. á föstu verðlagi.
Bendir Tryggvi á í skýrslu sinni að mest fjölgar í hópi yngri öryrkja og mjög fáir leita út á vinnumarkaðinn eftir að á öryrkjabætur er komið. Skýringin á þessu má að einhverju leiti rekja til ...(m)isræmis á mili lægstu launa og þeirra bóta og styrkja sem örorkulífeyrisþegar eiga rétt á. Þannig hefur myndast fjárhagslegur hvati fyrir þá lægstlaunuðu að sækja um örorkumat. Þetta misræmi skapar neikvæða, eða mjög litla arðsemi þess að hverfa af örorkuskrá og út á vinnumarkaðinn.
Líklega hefur samt ekkert haft jafn mikil áhrif á fjölgun öryrkja og nýr örorkumatsstaðall sem tekinn var í notkun árið 1999. Með honum var örorkumat nánast eingöngu nálgast frá læknisfræðilegu sjónarhorni og einstaklingar geta nú sótt um örorkubætur þrátt fyrir litla, skerta starfsgetu. Þannig er horft fram hjá ...getu einstaklingsins til að afla sér lífsviðurværis.
Jafnframt er áhugavert að skoða fjölda einstaklinga sem sækjast eftir örorkumati. Mestallan tíunda áratuginn hélst fjöldi umsókna nokkuð stöðugur, um 900 á ári. Umsóknum fjölgaði mjög um aldamótin, fóru úr 944 árið 2002 í 1.317 árið 2003. Árið 2004 var fjöldi umsókna kominn upp í 1.622.
Garðar Sverrisson, þáverandi formaður Öryrkjabandalags Íslands, rekur aukningu umsókna til stöðugleikasáttmálans sem gerður var í upphafi tíunda áratugarins, aukins atvinnuleysis samhliða sáttmálanum og aukinnar kröfu atvinnurekenda til vinnuaflsins, í grein sem hann skrifar á vef samtakanna. Skýrsla Tryggva tekur undir þetta og bendir á jákvætt tölfræðilegt samband milli atvinnuleysis og fjölgun öryrkja. Á fyrsta áratug þessarar aldar fór atvinnuleysi þó minnkandi, eftir að hafa haldist nokkuð stöðugt á tíunda áratugnum. Því er varla hægt að kenna nokkru öðru um auknar umsóknir en auknum slaka við örorkumatið, breyttu bótaumhverfi og batnandi kjörum öryrkja, líkt og Tryggvi bendir á.[2]
Annað sem rennir stoðum undir þetta er fækkun frávísana, en hlutfall þeirra fór úr 10% í byrjun tíunda áratugarins í um 20% árið 1998, en var svo komið niður í 7% árið 2004. Með auknum umsóknum hefði fjöldi synjana átt að aukast og því er ljóst að fjöldi umsókna er að fara í gegn sem ættu alls ekki að gera það.
Neikvæð áhrif á fjárhagslega velferð og tekjudreifingu þeirra heimila í landinu sem standa undir kostnaðinum sem fellur til við greiðslu bóta úr tryggingakerfinu ættu að verða okkur öllum til umhugsunar um hvort norrænt velferðarsamfélag sé virkilega ekki til þess fallið að auka fjölda þeirra sem sækist eftir örorkumati án þess að hafa til þess nokkurn rétt, ásamt því að þyngja byrðar þeirra sem að lokum þurfa að borga brúsann, hinnar vinnandi stéttar. Jafnfram er hægt að varpa fram þeirri spurningu hvort hér hafi ekki verið til staðar það norræna velferðarsamfélag, sem Steingrími er svo tíðrætt um að skapa, eða hvað finnst honum eiginlega vanta upp á til þess að svo verði?
[1] Tryggvi Þór Herbertsson: Fjölgun Öryrkja á Íslandi, orsök og afleiðingar, Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, Reykjavík 2005.
[2] Rökin fyrir sambandi milli atvinnuleysis og örorku eru þó sannfærandi að mínu mati og leiðir hugann að því að fjöldi umsókna kemur líklega til með að aukast sem aldrei fyrr í kjölfar þeirrar kreppu sem við stöndum núna frammi fyrir, verði ekkert að gert.
Flokkur: Bloggar | 24.5.2010 | 16:53 (breytt kl. 17:43) | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.