Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
Taktu upp fimm þúsund króna seðilinn þinn. Virtu hann vel fyrir þér. Ragnheiður var myndarkona. Dulúðlegt brosið heillar þig, líkt hún spyrji þig lokkandi í hvert skipti sem þú lítur í augu hennar; Hvað ætlastu til af mér nú? Þú hefur samt ekki hugmynd um afhverju hún var valin til að prýða þann seðil sem verðmætastur er. Og afhverju ætti þér ekki að vera sama? Það eina sem þú veist, er að hver fimm þúsund króna seðill verður verðminni með hverjum deginum sem líður. Þú þarft fleiri Ragnheiðar til að kaupa mat fjölskyldunnar í hverjum mánuði, fleiri til að greiða af lánunum þínum og fleiri til að gera hvað það sem þig yfir höfuð langar til að gera. En Ragnheiðum fer ekki fjölgandi í veskinu þínu um hver mánaðarmót.
Virtu seðilinn aftur fyrir þér og spurðu þig: Skiptir þessi seðill einhverju máli fyrir sjálfsmat mitt? Eykur hann þjóðerniskennd mína, vitund mína um það hver ég er eða, yfirhöfuð, skiptir hann einhverju máli um hversu mikill íslendingur ég raunverulega er? Og þú veist að svarið er nei! Það gildir einu hvernig þú greiðir fyrir vörurnar sem þig vanhagar um. Aukin heldur er gjaldmiðill í auknum mæli einungis táknmynd, peningamagn í umferð hefur minnkað mikið með aukinni kortanotkun.
Þú veist einnig að þessi seðill, eða það sem hann stendur fyrir og táknar; gjaldmiðilinn íslenska krónu, er deyjandi, jafnvel ónýtt hugtak. Þú ert hugsanlega ekki búin/n að sætta þig við að einhvern daginn þegar þig vanhagar um eitthvað, muntu aldrei líta frítt andlit Jóns Sigurðssonar framar, velta því fyrir þér hver þessi Brynjólfur Sveinsson var eða hafa eitthvað til þessa að minna þig á einn fremsta listamann sem landið hefur alið af sér, Jóhannes Kjarval (líkt og þess gerist þörf með peningaseðli). En ég fullvissa þig um eitt...þú kemst yfir það! Um Jón verður ennþá talað og hans minnst fyrir djörfung og hetjulega fullveldisbaráttu. Myndir Kjarval munu halda áfram að gleðja augu okkar, og Brynjólfur? Ja, hver var það?
Það er ekki við þig að sakast þó svo að eftirspurnin eftir því sem þú ásælist einna mest er hverful í alþjóðlegum heimi viðskiptanna. Ég er sannfærður um að þú leggur jafnhart að þér við að sjá þér og þínum farborða með sem sómasamlegustum hætti. Þú getur ekki lagt árar í bát þó svo að ódauðlegir menn reyni, eftir fremsta megni, að stjórna því hve miklum verðmætum þessi gjaldmiðill okkar stendur fyrir. Þú mátt ekki álasa þér fyrir hin ófullkomnu verðbólguráð, vaxtahækkanir, sem leiddu af sér (ó)eðlilega eftirspurn eftir henni Ragnheiði okkar. Eftir allt, þá var það ekki útlitið hennar sem heillaði. Tvær fyrri konur Gísla Þorlákssonar, sem jafnframt prýða seðilinn ásamt honum sjálfum, voru heldur ekki svo ófrýnilegar, að þær yllu vantrú á íslensku efnahagslífi.
Íslenska krónan veldur íslenskum almenningi búsifjum. Það er ekki vegna þess að hún er íslensk, heldur vegna þess að hún má sín lítils gegn óvægnu umhverfi alþjóðaviðskipta. Leiksviðs sem Ísland, hvort sem því líkar betur eða verr, er nauðbeygt til að koma fram á. Ástæðan er einföld, enginn er sjálfum sér nægur. Sér í lagi ekki þegar kemur að hámörkun lífsgæða. Frumkvöðull gæti að vísu tekið sig til og hafið framleiðslu á bílum. En kostnaðurinn væri himinhár, og afraksturinn óvissunni háður. Skynsamlegra er, að við einbeitum okkur að því sem við höfum vit á, veiðum fisk, þróum leiðir til nýtingar á orku og seljum hugvit.
En hvað er til ráða? Er skynsamlegt að halda sig við íslensku krónuna, eða getum við öll sammælst um að okkur beri að skipta henni út fyrir annan gjaldmiðil? Hvernig hafa önnur lönd háttinn á? Og ef við að lokum erum sammála um upptöku á öðrum gjaldmiðli, hvert ættum við helst að horfa? Er innganga í Evrópusambandið okkar eini valkostur? Er hugsanlegt að annar gjaldmiðill henti okkur betur? Gætum við tekið hann upp einhliða, eða þyrftum við að leita samstarfs? Þýddi upptaka annars gjaldmiðils missi á hluta af ákvörðunarrétti okkar? Og áfram mætti spyrja.
Og ég viðurkenni fúslega að ég kann ekki svörin. En eitt er ljóst. Vaxandi óánægju gætir meðal almennings vegna verðtryggingar, hárra vaxta og þeirrar skerðingar á kaupmætti sem krónan okkar veldur. Og vegna þessarar óánægju ættum við að leita svara við ofangreindum spurningum, ásamt fleirum, svo við getum verið þess fullviss að lífskjör á Íslandi séu ávallt meðal þeirra bestu í heimi. Að íslenskur almenningur þurfi ekki að þola flökt krónunnar, nema í þeirri vissu að slíkt sé hagkvæmara en upptaka á öðrum, stöðugri gjaldmiðli. Það er ekki eftir neinu að bíða. Hættum að skrifa óánægjugreinar, nema með rökfærslum fyrir öðrum og betri kostum.
Og að því sögðu, er ekki seinna vænna en að byrja og hefja leitina. Gangi þér vel.
Viðskipti og fjármál | 6.7.2010 | 01:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)