Frelsi til sölu...

...áfengis er einstaklingsfrelsi! Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, leggur fram frumvarp um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak. Nokkur umræða hefur orðið um þetta mál, og m.a. hélt Heimdallur málþing um málið á dögunum.

Róbert H. Haraldsson, heimspekiprófessor við Háskóla Íslands, ritar grein á vef foreldrasamtakanna, þar sem hann andmælir þessum hugmyndum. Róbert segir að gera verði greinarmun á verslunarfrelsi, annars vegar, og einstaklingsfrelsi, hins vegar. Róbert telur jafnframt að fylgjendur tillögunnar hafi ekki sýnt fram á að núverandi skipan áfengissölu hérlendis feli í sér skerðingu á einstaklingsfrelsi. Þeir gefa sér einfaldlega að áfengisstefna okkar byggist á gamaldags forræðishyggju. En þeirri spurningu er látið ósvarað hver frelsiskerðingin sé.

Róbert segir réttilega að einstaklingsfrelsi byggist á óskoruðum rétti einstaklings til að gera hvað sem honum sýnist svo lengi sem það varðar hann einan, eða fyrst og fremst hann einan. Slíkt frelsi felur óhjákvæmilega í sér rétt fullveðja einstaklings til að valda sjálfum sér skaða svo lengi sem hann eða hún skaðar ekki réttmæta hagsmuni annarra, án samþykkis þeirra [...]. Verslunarfrelsi getur aldrei byggst á þessari réttlætingu vegna þess að verslun, sem félagsleg athöfn, varðar hagsmuni annarra og samfélagsins alls.

Hvaða hagsmunir eru það sem eru í húfi fyrir almenning þegar ég fer út í búð og kaupi mér mjólk? Eru ríkari hagsmunir í húfi fyrir samfélagið þegar varan er önnur, t.d. áfengi? Auðvitað ekki. Hver og einn er ábyrgur gagnvart gjörðum sínum, hver selur honum áfengið breytir engu til um breytni hans í kjölfar sölunnar.

Hvaða félagslega athöfn er fólgin í verslun og hvað þýðir það að eitthvað sé félagsleg athöfn? Er nægjanlegt að segja að eitthvað sé félagsleg athöfn, og þá séu komin rök fyrir frelsisskerðingu? Hvernig er það félagslega athöfn ef ég skipti á verðmætum við aðra manneskju? Með hugmyndum Róberts mætti setja víðtækar skorður. Jóa langar að selja sykraðan gosdrykk til Hannesar. En Róbert segir að slíkt sé félagsleg athöfn og drykkurinn sé skaðlegur, því megi Jói ekki selja Hannesi drykkinn, og Hannes að sama skapi ekki kaupa hann af Jóa. Hér hefur Róbert augljóslega brotið á einstaklingsfrelsi beggja, eins og hann skilgreinir frelsið. Ekki er hægt að koma með réttlætingu eftir á og kalla athöfnina einhverjum nöfnum í þvi skyni að skerða frelsi þessara tveggja einstaklinga. Athöfn þeirra kemur öðrum ekkert við. Sömu rök hljóta að gilda um sölu áfengis. Báðir einstaklingar hafa, og eiga að hafa, óskoraðan rétt til að gera hvað sem þeim sýnist svo lengi sem það varðar þá eina. Slíkt frelsi felur óhjákvæmilega í sér rétt fullveðja einstaklinga til að valda sjálfum sér skaða svo lengi sem þeir skaði ekki réttmæta hagsmuni annarra. Ekki verður séð að viðskipti Jóa og Hannesar skaði réttmæta hagsmuni annarra, nema síður sé. Færa má fyrir því rök að þau komi öðrum til góða.

Róbert talar um frjálslynd samfélög, en frjálslyndi í hugum frjálslyndra hefur ekkert með frelsi að gera. Þeir finnst að einungis eigi að vera frelsi um þau mál sem eru þeim þóknanleg. Þeir vilja t.d. setja frelsi einstaklings, sem hefur hug á að dansa nakinn fyrir framan aðra, skorður. Frelsi þýðir að maður verður að umbera rétt annarra til að gera það sem þeir vilja, ekki einungis að umbera það sem manni sjálfum þykir þóknanlegt. Það væri lítið frelsii falið í því. Frjálslyndir hafa fyrir löngu afbakað orðið og búa svo til frelsisflokka til að setja hugmyndum sínum um frelsi skorður.  

Róbert myndi örugglega mótmæli því ef ég bannaði honum að versla kál nema milli miðnættis og átta á morgnana. Róbert vill hafa óskoraðan rétt til að versla kál þegar honum sýnist. En ef ég og Jói sameinuðumst um að banna Róberti um að kaupa kál nema á ákveðnum tíma, myndi málið horfa öðruvísi við Róberti? Auðvitað ekki. Róbert myndi heldur ekki kippa sér upp við það ef ég bætti Hannesi í hópinn. En Róbert virðist telja að ég geti fengið helminginn af kosningabærum mönnum, á ákveðnum stað og tíma, í lið með mér, og að þá megi ég setja honum þessar skorður, af því að verslun sé félagsleg athöfn. Það eru svo örugglega til einhverjar rannsóknir sem sýna að kál, úðað skordýraeitri, sé óhollt. 

Róbert segir að sala áfengis sé ,,samfélagslegt úrlausnarefni." Ég spyr þá Róbert á móti hvort það sé einhversstaðar meitlað í stein? Róbert heldur áfram og segir að gera megi þá kröfu ,,til neytenda að þeir leggi á sig lítilsháttar efiði við kaup á vörum sem geta verið skaðlegar. Þetta gildir t.d. um skotvopn, eiturefni ýmisleg, lyf og líka áfengi." En munurinn á öllum vörunum sem Róbert telur upp og áfengi, er sá að einkaðilum er heimilt að selja allar vörurnar nema áfengið, en um það snýst einmitt breytingin. (Auðvitað ætti öllum að vera frjálst að versla með hinar vörurnar, en það er annað mál). Hún snýst ekki endilega um auka aðgengið, heldur að markaðurinn stjórni því sem hann er fullfær um að ráða við; hverjir fá að versla með áfengi og á hvaða stað. Staðsetning útstölustaða áfengis á ekki að vera á hendi stjórnmálamanna. Og auðvitað ætti ég að geta verslað mér áfengi á þeim tímum sem mér og áfengissalanum semst um, en ekki þeim tímum sem einokunarsölunni þykja þóknanlegir, þó svo að núverandi frumvarp feli þá breytingu raunar ekki í sér. 

Það er rétt sem Róbert segir, að áfengi getur skaðað aðra en einungis neytandann. En flestir ráða við sína áfengisneyslu og skaða ekki aðra. Afhverju þarf verslun með áfengi að lúta einhverjum sérstökum lögmálum fyrir þá? Afhverju eiga þeir að þurfa lúta lögmálum, sem eiga að koma í veg fyrir neyslu, þeirra sem skaða aðra með neyslu sinni? Núverandi fyrirkomulag kemur alls ekki í veg fyrir að hinir ólánsömu, sem ráða illa við sína neyslu, skaði aðra. Því skiptir þessi röksemdarfærsla Róberts engu máli. 

Róbert heldur áfram og veltir upp þeim viðbrögum sem ,,sölumaður fengi sem vildi nú um stundir kynna nýjan svaladrykk á markaði sem valdið gæti 200 líkamskvillum og sjúkdómum, yki verulega líkur á heimilisofbeldi og misnotkun, og kæmi iðulega við sögu í morðum, limlestingum, hvers kyns smáglæpum og banaslysum í umferðinni. Slíkur drykkur er ekki venjuleg vara."

Þetta er allþekkt, en einkar hæpin röksemdarfærsla hjá Róberti. Þó svo að menn séu undir áhrifum áfengis þegar þeir beita menn ofbeldi, þá þýðir það ekki að áfengið sé ábyrgt fyrir gjörðum þeirra. Byssan er ekki ábyrg fyrir dauða manna, heldur sá sem tekur í gikkinn. Einstaklingur sem kann illa með áfengi að fara er ábyrgur fyrir gjörðum sínum. Hvar það er selt, breytir engu um neyslu hans. Bann við fíkniefnum kemur ekki í veg fyrir að fólk neyti þeirra og valdi öðrum skaða undir áhrifum þeirra. Bann og hvers kyns takmörkun færir neysluna einungis undir yfirborðið, þar sem neyslan er fordæmd, og fælir neytendur enn fremur frá því að leita sér aðstoðar við sjúkdóminum sem hrjáir viðkomandi. Sjúkdómar annarra eiga ekki að hafa með það að gera hvar ég og Jói semjum okkar á milli að eiga viðskipti með áfengi. Áfengi er eins og hver önnur vara, þó svo að þú verðir fyrir áhrifum, og þó svo að Róbert vilji reyna að setja það í einhvern annan flokk. Bifreiðar valda öðrum ómældu tjóni, en við setjum viðskiptum með þær ekki skorður.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband