Um flata skuldaleiðréttingu

 

Síðan Íslendingar áttuðu sig loks á því að þeir áttu ekki snjöllustu bankamenn í heimi, og gætu í raun ekki bara látið skuldir hverfa, hafa þeir deilt um hvaða leiðir skuli farnar í skuldavanda heimilanna. Hafa þó nokkrar leiðir verið nefndar til að koma til móts við skuldug heimili. Stjórnvöld hafa komið á fót embætti, sem virðist þó svo máttlítið að það virðist lítið geta sinnt skyldu sinni. Stjórnvöld hafa jafnframt látið sérstaka nefnd reikna ýmsa kosti, hvað það kosti að fara flötu leiðina, sértæku leiðina o.s.frv. Niðurstöður þeirrar vinnu, hafa að margra mati, sýnt fram á að flöt skuldaleiðrétting sé of dýr, en hún myndi kosta u.þ.b. 185 milljarða króna.[1]

Það eru þó ekki allir alls kostar sáttir við þá niðurstöðu. Hagsmunasamtök Heimilanna, sem berjast fyrir flötu leiðinni, segja að hér hafi orðið forsendubrestur í formi verðbólgu og því beri að leiðrétta ákveðna prósentu tölu af öllum húsnæðislánum. Rökin þeirra eru í raun sú að enginn lántakandi hafi getað séð þetta verðbólguskot fyrir, á sama tíma og dregið hefur úr hækkun launa, og því sé á einhvern hátt ósanngjarnt að þeir sem skrifðuðu upp á lánssamninginn standi að fullu við sinni hluta skuldbindingarinnar.

Það er augljóst afhverju engin bankastofnun er tilbúin að fara þá leið að lækka öll útlán um ákveðna prósentutölu. Stjórnendur fyrirtækja hugsa fyrst og fremst um hagnað, og líkt og sjá mátti af verkum fyrrum bankastjórnenda, var það ekki endilega langtímahagnaður sem var þeim ofarlega í huga. Skammtímasjónarmið við rekstur fyrirtækja er mjög þekkt vandamál, sérstaklega þegar bónus kerfi eru við lýði. Enda er einsýnt að ekki verður af þessari leið nema með lagasetningu frá Alþingi, sem verður að teljast mjög ólíklegt.

En í hverju felst forsendubresturinn, ef um einhvern forsendubrest er að ræða?

Verðtrygging fjárskuldbindinga (skulda) hefur þekkst hér á landi síðan árið 1979. Peningar eru ávísun á verðmæti, en verðbólga rýrir verðgildi þeirra, svo fyrir hverja einingu af peningum færðu þeim mun minna af verðmætum eftir því sem verðbólga er meiri. Þegar verðbólguástand varir hækka laun einnig, enda myndi eftirspurn almennings eftir vörum ella dragast mikið saman. Þegar laun hafa hækkað mikið, en skuldir staðið í stað, hefur kaupmáttur í raun aukist, þ.e. minna hlutfall af tekjum fer í afborganir skulda. Á sama tíma hefur rekstrarkostnaður lánveitanda aukist, s.s. launakostnaður og önnur útgjöld, en hann fær engu að síður skuld sína greidda líkt og um eðlilegt verðlag væri að ræða.

Því er reiknuð vísitala neysluverðs, en hana má finna á vef Hagstofunnar,[2] en hún segir okkur hver verðbólga er. Hér á landi hafa húsnæðislán yfirleitt verið með föstum vöxtum, þó svo bankarnir bjóði jafnframt upp á breytilega vexti, en það þýðir að vextir breytast ekki meðan á lánstímanum stendur. Þau eru einnig jafngreiðslu lán, sem þýðir að hver afborgun er alltaf jafnhá en mismunandi hlutfall greiðslunnar eru vextir og afborganir af höfuðstól. Þannig eru vextir hærra hlutfall afborgana í byrjun, en minnka eftir því sem lengra líður á lánstímann. Verðtrygging verður síðan til þess að höfuðstóll láns hækkar og því hækka afborganirnar.

Hermann Guðmundsson, forstjóri N1, skrifaði grein á vefmiðlinum Pressunni þar sem hann bendir á að íslensk verðtryggð lán séu þeim eiginleikum gædd að hvorki skuldari né lánveitandi hafi nokkra hugmynd um hvert endavirði lánsins verður. Með þessu kerfi hafi ekki verið hægt að koma í veg fyrir að áhætta lántakenda yxi gríðarlega.

Lengi vel hefur okkur sem þjóð þótt þetta alveg þolanlegt fyrirkomulag sérstaklega þar sem lánstíminn er langur og að mestur hluti verðbólgunar leggst við höfuðstól og dreifist á lengri tíma. Yfir lengri tíma tíma dregur hins vegar í sundur með kaupmætti sem er bundinn við ISK og láninu sem ekki er í ISK.

Það sem Hermann bendir hins vegar ekki á, er að kaupmáttur hefur aukist á undan, líkt og kemur fram á meðfylgjandi mynd.[3]

 

Skuldaleiðréttingm
 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Líkt og sjá má fylgjast vísitölurnar lengi vel að, en árið 1996 byrjar launavísitalan að aukast enn meira svo nokkurt bil myndast milli þeirra. Þetta þýðir að kaupmáttur launa fer vaxandi eftir 1996, laun hækka, en verðbólga heldur ekki í við þá þróun. Árið 2008 kom síðan verðbólguskot, en meðaltal það ár var 12,4%. Launavísitalan vex það ár um 8,1%, en hafði árið áður verið um 9%. Árið 2009 er vöxtur hennar hins vegar ekki nema 3,9%, en þá er verðbólga rétt tæp 12%. Það sem af er árinu 2010 hafa vísitölurnar vaxið nánast jafnt, eða um 6% hvor.

Þetta er í fullkomnu samræmi við orð Leifs Þorbergssonar, hagfræðinema , sem segir að fullkomin leitni sé á milli launaþróunar og verðbólgu, en að laun hækki þó yfirleitt hraðar en verðbólga, sem skýri hagvöxt og aukinn kaupmátt.[4] Myndin sýnir glögglega að launþegar hafa ennþá nokkurt forskot, þó svo þeir vilji í raun meina að þeir hafi tapað. Leifur kemst vel að orði þegar hann segir: „Eggjakastararnir voru tilbúnir að hirða „ágóðan“ af lækkandi verðbólguprósentu áður fyrr, en rjúka nú upp til handa og fóta þegar þau lenda í tímabundnu „tapi“.“

Leifur er nokkuð harðorður í garð þeirra sem vilja flata leiðréttingu skulda og segir:

Sú kynslóð sem nú við upphaf 21. aldar er upp á sitt besta, verður minnst fyrir óráðsíu og skammsýni í fjármálum. Það virðist þó sem að það eitt verði ekki það eina sem um hana verði skrifað í sögubókum framtíðarinnar, heldur verður henn[ar] einnig minnst sem kynslóðarinnar sem vildi - með kjafti og klóm - koma skuldum sínum á foreldra sína (lífeyrissjóðina) og börnin sín (ríkissjóð, þ.e. framtíðar skattgreiðendur).

Forsendubrestur á því að hafa orðið, vegna þess að á árunum 2008 og 9 hafi verðbólga verið um og yfir 12%, en launaþróun hafi ekki haldið í. Því miður er ekkert sem segir að forsendubrestur verði þegar vöxtur verðbólgu er meiri launa, ekkert fremur en að það sé forsendurbrestur þegar vöxtur launa er meiri en vöxtur verðbólgu. Kröfur Hagsmunasamtaka Heimilanna um forsendubrest eru því nokkuð hæpnar, sérstaklega þegar sú staðreynd er höfð í huga að vísitölurnar haldast í hendur til lengri tíma litið. Fólk mátti því vita að vöxtur verðbólgu ætti eftir að aukast og að hægja myndi á vexti launa, vísitölurnar myndu leita í jafnvægi.[5]

Pistlahöfundar, sem skrifa á vef Hagsmunasamtaka Heimilanna, líta svo á að kostnaður ríkisins af flatri skuldaleiðréttingu þurfi ekki að vera neinn þegar upp er staðið.[6] Hvernig má það vera að áðurnefnd nefnd og Hagsmunasamtök Heimilanna komist að jafn ólíkri niðurstöðu.

Eins manns skuld er annars manns eign, en eignarrétturinn er varinn í stjórnarskrá. Það er því algjörlega fráleitt að halda að ríkið geti sett lög um flata niðurfellingu, án þess að til skaðabótaskyldu gæti komið. Heildareignir lánastofnana í formi húsnæðislána eru metnar á 1.392 milljarða króna,[7] samkvæmt skýrslu sérfræðingahóps um skuldavanda heimilanna. Þar kemur jafnframt fram að af þeim 73 þúsundum heimilum sem eru með húsnæðislán, eigi um 14,7% þeirra í greiðsluvanda, eða tæp 11 þúsund heimili. Ef við gerum ráð fyrir að skuldirnar dreifist jafnt á hvert heimili, eru heildarskuldir þeirra heimila sem eiga í greiðsluvanda rétt rúmir 200 milljarðar.[8]

Marinó G. Njálsson, fyrrum stjórnarmaður Hagsmunasamtaka Heimilanna, telur að nýju bankarnir hafi keypt kröfur gömlu bankanna með 420 milljarða afföllum.[9] Ef rétt reynist hafa bankarnir umtalsvert svigrúm til leiðréttinga. En þær voru ekki seldar með þessum afföllum vegna þess að eigendur þeirra (kröfuhafar föllnu bankanna) væru svo ánægðir með að geta komið til móts við almenning á Íslandi. Þar réði óvissan um verðmæti þeirra mestu, þ.e. hvað almenningur á Íslandi myndi á endanum greiða af þessum kröfum.

Ef neysluviðmið heimilanna er hækkað, frá matinu sem áður er getið, kemur í ljós að um 24% heimila eiga við greiðsluvanda að etja. Heildarskuldir þeirra, sé miðað við sömu forsendur og í fyrra dæminu, eru rétt rúmir 330 milljarðar króna.[10] Það er því ljóst að það kostar bankana mikla fjármuni að bregðast ekki við. Sá kostnaður myndi hins vegar ekki falla beint á ríkissjóð.  

Marinó spyr í kjölfarið hvort það sé „réttlæti eða lögmál að þegar bankakerfi setur hagkerfi á hliðina, þá eigi skattgreiðendur að borga fyrir uppbyggingu bankakerfisins og bankakerfið eigi síðan að eignast allar eignir heimilanna?“ Þarna vísar Marinó í þá staðreynd að „stjórnvöld ákváðu að tryggja innstæður umfram skyldu með svo kölluðum neyðarlögum og bæta í peningamarkaðssjóði,“ en þá staðreynd notar pistlahöfundur samtakanna til að réttlæta flata skuldaleiðréttingu.[11]

Báðum þessum spurningum ætti að svara neitandi. Engum stjórnmálamanni hefði hins vegar látið sér koma til hugar annað en að fulltryggja allar innistæður við hrun bankanna. Þó svo að engin lög hafi verið til staðar sem skylduðu ríkið til þessarar aðgerðar, var hún óhjákvæmileg vegna þess að um sparnað og peningalegar eignir almennings í landinu var að ræða. Einnig verður að meta það svo að almenningur hefði krafist þess að þessi leið yrði farin, jafnvel gert ráð fyrir henni. Stjórnvöld voru því að gera það sem meirihluti þjóðarinnar hefði viljað. Ef innistæður hefðu ekki átt að vera tryggðar af ríkissjóði, hefði orðið að taka af öll tvímæli í þá veruna löngu áður en að til falls bankanna kom.[12] Það hafði aldrei verið gert, og fullvíst er að margir geymdu fjármuni sína í bönkunum í þeirri trú að þeir væru öruggir þar.

Síðari spurningu Marinós má snúa við; héldu heimilin að þau myndu græða við hækkun eignaverðs? Héldu lántakendur að þeir myndu fá eitthvað fyrir ekki neitt? Hagfræðilegar staðreyndir, sem ég hef rakið hér á undan, sýna að ekki er um eiginlega eignaupptöku bankanna að ræða. Kerfið er að leita í jafnvægi. Og kerfið er ekki endilega að taka eitthvað frá heimilunum sem þau áttu fyrir. Fólk gat ekki búist við að það myndi eignast fleiri milljónir í formi hækkandi húsnæðisverðs, án þess að það þyrfti að greiða fyrir það síðar. Varað var við að þetta gæti átt sér stað löngu fyrir hrun, þegar Framsóknarflokkurinn lét vinna skýrslu um áhrif 90% húsnæðislána, líkt og fram kemur í rannsóknarskýrslu Alþingis. Viðvararnirnar voru látnar sem vindur um eyru þjóta, og því fór sem fór.

Það er þó ljóst að hægt er að koma í veg fyrir að slíkar deilur skjóti upp kollinum í framtíðinni. Það verður þó einungis gert með upptöku nýs gjaldmiðils, svo hægt sé að afnema hina óþolandi verðtryggingu. Ljóst er að fjármagnseigendur væru tregir til að lána íslenskar krónur til lengri tíma án verðtryggingar, líkt og Hermann Guðmundsson bendir á og segir ennfremur:

Í engu hagkerfi þekkist það að lána fé til almennings án þess að endurgreiðslu upphæðin sé þekkt og jafnvel fest við upphaf lánstímanns. Við [Í]slendingar höfum um árabil látið hafa okkur í að taka lán til áratuga sem við vitum ekkert hvað muni kosta okkur. Það sem ekki hefur verið nefnt er að ekki er eingöngu um verðhækkanir á mörkuðum um allan heim að ræða heldur er tryggt að þegar verðgildi ISK fellur þá fáum vikum síðar hrúgast upp verðbólguhagnaður hjá lánveitendum með tilheyrandi upptöku eigin fjár fasteignaeigenda. Slík lán eru því afar flókin afleiðuviðskipti með vöruverð, þjónustuverð, fasteignaverð og gengisáhættu. Mér er til efs að til séu mikið flóknari vörur í heimi afleiðuviðskipta en íslensk húsnæðislán. Fyrir ekki löngu síðan setti ESB reglur sem kallaðar eru MIFID reglur og er m.a. ætlað að tryggja að almenningi séu ekki seldar flóknar fjármálaafurðir þar sem ætla má að seljandinn (fjármagnseigandinn) hafi verulegt þekkingarforskot á viðskiptavininn. Því þurfum við að átta okkur á því hvort að þessi flóknu afleiðulán séu í raun lögleg vara til að selja almennum borgurum þessa lands.[13]


[1] 185.000.000.000 kr.

[2] Seðlabanki Íslands reiknaði út samsetta lánskjaravísitölu í fyrstu, sem reist var á þágildandi framfærsluvísitölu og byggingarvísitölu. Þessari aðferð var breytt árið 1989 er launavísitölu var bætt við. Árið 1995 voru sett lög um vísitölu neysluverðs, nr. 12/1995 og leysti hún vísitölu framfærslukostnaðar af hólmi. Þá var jafnframt ákveðið með lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, að nota vísitölu neysluverðs eina til verðtryggingar.

[3] Upplýsingar fengnar af vef Hagstofunnar. Unnið er með launa- og neysluverðsvísitölu frá og með 1989, þó svo að báðar hafi verið teknar upp árinu áður, og voru þá 100 stig. Ég umreiknaði gögnin svo að vísitalan byrjar í 100 stigum árið 1989.

[4] Leifur Þorbergsson: Aldamótakynslóðin og kókópuffskynslóðin?, Pressan.is, 2010

 

[5] Ég ætla fólki ekki að hafa átt að búa yfir þessari vitneskju, ég vissi þetta ekki sjálfur fyrr en ég fór að skrifa þessa grein. Fólk getur samt ekki skýlt sér á bak við þá rökfærslu að það hafi ekki getað séð einhverja þróun fyrir, það getur enginn. Slík röksemdarfærsla mynd hafa ófyrirséðar afleiðingar ef hún yrði fordæmisgefandi.

[6] Dæmi um þetta má finna á vef samtakanna.

[8] 200.000.000.000

[9] Vefur Hagsmunasamtaka Heimilanna, þetta eru þó ekki opinberar tölur, enda hafa bankarnir ekki látið þær uppi. Vitað er þó að afslátturinn var umtalsverður.

[10] 330.000.000.000

[12] Skoðun mín er reyndar sú að það beri ríkinu að gera, enda er almenningi gert kleift að fjárfesta í skuldabréfasjóðum, tryggðum af ríkinu. Áhættufælnir fjárfestar eiga því kost á ríkisábyrgð.

[13] Þó svo ég sé ekki sammála Hermanni um hugsanlegt ólögmæti lánanna, er ég þó vissulega sammála honum um hvílíkt óhagræði þau valda þeim sem þau þurfa, og hve ósanngjörn þau eru í raun. Sá punktur kemst fyllilega til skila. 

 


Um stjórnlagaþing

Framundan eru kosningar til stjórnlagaþings. Í framboði eru ekki nema 525 einstaklingar, en hver sem hyggst kjósa skal velja 25 af þeim, sem hann telur að hafi gildi lík sínum eigin. Hann er vissulega bara að kjósa þann sem mest þarf á atkvæði hans að halda, velur í raun bara einn, en engu að síður er ætlast til að hann velji 25 einstaklinga. Á dögunum barst mér blað sem á að kynna mér frambjóðendurna. Nafn og mynd fylgir hverjum og einum frambjóðanda, ásamt upplýsingum um menntun og starfsreynslu. Svo gefst hverjum frambjóðanda færi á að skrifa lítinn texta um ástæður þess að viðkomandi býður sig fram til setu á stjórnlagaþinginu.

Það er ekki auðvelt verk að ætla sér að fylla upp í þennan 25 manna kvóta sem okkur er gefinn. Þegar lesið er um ástæður framboðs viðkomandi getur verið nokkuð erfitt að átta sig á stefnumálum hans, þar sem oft á tíðum er um að ræða texta, sem settur hefur verið saman til að höfða til sem flestra. Sumir láta í ljós einhver af stefnumálum sínum, en stundum er það bara alls ekki gert.

Ég hefði getað valið úr fjölda frambjóðenda, en hér er ágætt dæmi:[1]

Stjórnarskrá hvers lands er grunnur lagasetningar, lýðræðis og réttinda íbúanna. Eins og önnur mannanna verk þarf að vera hægt að aðlaga hana breyttum áherslum og breyttum aðstæðum sem verða í tímans rás. Ganga þarf úr skugga um að breytingar á henni séu mögulegar en bylting erfið. Allt frá því við fengum stjórnarskrána hafa breytingar á henni reynst Alþingi og stjórnvöldum erfiðar og í sumum tilvikum ómögulegar og því nauðsynlegt að koma á sérstöku stjórnlagaþingi.

Ég vil leggja mitt af mörkum við uppbyggingu þess þjóðfélags sem reisa á í kjölfar hruns þess er varð haustið 2008 og tel að ég þjóni því best með því að taka þátt í gerð hinnar nýju stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.

Það er alls ekki ætlun mín að gera lítið úr viðkomandi frambjóðanda, en á hann virkilega von á að afla sér margra atkvæða út á þennan texta? Ég veit vel hvað stjórnarskrá er og hvaða hlutverki hún þjónar. Ég veit líka að erfitt á að vera að breyta henni, það er tryggt með 79. grein. Á hverju ári frá 1976 hafa verið settar fram tillögur að breytingum á stjórnarskránni. Afdrif þeirra flestra er að daga uppi óútræddar, en fjórar þeirra hafa verið samþykktar. Möguleikinn á að breyta henni er því klárlega til staðar, og ekki þarf að kosta neinu stjórnlagaþingi til. Dægurþras, duttlungar og tískubólur hafa heldur ekkert í stjórnarskrána að gera, og því hefur það oft og á að reynast stjórnvöldum erfitt að breyta henni. Ég veit ekki til þess að neitt stjórnlagaþing hafi þurft til þess áður, heldur hefur það verið í höndum stjórnmálamanna, sem til þess eru kjörnir og eiga að hafa atvinnu af því að setja lög og breyta stjórnarskrám. En þeir hafa ekki þor, líkt og birtist okkur augljóslega þegar kemur að einu helsta stefnumáli núverandi ríkisstjórnar um fyrningarleiðina svokölluðu.

Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar vita að almenningur er lítt hrifinn af núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, enda virðist fólk halda að það hafi verið svipt einhverjum réttindum sem það hafði ekki áður. Það trúir því jafnvel að það hafi verið rænt um hábjartan dag. Enda kemur þetta glögglega í ljós þegar gluggað er í snepilinn, helsta stefnumál margra virðist vera að binda þjóðareign á auðlindum í stjórnarskrá.

Og hvað heldur fólk? Að þegar slíkt ákvæði er komið í stjórnarskrána geti það hugsanlega bara sest í helgan stein eins og einhverjir af fyrrum kvótaeigendum hafa nú þegar gert? Að það muni fá eignarhlut sinn í auðlindinni greiddan frá þeim sem ætlar að veiða fiskinn og sjá um að skapa allan arðinn? Eða heldur fólk virkilega að rentan af sjávarútvegi, eða öðrum auðlindum, sem skilar sér aukalega í ríkissjóð muni skila því betri lífskjörum. Þessum spurningum er bara hægt að svara á einn hátt; neitandi!

Gefum okkur dæmi: Ísland er ónumið land. Ég nem landið, fyrstur manna og eigna mér jörð sem hæfir mér og er nóg til að sjá fyrir mér og fjölskyldu minni. Tíminn líður og brátt eru allar jarðir á Íslandi numdar og því ekki hægt að yrkja fleiri. Jarðirnar eru allar í einkaeigu, þó svo að slíkt hafi ekki verið raunin hér áður fyrr. Það kann vissuleg að hafa virst mjög ósanngjarnt hlutskipti fyrir þann sem kom næstur á eftir þeim sem nam síðasta skikann að fá ekki neina jörð. En við vitum nú að honum var enginn óleikur gerður, líkt og John Locke bendir á í bók sinni, Ritgerð um ríkisvald:[2]

Sá, sem slær eign sinni á land með vinnu sinni, minnkar ekki, heldur eykur sameiginleg föng mannkyns, því sá afrakstur, sem fæst af einni ekru afgirts ræktarlands og gagnast mönnum til viðurværis, er – svo ég dragi nú heldur úr en ýki – tíu sinnum meiri en sá afrakstur, sem fæst af ekru jafngóðs lands, sem liggur ósáð í almenningi.

Þó svo að menn taki eitthvað úr hendi náttúrunnar til að nýta í eigin þágu, þurfa þeir ekki endilega að skerða hag annarra. Þó svo þeir hafi tekið ákveðin tækifæri frá öðrum, sköpuðust önnur betri, eða jafngóð í staðinn. Þetta má best sjá með því að ímynda sér ónumið land. Hvort myndir þú vilja setjast að á Íslandi fyrir 1000 árum, eða nú í dag?

Land er auðlind. Vissulega misjafnlega gjöful auðlind, en auðlind engu að síður. Engum dettur samt í hug að slíta jörðina af réttmætum eigendum sínum og skipta ágóða hennar upp á milli þjóðarinnar. Engum dettur heldur í hug að leggja sérstakan skatt á bændur vegna gæfu þeirra að eiga landskika, þó svo vissulega hafi slíkar hugmyndir verið uppi.[3] Bændur eru, enda stærstu styrkþegar skattkerfisins og eru því lítt aflögufærir. Engum dettur í hug að tengja saman stjórnarskrárákvæði um þjóðareign á auðlindum við jarðir bændanna í landinu. Ef slíkt stjórnarskrárákvæði gerði okkur kleyft að biðja sjávarútvegsfyrirtækin um að skila kvótanum, hlyti það að þýða að við gætum farið fram á það sama við bændurna.[4] Ekki? Nei, þú sérð það líklega núna hversu ótrúlega heimskuleg þessi hugmynd er. Það er nefnilega mjög ólíklegt að afkomandi minn búi enn þann dag í dag á landinu sem ég nam í fyrndinni. Landið hefur gengið kaupum og sölum og um það gildir eignarréttur sem er varinn í stjórnarskrá. Kvótinn hefur gengið kaupum og sölum og því er líklegt að eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar gildi einnig um hann. Ef til fyrningarleiðarinnar kæmi þyrfti að greiða handhöfum kvótans skaðabætur fyrir tap sitt, þær skaðabætur kæmu úr vösum skattgreiðenda. Að öllum líkindum yrði því lítill ágóði fyrir almenning af þessari aðgerð.

En afhverju bauð ríkið kvótann ekki upp? Vegna þess að þá hefðu einungis þeir stöndugustu í greininni náð að kaupa/leigja sér kvóta. Þar með hefði lífsviðurværi fjölda manns verið kippt undan þeim með einu pennastriki. Þeir sem einu sinni máttu stunda sjóinn án nokkurra takmarkana, mættu það ekki lengur. Líklegt verður að teljast að ríkið hefði orðið skaðabótaskylt gagnvart þessum aðilum.

Afhverju innheimtir ríkið ekki rentu af handhöfum kvótans? „Enga augljósa eða brýna hagræna nauðsyn ber til skattsins, enda er núverandi kvótakerfi í aðalatriðum hagkvæmt, heldur liggur honum að baki það sjónarmið, að óréttlátt sé, að útgerðarmenn hirði sjávarrentuna í stað þess, að hún renni í ríkissjóð,“[5] segir Hannes Hólmsteinn Gissurarson.

Þeir sem vilja fara þá leið að ríkið leigi út kvótann, ofmeta virði hans. Virði hans á frjálsum og opnum markaði er mun meira en ef kvótinn væri í eigu ríkisins. Úgerðarmenn hefðu t.d. ekki hag af því að heildarafli væri ákvarðaður eins og hagkvæmast væri, heldur myndu þeir beita áhrifum sínum til þess að aflinn væri ákvarðaður mun hærri. Fólk hirðir um það sem það á, en mun síður um það sem það á ekki. Afleiðingarnar yrðu óhagkvæmari veiðar og lægri heildartekjur, en ef kvótinn væri í einkaeign.  Hannes tiltekur fleiri rök í bók sinni, en óþarfi er að nefna þau öll hér.

Þar sem erfitt reyndist fyrir menn að girða hafið af, réru þeir til fiskjar sem vildu róa. Framan af gekk þessi hugmynd vel upp, enda notuðum við árabáta við veiðarnar í fyrstu. Eftir því sem tækin urðu afkastameiri varð mönnum ljóst að ofveiði var staðreynd, þar sem um ótakmarkaða sókn á miðin var að ræða. Við getum rétt ímyndað okkur ástand landsins ef allir Íslendingar gerðu jafnt tilkall til allra jarða og við hefðum allt í einu rúmlega 300.000 bændur. Ein afleiðingin yrði sú að fæstir gætu séð sér farborða, nema með mjög lökum kjörum enda margir einstaklingar um mjög takmörkuð gæði. Önnur yrði sú að jarðirnar yrðu fljótlega óræktanlegar. Frjóasta land veraldarinnar, frjói hálfmáninn, varð að eyðimörk. Takið eftir hve líkar afleiðingarnar eru með ótakmarkaðri sjósókn og óheftri nýtingu lands. Hér var sjávarútvegur lengstum á vonarvöl, og þurfti lengi vel að greiða með honum í formi vitlausrar gengisskráningar, auk þess sem gengið var reglulega fellt, með tilheyrandi verðbólgu og öðrum kostnaði sem almenningur þurfti að bera, m.a. gjaldeyrishöft og fyrirgreiðslupólík sem þeim fylgdi.

Meira að segja Valdimar Hergils jóhannesson, læknir, viðskiptafræðingur og stjórnlagaþingsframbjóðandi, virðist ekki skilja jafn einföld rök og ég hef sett hér fram. Samt er hann eldri en tvævetur, fæddur árið 1941, og ætti því vel að muna eftir haftaárunum sem hér voru við líði. En kannski er hann búinn að gleyma, eða tengir þetta tvennt ekki saman.[6] Þegar loks hefur verið komið á einu arðbærasta sjávarútvegskerfi sem fyrirfinnst, er almenningur ósáttur vegna þess að einhverjum þurfti að „gefa“ kvótann, líkt og einhverjir fengu jarðir sínar án þess að greiða nokkra fjármuni fyrir þær. Okkur dettur samt ekki til hugar að landnemarnir hafi stolið einhverju, enda greiddu þeir í raun fyrir jarðir sínar með vinnunni sem þeir lögðu til við ræktun þeirra, líkt og John Locke bendir á. Að sama skapi höfðu þeir sem fjárfest höfðu í tækjum og tólum til veiða, og lagt vinnu til við að sækja sjóinn greitt fyrir afnot sín af auðlindinni. Þeir höfðu, líkt og landnemarnir sem numdu land og ræktuðu, „numið“ hafið og lagt rækt sína við það.

Það vita það allir sem vilja vita að stjórnarskráin okkar orsakaði ekki það hrun sem hér varð árið 2008. Þó svo Þorvaldur Gylfason telji að veðsetning kvóta hafi verið upphafið af öllu því slæma sem hér gerðist, þá er sú hugmynd ansi langsótt. Veðsetning kvóta gerði bönkunum ekki kleyft að stækka jafnmikið og raun bar vitni. Veðsetning kvóta var ekki ástæða vaxtahækkanna Seðlabankans, sem gerði það að verkum að erlent fjármagn streymdi hingað til lands, enda vextir þá í söguleg lágmarki erlendis. Því miður var það þó svo að bankarnir þurftu að láta þetta erlenda fjármagn vinna fyrir vöxtunum sem þeir þurftu að skila til eigenda þess, og því var það svo að sjávarútvegsfyrirtæki tóku lán til kaupa á hlutabréfum í bönkum. Þó svo ábyrgðin liggi að stærstum hluta hjá stjórnendum fyrirtækisins, þarf enginn að velkjast í vafa um að bankinn átti þarna hlut að máli. Hugmyndin hefur að öllum líkindum ekki komið fram einhliða á stjórnarfundi sjávarútvegsfyrirtækisins; „Hvernig væri að splæsa í hlutabréf fyrir milljarð og taka bara lán fyrir því?“

Það vita það líka allir sem vilja vita að ný og endurbætt stjórnarskrá kemur ekki í veg fyrir að slíkt hrun endurtaki sig, enda verður varla sett ákvæði í stjórnarskrá sem beinlýnis bannar hrun. Sú staðreynd, að stjórnvöld ætla að eyða fleiri hundruð milljónum til að halda stjórnlagaþing, þegar skera þarf jafn mikið niður á sviði heilbrigðismála og raun ber vitni, er gott dæmi um forgangsröðun velferðarstjórnarinnar, setta fram til að slá ryki í augu fólks.

Uppbygging þjóðfélagsins verður ekki vegna breytinga á stjórnarskránni í kjölfar hrunsins árið 2008. Við hefðum vel getað komið okkur upp úr þeim þrengingum sem að okkur steðja án þess að til stjórnlagaþings hefði þurft að koma. Og í raun er þetta þing ekki til neins annars fallið en að tefja uppbygginguna. Sá sem vill stuðla að uppbyggingu þjóðfélagsins, reisa börnum okkar og afkomendum vænlegt samfélag að búa í, vinnur þá vinnu sem honum er best fallið til að vinna, eða nýtir þekkingu sína og hugmyndir til að búa til störf til handa þeim sem hafa þau ekki nú þegar.

Það var ætlun mín í upphafi að skrifa um hversu flókið það væri fyrir kjósendur að velja fólk á lista fyrir þetta stjórnlagaþing. Ég villtist örlítið af leið, en ég vona að það komi ekki að sök. Pistillinn hefði orðið alveg jafn leiðinlegur...


[1] Tryggvi Magnús Þórðarson, frambjóðandi til stjórnlagaþings.

[2] John Locke: Ritgerð um ríkisvald, 37. bls.

[3] T.d. hugmyndir um landskatt sem kenndar eru við Henry George.

[4] Reyndar setti einn áhrifamesti frjálshyggjumaður 19. aldar, Herbert Spencer, fram hugmynd um landeigendaskipti, í bók sinni Stjórnmálaskipulag. Í henni fólst að ríkið myndi taka jarðirnar af eigendum sínum og leigja þær út. 40 árum síðar hafði Spencer svo skipt um skoðun.

[5] Hannes H. Gissurarson: Fiskar undir steini 113. bls.

[6] Það er líklega kaldhæðni örlaganna, en Tryggvi er fyrrum starfsmaður skipadeildar Sambandsins.


Um jafnrétti

Einkarekið fyrirtæki auglýsir tvær lausar stöður. Starfsheiti, skyldur og  ábyrgð eru þær sömu. Umsækjendur eru krafðir um háskólamenntun. Fjöldi fólks sækir um, enda atvinnuleysi umtalsvert. Eftir viðtöl lýst atvinnurekandanum best á tvo umsækjendur, af sitthvoru kyninu. Samningar takast við þau bæði í öllum atriðum, en svo spyr atvinnurekandinn um hvað hvort um sig vilji fá borgað fyrir vinnu sína. Bæði svara þau því sama, 400.000 krónur á mánuði. Atvinnurekandinn segir við stúlkuna að það sé ekki alveg sú tala sem hann hafði í huga, en hann er tilbúinn að borga henni 370.000 krónur á mánuði. Samningar takast og stúlkan er ráðin í starfið. Atvinnurekandinn sér hins vegar ekkert athugavert við að greiða drengnum 400.000 krónur og samningar takast með þeim án frekari viðræðna um laun.

Þessi ótrúlega saga er tilbúningur, en engu að síður er til fólk sem trúir því í algjörri blindni að þetta sé það sem á sér stað í viðtalsherbergjum, þegar atvinnuviðtöl fara fram. Til eru opinber ráð sem hafa það að markmiði að jafna launamismun kynjanna, sem samkvæmt könnunum, er umtalsverður. Jafnframt eru til stjórnmálaflokkar sem trúa því að svipaðar sögur, og hér að ofan er greint frá, eigi sér stað. Að lokum eru svo til samtök sem berjast af krafti fyrir jafnri stöðu kvenna í samfélaginu, og gegn því að svona sögur eigi sér stað.

Og þetta fólk hefur lög að mæla þegar það segir að kynin eigi að vera jöfn. Stjórnarskráin okkar mælir svo fyrir að bannað sé að mismuna á grundvelli kynferðis. Stjórnarskráin okkar segir hins vegar ekkert um það að hver einstaklingur eigi að vera jafn þeim næsta. Hið opinbera á í örlitlum vandræðum þegar kemur að þessari umræðu. Því er vissulega skylt að ráða hæfasta einstaklinginn í starfið, en þarf á sama tíma að gæta jafnréttis. Ef hið opinbera hefði verið atvinnurekandinn í frásögninni hér að ofan hefði umrædd stofnun orðið að taka tillit til kynferðis umsækjendanna. Ef starfsmenn stofnunarinnar væru allir karlmenn, hefði stofnuninni verið skylt að ráða kvenmann. En sú staða hefði getað verið uppi að fimm hæfustu umsækjendurnir væru allir karlmenn. Við getum vel sett dæmið upp á hinn veginn, það skiptir ekki máli rökræðunnar vegna. Er þá ekki komin upp sú staða að karlmanni hefur verið mismunað, eingöngu vegna þess að hann er karlmaður. Ástæðan fyrir því að hann var ekki ráðinn í starfið er ekki sú að hann var ekki hæfastur, heldur sú að hann er karlmaður. Eru kvenmenn virkilega sáttir við að vera ráðnir bara fyrir það eitt, að þær eru konur? Ég veit að ég væri ekki sáttur við að vera ráðinn í starf vegna kynferðis míns, ef ég vissi að aðrir væru hæfari en ég. Slíkt er lítillækkandi.

Konur eru í engu síðri starfsmenn en karlar. Hæfni snýst um einstaklingsbundna eiginleika og hæfni. Konur eru umtalsvert fleiri í háskólum landsins, þær eru samviskusamar, áhættufælnari en karlar, og búa yfir fullt af öðrum ágætum kostum. Kona er samt ekki hæfari en karl bara fyrir það eitt að vera kona. Þó kynin séu mismunandi að upplagi er það fyrst og fremst hæfileikaríkasti einstaklingurinn sem atvinnurekandinn vill ráða til sín í vinnu, hvort heldur sem um er að ræða konu eða karl. Í því felst mestur ávinningur fyrir fyrirtækið, starfsmaðurinn kemur með aukna þekkingu, afkastar meiru og bætir þannig samkeppnishæfni fyrirtækisins á markaði. Kona með góða menntun og reynslu er verðmætur og eftirsóknarverður starfskraftur, engur síður en karlmaður með sömu menntun og reynslu. Ef atvinnurekandi sér fram á að konan geti afkastað til jafns á við karl, sem ég dreg alls ekki í efa, á sömu unnu tímum væri algjörlega fráleitt að hann færi eins að og lýst er í frásögninni hér að ofan. Það eru fáir svo vitlausir að hugsa með sér, að konum muni þeir einungis bjóða hluta þeirrar upphæðar sem í boði er fyrir karlmann. Meira að segja hugmyndin er út í hött, þó svo hugsanlega megi finna misjafnan sauð í mörgu fé.

Í grein Vefþjóðviljans, þriðjudaginn 26. Október síðastliðinn ritar pistlahöfundur:

Það er líka gegn allri almennri skynsemi að konum sé greitt lægra kaup en körlum fyrir sama vinnuframlag. Væru aðstæður þannig myndu einhver fyrirtæki einfaldlega sjá sér þann leik á borði að ráða bara konur, bæta þeim launamuninn að mestu leyti en hafa samt forskot á önnur fyrirtæki í launakostnaði. Nema kvennahreyfingunni og jafnréttisstofunum hafi með áróðri sínum tekist tekist að gjaldfella vinnukrafta þeirra.

En þá kann hugsanlega einhver að spyrja afhverju kannanir sýni launmuninn sem konur eru að mótmæla? Helgi Tómasson prófessor í tölfræði við Háskóla Íslands skýrir þetta vel í grein sem birtist í 2. hefti Þjóðmála árið 2006.[1]

Dæmi um mæliskekkju sem er algeng í launakönnunum er mæling á stöðu starfsmanns, þ.e. hvort hann er flokkaður sem yfirmaður eða undirmaður. Í launakönnunum Hagstofu (áður Kjararannsóknarnefndar) hefur legið fyrir að í launbókhaldi er fjöldi yfirmanna flokkaður sem undirmenn og einnig kemur fyrir að undirmenn séu flokkaðir sem yfirmenn. Svona villa bjagar mat á meðallaunum bæði yfirmanna og undirmanna. Þar sem yfirmannshlutfall er misjafnt eftir kynjum verður bjögunin misjöfn eftir kynjum. Gerum ráð fyrir að yfirmenn hafi tvöföld laun undirmanna og að líkur á að yfirmaður sé ranglega flokkaður sem undirmaður séu 30% og að undirmaður sé ranglega flokkaður sem yfirmaður séu 5%. Gerum einnig ráð fyrir 30% karla séu yfirmenn og að 5% kvenna séu yfirmenn. Þessar tölur eru raunhæfar miðað við það sem var í úrtaki Kjararannsóknarnefndar á árunum 1986-1990 fyrir skrifstofufólk. Með reglu Bayes (líkindafræðiregla) um skilyrtar líkur er hægt að sjá að bjögunin sem af þessu hlýst er þannig að karlkyns undirmenn virðast hafa ca. 10-12% hærri laun en kvenkyns undirmenn og að karlkyns yfirmenn virðast hafa ca. 30% hærri í laun en kvenkyns yfirmenn. Bjögun af völdum flokkunarskekkju fer því langt með að skýra þann mun sem hefur stundum verið á tímakaupi skrifstofufólks eftir kynjum í úrtaki Kjararannsóknarnefndar.

Og Helgi bætir við:

Ljóst er að mikið af mældum launamun er vegna hegðunar þeirra kynslóða sem nú eru á vinnumarkaði. Í sumum núlifandi kynslóðum er stór hluti kvenna sem hefur miklu minni reynslu á vinnumarkaði en karlar. Augljóst er að tölfræðilíkan sem ætti að skýra allan vinnumarkaðinn fyrir allar núlifandi kynslóðir er flókið. Einföld líkön gefa bjagaða mynd og leiða til þess að fólk hrapar að alröngum ályktunum. Það er ljóst að hugsanlegt misrétti milli kynja eða kynþátta getur ekki skipt mörgum prósentum. Sömuleiðis er afar ósennilegt að menn hafi myndað samtök um að stunda mismunum sem bitnar á heilum hóp.

[...]Slíkt getur hins vegar ekki viðgengist til lengdar í markaðskerfi og alls ekki í slíku mæli að dugi til að hreyfa til meðaltal stórs hóps. [...]Á Íslandi hafa verið nefndar tölur á bilinu 65%-90% allt eftir því hvers konar tölfræði líkön eru notuð. Fyrir marga einsleita hópa eru prósenturnar jafnari en ótrúlega einföld líkön virðast skýra mjög mikið. Eðlilegt og sjálfsagt er að efast um þessar tölur. Þeir sem eru að fara út í fyrirtækjarekstur á Íslandi ættu ekki að láta sig dreyma um að reyna að borga konum lægri laun og ætlast til sömu afkasta.


[1] Hér eftir Vefþjóðviljanum; andriki.is


Nöldur

Ég er maður margra ágætra kosta. Ég hef sérstaklega gaman af að nöldra. En ég nöldra ekki yfir hverju sem er, heldur þegar þörf er á að leggja áherslu á eitthvað sem miður er í mannlegri hegðan. Sérstaklega finnst mér mikilvægt að hífa upp raust mína og leggja áherslu á orð mín þegar fólki hættir til að gleyma því að það er til fleira fólk í heiminum en það sjálft. Það gerist oft! Fólk, eðli málsins samkvæmt, hugsar fyrst og fremst um eigin hag. Fólk er sjálfhyggið, eða sjálfhverft. Einhver kynni að segja, að þar sem ég sé mikill einstaklingshyggjusinni, hljóti ég að vera sjálfhverfur um leið. Það er vissulega rétt, en á því eru þó takmörk. Með sjálfhverfu minni má ég ekki, undir nokkrum kringumstæðum, ganga á rétt annarra til  að hugsa um eigin hag. Ég má einungis hugsa um eigin hag að því marki, að gjörðir mínar takmarki ekki rétt annarra til að gæta eigin hagsmuna.

Stundum liggur mér á. Það virðist einkenna nútíma samfélag, að fólki liggur almennt öll reiðinnar býsn á. Það þarf að komast hratt frá einum stað til annars. Annað fólk getur tafið för mína á þessari leið, en það er með öllu óheimilt. Það hefur ekki rétt á því að koma í veg fyrir að ég geti fullnægt mínum hagsmunum til hins ýtrasta, svo framarlega sem þeirra hagsmunir verði ekki fyrir skaða af á för minni.

Afhverju neyðist fólk til að standa í rúllustiga? Rúllustigi hreyfist ekki svo fólk geti stoppað, hvílt sig, spjallað saman, eða virt fyrir sér útsýnið eða annað forvitnilegt sem kann að bera fyrir augu. Rúllustigar hreyfast svo fólk færist hraðar milli hæða. Þetta virðast flestir Íslendingar eiga mjög bágt með að skilja þegar þeir eru staddir á sínu ástkæra föðurlandi, en birtist þeim svo ljóslifandi um leið og þeir hafa stigið fætinum út úr Boeing bumbunum, og á erlent yfirráðasvæði.[1] Íslendingar hafa nefnilega í gegnum aldirnar séð margt einstaklega sniðugt hjá öðrum þjóðum. Margt sem hefði jafnvel getað komið okkur til góða hér heima. Jafnan verður hinn týpíski Íslendingur upprifinn þegar hann sér eitthvað sér framandi erlendis. Hann er jafnvel mjög fljótur að tileinka sér nýjungina, enda eru Íslendingar einkar nýjungagjarnir að upplagi. En þegar tími er kominn til að koma sér heim á leið er tilvalið að skilja nýfundna nýjungina eftir, líkt og fólk sér hrætt við að tollverðirnir haldi að þeir séu með eiturlyf innvortis. Þetta á þó ekki við um hvers kyns tækninýjungar, enda er hinn dæmigerði Íslendingur einkar hrifinn af stöðunni sem gripur, innblásinn af nýjustu tækni og vísindum Sigurðar H. Richter, getur veitt honum í samfélagi við hina dæmigerðu Íslendingana.  

Íslendingnum dettur heldur ekki í hug að færa sig þó maður komi rösklega gangandi upp að honum í rúllustiganum og staðnæmist í tröppunni fyrir neðan hann. Hann lítur ekki einu sinni við, heldur einungis áfram í innihaldsríku samræðunum sem hann á við förunaut sinni. Og þegar maður biður hann um að afsaka sig, lítur hann á mann líkt og maður sé maðurinn sem átti í ástarsambandi við Florence Nightingale, sá sem saurgaði hina dýrðlegu mannveru, og veltir fyrir sér afhverju í andskotanum þessum gæti legið svona lífið á. Guess what! It´s none of your f%/$&%$ business!!! Hann færir sig að lokum með semingi og megnri ímugust, hægt!

Við sjáum svipaða hegðan í umferðinni. Það má helst enginn taka fram úr okkur. Við gerum hvað sem er til að hindra ökumanninn fyrir aftan okkur í að komast fram fyrir okkur. Það er gjörsamlega óþolandi. Ertu eitthvað tregur? Ég átti svo sem ekki von á að ég væri að skrifa fyrir einhverja mannvitsbrekku, en þú hlýtur að geta framfylgt einföldustu óskum hins dáða umferðarráðs, sem hefur það að markmiði að bæta umferðarmenningu okkar, færa nýjungarnar heim frá útlandinu. Eða biðja þeir okkur ekki um að keyra á hægri akrein ef meiningin er að halda okkur innan ramma laganna. Þú átt ekki að gerast laganna vörður og reyna að fá alla, sem vilja keyra hraðar, til að keyra á þínum hraða. Færðu þig yfir á hægri akreinina og leyfðu mér að komast fram hjá. Mér liggur á!

Að lokum langar mig að spyrja hvort ekki sé í lagi með fólk sem ræktar líkamann. Gleymir það að rækta hugann? Hættir blóðið að streyma upp í höfuð eftir æfingu? Hvað er málið með íþróttatöskur uppi á þeim fáu bekkjum sem eru í búningsklefum líkamsræktarstöðvanna? Er ekki augljóst hverjum þeim sem hefur gáfur á við amöbu að bekkir eru gerðir fyrir þá sem vilja tylla sér? Taskan þarf ekki á hvíld að halda. Taskan þarf heldur ekki að tylla sér niður til að auðvelda sér að komast í skóna. Burtu með æfingatöskur af bekkjunum.

[1] Auðvitað er þér velkomið að standa í rúllustiganum, en vinsamlega gerðu það þá hægra megin!


Um kostnað samfélagsins vegna háskólamenntunar

 

Í Fréttablaðinu í dag, þriðjudaginn 2. nóvember, birtist frétt um kostnað þjóðfélagsins vegna menntunar í háskólum landsins. Þar segir að kostnaður á hvern einstakling sé frá kr. 474.000 – 2.995.000 á ársgrundvelli, eftir því um hvaða nám ræðir. Þannig er B.A. gráða í félagsvísindum, s.s. mannfræði, lögfræði o.s.frv. ódýrust, en listnám virðist vera dýrast. Reyndar er kostnaður á hvern nemanda í listnámi mjög mismunandi, eða frá kr. 731.000 – 2.995.000.

Vegna núverandi efnahagsástands er ekki úr vegi að spyrja sig hvort ekki megi ná þessum kostnaði niður. Sátt hefur einkennt núverandi skipulag menntamála á Íslandi. Því má telja það óðs manns æði að ætla sér að varpa fram róttækum hugmyndum um þetta kerfi.

Menntun er gæði og gæði kosta fjármuni. Sátt hefur verið um það hingað til að ríkið greiði fyrir þessi gæði, þó svo að finna megi á því undantekningar. Nærtækast er að benda á að MBA nám við Háskóla Íslands, og nám í verkefnastjórnun við sama skóla, kostar umtalsvert meira en einungis skráningargjaldið. Mörgum hefur fundist þeir knúnir til að reka upp hávært kvein þegar skrifstofa skólans sér fram á að innritun nemenda er dýrari frá því árinu á undan. Fólki þykir algjörlega fráleitt að borga um kr. 50.000 á ári fyrir háskólanám hérlendis. Því þykir fráleitt að það borgi fyrir gæði sem það nýtir fyrir sig sjálft, en finnst hins vegar sjálfsagt að þjóðfélagið beri kostnaðinn. Afhverju á verkamaðurinn að borga fyrir nám þess sem hyggst leggja stund á lögfræði? Hagur verkamannsins hefur ekki vænkast, þó svo að háskóli útskrifi einn lögfræðing í viðbót. Hann þarf eftir sem áður að greiða fyrir þjónustu lögfræðingsins, þó svo hann hafi þá þegar greitt fyrir þekkingu hans. Hins vegar getur lögfræðingurinn haft umtalsvert hærri tekjur en verkamaðurinn, vegna þekkingarinnar sem verkamaðurinn tók þátt í að greiða fyrir.

Menntun nýtist fyrst og fremst einstaklingnum sem hana hlýtur. Engum dettur í hug að leggja á sig langt og strangt háskólanám, eingöngu vegna þess að samfélagið kunni á endanum að njóta góðs af menntun viðkomandi í framtíðinni. Ástæðan hlýtur að vera von um bætt kjör í framtíðinni, enda sýna rannsóknir fram á sterk, jákvæð tengsl milli menntunar og launa, þ.e. því meiri menntun í árum talið, því hærri laun. Aukin laun einstaklingsins leiða svo til hærri skattgreiðslna viðkomandi. Vissulega nýtur samfélagið aukinnar þekkingar einstaklinganna, en það er vegna þess að einstaklingurinn þarf að hafa eitthvað meira fram að færa en náungi sinn ef hann fer fram á stærri hluta launakökunnar. Hannes Hólmsteinn Gissurarson færir fyrir því rök, í bók sinni Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, að þeir sem hærri hafa launin, eigi að  greiða meira til samfélagsins, þar sem þeir njóta þjónustu þess í ríkari mæli.

Því þykir mér sjálfsagt að nemandi greiði fyrir menntun sína. Hugsanlega gæti verið um mótframlag frá ríkinu að ræða, en líta mætti á það sem hvatningu fyrir fólk til að afla sér þekkingar, samfélaginu til heilla. Þetta myndi fækka brottfalli úr greinum, því nemandi myndi síður velja sér fag ef hann væri þess ekki fullviss að það ætti við hann. Fólk myndi ekki skrá sig í skóla, nema það væri þess fullvisst að það væri það sem því langaði til að gera. Kostnaður samfélagsins er umtalsverður vegna þess að fólk ákveður eftir eitt ár að greinin sem það valdi sé ekki fyrir það, eða vegna þess að fólk stundar nám sitt ekki af festu.

Ljóst er að kostnaður Listaháskóla Íslands er mjög hár á hvern leiklistarnema, svo tekið sé dæmi. Ástæðan fyrir þessu er sú að mjög fáir nemendur eru á hvern kennara, en að jafnaði eru um 8 – 10 nemendur í bekk. Auk þess er einungis tekið inn í skólann annað hvert ár, en áður fyrr voru nemendur teknir inn árlega. Til að ná fram sparnaði mætti taka inn nemendur á hverju ári, líkt og var, auk þess að fjölga nemendum í bekk. Erlendis þekkist vel að a.m.k. 20 nemendur séu í bekk.

Það er algjörlega fráleitt að ríkið haldi uppi takmörkunum á fjölda útskrifaðra leiklistarnema. Afhverju er engin takmörkun á fjölda útskrifaðra mannfræðinga, eða ábyrgist einhver að vinna bíði þeirra frekar en leiklistarnemanna? Eða getur leikari ekkert annað gert en að leika? Er ekki möguleiki á að hann finni sér aðra vinnu, ef engin eftirspurn reynist eftir hæfileikum hans á fjölum leikhúsanna? Auk þess að ýta undir ógegnsæi og klíkuskap við val á nemendum í inntökuprófi, getum við ekki verið þess fullviss að við séum að útskrifa hæfileikaríkustu leikarana. Það hefur oft gerst að nemendum hefur verið vísað frá, sem svo komast inn síðar. Valnefndin gat ekki verið þess fullviss, að þessir umsækjendur myndu gera aðra tilraun.

Að jafnaði sækja margir um í leiklistardeildina, en að öllum líkindum myndi þeim fækka ef nemendum væri gert að greiða fyrir nám sitt að einhverju, eða öllu leyti sjálfir. Auk þess ætti að veita fleirum tækifæri til að reka leiklistardeild. Ef þeir sæju hag í því að hafa fáa nemendur í bekk, og þurfa þá að rukka hærri námsgjöld, væri þeim það í sjálfvald sett. Markaðurinn myndi styrkja hugmyndina, eða benda þeim á að fleiri nemendur í bekk væri betri hugmynd. 

Einhverjir kunna að mótmæla hugmyndum mínum á þá leið að verið sé að mismuna fólki eftir efnahag þess og stöðu. Þau rök eru fráleit. LÍN þjónar hlutverki sínu ágætlega, þó vissulega megi margt finna að störfum og/eða reglum stofnunarinnar. LÍN bæri þannig skylda að lána hverjum þeim sem hyggðist leggja stund á nám, fyrir námsgjöldunum. Ef nemandi vildi skipta um námsgrein þyrfti að sníða sérstakar reglur. Þannig mætti hugsa sér að það væri einungis leyfilegt einu sinni og eigi síðar áður en að annað ár í grunnnámi hæfist, ef nemandi ætlaði á annað borð að eiga rétt á láni.

Líklegt verður að teljast að fyrirtæki myndu vilja laða til sín hæfileikaríkustu nemendurna og myndu því bjóða þeim styrki, t.d. endurgreiðslu á hluta af námsgjöldum gegn því að einstaklingurinn myndi hefja störf hjá fyrirtækinu að námi loknu. Jafnframt mætti hugsa sér að ríkið gæti, með þessu kerfi, hvatt nemendur í ákveðnar greinar eftir þörfum. Það mætti gera með því að styrkja þann nemanda sem hæfi nám í því fagi. Nú er þannig komið að vöntun er á fólki með raunvísindamenntun á vinnumarkaði. Ef raunvísindamenntun væri ódýrari en önnur menntun, er ekki líklegra að við myndum útskrifa fleiri nemendur af því sviði?

Þegar ríkið leggur fram fjármuni og fjárfestir í nemanda sem ákveður að mennta sig er aldrei spurt hvort raunverulegur skortur sé á fólki með þessa eða hina menntunina. Með því að gera fólki að greiða fyrir menntun sína sjálft, þyrfti fólk um leið að spyrja sig hvort fjárfestingunni væri best borgið í náminu sem það hefði kosið sér. Það bæri á endanum skaðann, og væri ábyrgt, ef fjárfestingin reyndist ekki arðbær, þ.e. ef framtíðartekjur þess yrðu ekki í samræmi við væntingar. 

 


Svar við grein Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra.

Adam Smith, oft nefndur faðir hagfræðinnar, skrifaði tímamótaverk, Rannsóknir á eðli og orsökum auðlegðar þjóðanna, sem kom út árið 1776. Bókin felur í sér tvær meginhugmyndir sem deila á merkantílismann, eða kaupauðgisstefnu. Fyrri hugmyndin er, að eins gróði þurfi ekki alltaf að vera annars tap. Allir geti grætt á frjálsum viðskiptum, því að í þeim nýti þeir sér ólíka aðstöðu og hæfileika hver annars. Verkaskiptingin sé helsta orsök auðlegðar þjóðanna. Hin hugmyndin er, að atvinnulífið geti verið skipulegt án þess að þurfa að vera skipulagt. Sjálfstýring á markaði geti komið í stað miðstýringar, frjáls viðskipti í stað valdboðs. Þetta náttúrlega jafnvægi sem hér er lýst stýrist af lögmálum framboðs og eftirspurnar. Adam Smith lýsti þessu sem svo að það væri líkt og „ósýnileg hönd leiddi menn, sem væru að keppa að eigin hag, til þess að vinna jafnframt að almannahag, svo að samræmi gæti myndast í mannlegu samlífi“.[1]

Í grein í Fréttblaðinu þann 19. ágúst 2010, nefnir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, þrjár ástæður fyrir því að ekki megi einungis kenna hegðun bankaforkólfa og viðskiptajöfra um hvernig fór þegar kreppa skall á alþjóðlegum fjármálamörkuðum haustið 2008. Það sé „of einfalt og ódýrt að velta allri ábyr[g]ðinni þangað,“ segir Steingrímur í greininni. Hér er um algjöra rökvillu hjá ráðherranum að ræða. Gefum okkur að lausn á einhverju máli sé x og að vitað sé að x sé rétt lausn málsins. Gefum okkur að það sé til önnur lausn, x+x, en vitað sé að hún sé jafnframt vitlaus lausn málsins. Eigum við samt að gefa okkur að x+x sér rétta lausnin, vegna þess að lausn x sé of einföld og ódýr? Varla![2]

Steingrímur heldur því fram að orsakir kreppunnar megi rekja til hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar. Bendir hann á þrjú atriði, máli sínu til stuðnings. Fyrsta forsendan, sem ráðherrann telur að sé brostin vegna kreppunnar, er sú hugmynd að einkaaðilar reka fyrirtæki að jafnaði betur en ríkið og því sé þeim betur treystandi fyrir viðskiptarekstri. Er fjármálaráðherranum ekki ljóst, eins og öllum núlifandi mönnum, að kalda stríðinu lauk með sigri kapítalismans. Voru það ekki kommúnistaríkin sem þurftu að reisa múra til að halda þegnum sínum frá því að flýja til landa þar sem atvinnufrelsi var meira? Það er ófrávíkjanlega staðreynd að rekstri fyrirtækja er betur borgið í umsjá einkaaðila.

Önnur forsendan sem Steingrímur gefur sér að hafi brostið er sú hugmynd Adam Smith, um að til væri áðurnefnd ósýnileg hönd. Steingrímur hættir sér út á hála braut með þessari staðhæfingu, því segja má að kenningar Smith séu grundvallarkenningar innan hagfræðinnar. Að fjármálaráðherra Íslands skuli leyfa sér að bera á borð fyrir almenning að þær séu vitleysa, án þess að veita honum skýr svör um hvað koma eigi í staðinn, er með öllu óásættanlegt. Steingrímur er ekki fræðimaður á sviði hagvísinda og ætti að eftirláta vísindamönnum á því sviði um að hrekja  gamlar kenningar, ásamt smíði nýrra.

Hvernig er unnt að laða fram hugvit manna og hæfileika og nýta í almannaþágu? Svar Smiths er einfalt: Með frjálsri samkeppni á markaði. Setjum svo, að maður sé sérgóður, eigingjarn, jafnvel ágjarn, eins og við vitum, að margir eru. Að minnsta kosti gagnvart ókunnugu fólki. Ef slíkur maður þarf að keppa við aðra á markaðnum, þá hlýtur hann einmitt sérgæsku sinnar vegna að leggja sig allan fram um að afla viðskiptavina, og það getur hann aðeins með því að bjóða fram betri eða ódýrari vöru eða þjónustu en keppinautar hans. Hvort sem honum líkar betur eða verr, hlýtur hann að reyna að fullnæja þörfum samborgara sinna sem mest og best. Þannig virkjar samkeppnin ávinningsvonina í almannaþágu. Eins og Adam Smith orðar það, leiðir „ósýnileg hönd“ hann til að keppa að almenningsheill, þótt hann hafi aðeins ætlað sér að keppa að eigin hag.[3]

Ég hvet Steingrím eindregið til að taka upp pennann og skrifa eitthvað sem komið gæti í staðinn fyrir þessa kenningu, í staðinn fyrir að gaspra um að orðið hafi forsendubrestur, án þess að svo mikið sem skrifa einn bókstaf um kenningu sem komið gæti í staðinn.

Þriðja forsendan sem Steingrímur boðar okkur að hafi brostið er sú hugmynd frjálshyggjunnar að eftirlit eigi að vera í lágmarki. Það eru líklega fáir betur til þess fallnir að svara Steingrími, en Vefþjóðviljamenn. Á vef sínum, andriki.is, keppast þeir við að halda úti boðskap frjálshyggjunnar og segja okkur í raun og veru um hvað hún snýst. Þeir benda okkur jafnframt á, að á Íslandi hafi í raun ekki verið nein frjálshyggja, ólíkt því sem Steingrímur heldur fram:

Hér á landi ríkti ekki frjálshyggja, og það sem meira var, stjórnvöld sögðust hvorki vinna eftir henni né hafa í hyggju að koma henni á. Hér var hins vegar ekki kommúnískt alræðisríki heldur, fjarri því. Hér hefur undanfarin ár verið byggt á hefðbundnu blönduðu hagkerfi – og væri gaman að vita hvort þeir sem telja að nú þurfi að „byggja nýtt Ísland“ vilji í ljósi þess afnema blandað hagkerfi. Hitt er annað mál að síðustu tuttugu ár tæp voru ýmis opinber fyrirtæki einkavædd og ríkið lækkaði ýmis skatthlutföll á landsmenn og greiddi niður opinberar skuldir. Allt var það í rétta átt og framfaraspor. Hin einkavæddu ríkisfyrirtæki skiluðu gríðarlegu fé til hins opinbera eftir einkavæðingu, bæði með eigin sköttum en ekki síður með því að hafa mikinn fjölda hálaunamanna í vinnu og lána til framkvæmda.

Það hefur engin „frjálshyggja“ komið landinu eða neinum öðrum á kaldan klaka. Það er engin frjálshyggja í því að láta skattgreiðendur ábyrgjast erlend innlán í íslenskum bönkum. Ef hér hefði ríkt frjálshyggja þá hefði engin ríkisstjórn fengið að skuldbinda ríkið til að ábyrgjast stórfelld lán vegna sparireikninga íslensku bankanna erlendis. Íbúðalánasjóður ríkisins hefði ekki stundað æðisgengna keppni við einkabankana með þeim afleiðingum að hér varð til fasteignabóla. Ef hér hefði ríkt frjálshyggja hefðu ríkisútgjöldin ekki verið aukin með ótrúlegum hætti á síðustu árum – og má þar minnast að vinstriflokkanir töldu aldrei nóg að gert í neinum ríkisútgjöldum nema til lögreglunnar. Í þessu landi „nýfrjálshyggjunnar“ hefur opinberum starfsmönnum fjölgað ár frá ári, nýtt Íslandsmet verið sett í opinberum útgjöldum á hverju einasta ári, annar hver maður er í fæðingarorlofi á kostnað ríkisins lungann úr árinu og Íslendingar reka sendiráð í Nýju Delhi og Jóhannesarborg, svo dæmi séu tekin af handahófi.

Á fjármálamarkaði hafa gilt ýtarlegar og umfangsmiklar reglur hér í þessu landi nýfrjálshyggjunnar. Svo mikla áherslu lagði ríkið á eftirlit með fjármálamarkaðnum að árið 1998 bjó það til sérstaka stofnun, Fjármálaeftirlitið, til að fylgjast vandlega með honum. Að auki eru viðskiptaráðuneyti, viðskiptanefnd alþingis, samkeppnisstofnun, seðlabanki, neytendastofa, umboðsmaður neytenda og neytendasamtök á ríkisstyrk til að gæta hagsmuna almennings.[4]

Ekki má svo gleyma endurskoðendum bankanna, innri endurskoðendum þeirra, að ógleymdum þeim mikla fjölda sérfræðinga erlendra lánastofnanna sem rýndu í ársreikninga og önnur gögn, þegar meta átti hvort veita átti lán til þeirra. Til að fullkomna eftirlitið eru svo starfræktar hinar óskeikulu greiningadeildir fyrirtækja á borð við Standard & Poor´s, Fitch og hvað þær nú heita allar, sem hikuðu ekki við, eftir ýtarlega legu yfir Excel skjölunum sínum, að veita íslensku bönkunum 1. einkunn þegar kom að lánshæfismati. Og svo fullyrða menn að eftirlitið hafi ekki verið til staðar! Engu að síður er uppi hávær krafa í samfélaginu um að efla þurfi eftirlitið, svo við getum öll sofið vært, vitandi að ríkið muni breiða út faðminn þegar næsta fjármálastofnun fer í þrot. Ætli menn spyrji sig þá afhverju hið aukna eftirlit hafi brugðist?


[1] Hannes Hólmsteinn Gissurarson: Fiskar undir steini, Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og Háskólaútgáfan, Reykjavík 2001, 14. bls.

[2] Ég er þó ekki að halda því fram að ábyrgðin liggi öll hjá bankastarfsmönnum, eða stjórnendunum yfirhöfuð. Einungis að benda á að rökin sem hann gefur sér eru ekki rétt. Einföld lausn getur verið rétt lausn, en þarf ekki endilega að vera röng vegna þess að hún er einföld.

[3] Hannes Hólmsteinn Gissurarson: S.r. 27.-28. bls.

[4] Af vef andriki.is, Fimmtudagur 5. febrúar 2009, 36. tbl. 13. árg.


Gjaldmiðill I

Taktu upp fimm þúsund króna seðilinn þinn. Virtu hann vel fyrir þér. Ragnheiður var myndarkona. Dulúðlegt brosið heillar þig, líkt hún spyrji þig lokkandi í hvert skipti sem þú lítur í augu hennar; Hvað ætlastu til af mér nú? Þú hefur samt ekki hugmynd um afhverju hún var valin til að prýða þann seðil sem verðmætastur er. Og afhverju ætti þér ekki að vera sama? Það eina sem þú veist, er að hver fimm þúsund króna seðill verður verðminni með hverjum deginum sem líður. Þú þarft fleiri Ragnheiðar til að kaupa mat fjölskyldunnar í hverjum mánuði, fleiri til að greiða af lánunum þínum og fleiri til að gera hvað það sem þig yfir höfuð langar til að gera. En Ragnheiðum fer ekki fjölgandi í veskinu þínu um hver mánaðarmót.

Virtu seðilinn aftur fyrir þér og spurðu þig: Skiptir þessi seðill einhverju máli fyrir sjálfsmat mitt? Eykur hann þjóðerniskennd mína, vitund mína um það hver ég er eða, yfirhöfuð, skiptir hann einhverju máli um hversu mikill íslendingur ég raunverulega er? Og þú veist að svarið er nei! Það gildir einu hvernig þú greiðir fyrir vörurnar sem þig vanhagar um. Aukin heldur er gjaldmiðill í auknum mæli einungis táknmynd, peningamagn í umferð hefur minnkað mikið með aukinni kortanotkun.

Þú veist einnig að þessi seðill, eða það sem hann stendur fyrir og táknar; gjaldmiðilinn íslenska krónu, er deyjandi, jafnvel ónýtt hugtak. Þú ert hugsanlega ekki búin/n að sætta þig við að einhvern daginn þegar þig vanhagar um eitthvað, muntu aldrei líta frítt andlit Jóns Sigurðssonar framar, velta því fyrir þér hver þessi Brynjólfur Sveinsson var eða hafa eitthvað til þessa að minna þig á einn fremsta listamann sem landið hefur alið af sér, Jóhannes Kjarval (líkt og þess gerist þörf með peningaseðli). En ég fullvissa þig um eitt...þú kemst yfir það! Um Jón verður ennþá talað og hans minnst fyrir djörfung og hetjulega fullveldisbaráttu. Myndir Kjarval munu halda áfram að gleðja augu okkar, og Brynjólfur? Ja, hver var það?

Það er ekki við þig að sakast þó svo að eftirspurnin eftir því sem þú ásælist einna mest er hverful í alþjóðlegum heimi viðskiptanna. Ég er sannfærður um að þú leggur jafnhart að þér við að sjá þér og þínum farborða með sem sómasamlegustum hætti. Þú getur ekki lagt árar í bát þó svo að ódauðlegir menn reyni, eftir fremsta megni, að stjórna því hve miklum verðmætum þessi gjaldmiðill okkar stendur fyrir. Þú mátt ekki álasa þér fyrir hin ófullkomnu verðbólguráð, vaxtahækkanir, sem leiddu af sér (ó)eðlilega eftirspurn eftir henni Ragnheiði okkar. Eftir allt, þá var það ekki útlitið hennar sem heillaði. Tvær fyrri konur Gísla Þorlákssonar, sem jafnframt prýða seðilinn ásamt honum sjálfum, voru heldur ekki svo ófrýnilegar, að þær yllu vantrú á íslensku efnahagslífi.

Íslenska krónan veldur íslenskum almenningi búsifjum. Það er ekki vegna þess að hún er íslensk, heldur vegna þess að hún má sín lítils gegn óvægnu umhverfi alþjóðaviðskipta. Leiksviðs sem Ísland, hvort sem því líkar betur eða verr, er nauðbeygt til að koma fram á. Ástæðan er einföld, enginn er sjálfum sér nægur. Sér í lagi ekki þegar kemur að hámörkun lífsgæða. Frumkvöðull gæti að vísu tekið sig til og hafið framleiðslu á bílum. En kostnaðurinn væri himinhár, og afraksturinn óvissunni háður. Skynsamlegra er, að við einbeitum okkur að því sem við höfum vit á, veiðum fisk, þróum leiðir til nýtingar á orku og seljum hugvit.

En hvað er til ráða? Er skynsamlegt að halda sig við íslensku krónuna, eða getum við öll sammælst um að okkur beri að skipta henni út fyrir annan gjaldmiðil? Hvernig hafa önnur lönd háttinn á? Og ef við að lokum erum sammála um upptöku á öðrum gjaldmiðli, hvert ættum við helst að horfa? Er innganga í Evrópusambandið okkar eini valkostur? Er hugsanlegt að annar gjaldmiðill henti okkur betur? Gætum við tekið hann upp einhliða, eða þyrftum við að leita samstarfs? Þýddi upptaka annars gjaldmiðils missi á hluta af ákvörðunarrétti okkar? Og áfram mætti spyrja.

Og ég viðurkenni fúslega að ég kann ekki svörin. En eitt er ljóst. Vaxandi óánægju gætir meðal almennings vegna verðtryggingar, hárra vaxta og þeirrar skerðingar á kaupmætti sem krónan okkar veldur. Og vegna þessarar óánægju ættum við að leita svara við ofangreindum spurningum, ásamt fleirum, svo við getum verið þess fullviss að lífskjör á Íslandi séu ávallt meðal þeirra bestu í heimi. Að íslenskur almenningur þurfi ekki að þola flökt krónunnar, nema í þeirri vissu að slíkt sé hagkvæmara en upptaka á öðrum, stöðugri gjaldmiðli. Það er ekki eftir neinu að bíða. Hættum að skrifa óánægjugreinar, nema með rökfærslum fyrir öðrum og betri kostum.

Og að því sögðu, er ekki seinna vænna en að byrja og hefja leitina. Gangi þér vel.


Af sköttum og atvinnulífi

Guðmundur Örn Jónsson ritar grein á Pressunni sem nokkurs konar andsvar við grein Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um styrki fyrirtækja til stjórnmálaflokka. Þar heldur Guðmundur því fram að álögur ríkisins á atvinnulífið skipti ekki máli fyrir arðsemi þessi. Guðmundur slengir þessari staðhæfingu fram líkt og hún sé allur sannleikurinn í þessu máli og dettur ekki í hug að færa rök fyrir máli sínu. Hér skal hrekja staðhæfingu Guðmundar með nokkrum rökum.

Guðmundur virðist gleyma því að mörg fyrirtæki eru í alþjóðlegri samkeppni. Tökum dæmi af fyrirtæki sem framleiðir lyf á Íslandi. Skattar á fyrirtæki er nú 18%. Ef erlendur samkeppnisaðili fyrirtækisins starfar í hagstæðara skattaumhverfi, hlýtur það fyrirtæki að hafa samkeppnisforskot. Forskotið felst í meiri fjármunum til umráða, sem það getur nýtt til að skila til kröfuhafa, hvort sem um ræðir skuldunauta eða fjárfesta. Ennfremur getur fyrirtækið nýtt fjármagnið í fýsileg fjárfestingatækifæri.

Skattastefna stjórnvalda getur haft áhrif á verðlagningu fyrirtækja á markaði. Ef ósamræmi er á milli skattlagningar á arðgreiðslur og söluhagnaðar myndast annað verð á fyrirtæki, en þegar samræmi gætir þar á milli.

Tökum dæmi af tveimur fyrirtækjum sem eru jöfn að áhættu. Gefum okkur jafnframt að skattur á arðgreiðslur sé 40%, en skattur á arðgreiðslur sé helmingi lægri, eða 20%. Kennarar mínir í fjármálafræðum höfðu jafnan á orði hve illa þeim væri við skatta. Eðli málsins samkvæmt er okkur flestum illa við skatta, við viljum meira til handa okkur sjálfum. Undir framangreindum aðstæðum ætti fjárfestir því að borga hærra verð fyrir hlut í fyrirtæki sem greiðir lítið/ekkert út í arð til hans, en fá ávöxtunina frekar í formi hækkun á verði hlutabréfanna. Fyrir fjárfestinn felst skattalegt hagræði í lágum arðgreiðslum.[1]

Vísbendingar eru uppi um að skattar hafi haft áhrif á val bandarískra fjárfesta á hlutabréfum. Lágt skattlagðir fjárfestingasjóðir hafa þannig hneigst til að fjárfesta í fyrirtækjum sem greiða út háar arðgreiðslur, meðan einstaklingar, og aðrir sem eru hátt skattlagðir, hafa kosið fyrirtæki sem greiða jafnan út litlar arðgreiðslur. Þegar skattalögum í Ástralíu var breytt til að koma í veg fyrir íþyngjandi skattheimtu á arðgreiðslur árið 1987, jókst vilji fyrirtækja til að greiða út arð.

En það er annað veigameira atriði þar sem skattar geta með beinum og afgerandi hætti haft áhrif á verðmæti fyrirtækja á markaði, skattalegt hagræði sem felst í vaxtaberandi skuldum, hér nefnt skattaskjöldur (e. Interest tax shield). Markaðsvirði fyrirtækis eykst þannig eftir því sem fyrirtækið er meira skuldsett. Því hærri sem skattlagningin er, því meira virði er skattaskjöldurinn. Háir skattar eru því aukinn hvati fyrir fyrirtæki til að auka skuldir sínar. Vissulega felst áhætta í aukinni skuldasöfnun, en engu að síður er eitt af markmiðum fyrirtækja að hámarka virði þess, og þar með auð hluthafanna. Þar getur samsetning efnahagsreiknings fyrirtækisins skipt máli, líkt og bent hefur verið á.

Undanfarið hef ég rýnt í bók Hannesar, Áhrif Skattahækkana á Hagvöxt og Lífskjör, þar sem höfundurinn ber saman tvö lönd sem kosið hafa sitthvora greinina af sama stofninum, Svíþjóð og Bandaríkin. Sýnir Hannes fram á að Verg landsframleiðsla (VLF) Svía á hvern íbúa hefur jafnt og þétt dregist aftur úr því sem gerist í Bandaríkjunum. Ennfremur bendir Hannes á þá staðreynd, að ef Svíþjóð væri eitt af ríkjum Bandaríkjanna, væri það í hópi þeirra fátækustu (miðað við VLF), lífskjör væru örlitlu skárri en í Arkansas og Mississippi.

Í Svíþjóð er atvinnulífið staðnað, atvinnuleysi er verulegt og nánast öll störf, eftir 1950, hafa verið sköpuð af hinu opinbera. Ástæðan er einföld, að mati Hannesar; Skattar eru hærri þar en í nokkru öðru ríki sem telst velmegandi.

Að halda því fram að álögur á fyrirtæki skipti atvinnulífið engu máli, líkt og Guðmundur gerir, er því alrangt. Skattalegt umhverfi skiptir fyrirtæki miklu máli til lengri tíma. Ríki stunda það leynt og ljóst að bjóða fyrirtækjum hagstætt umhverfi fyrir þau að starfa í, með það að markmiði að auka hagvöxt og efla atvinnulífið. Það á líka vera eitt af háleitustu markmiðum stjórnvalda í hverju ríki fyrir sig. Það eru ekki einungis fyrirtæki sem standa frammi fyrir samkeppni, heldur þjóðir líka. Lokamarkmiðið er að hámarka velsæld og auð þegnanna.

 


[1] Lesa má nánar um þetta í bókinni Principles of Corporate Finance, e. Brealey; Myers og Allen (17. Kafli).


Skuldir íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja; svar við grein Ólafs Margeirssonar á Pressunni

Mörgum hefur orðið tíðrætt um slæma skuldastöðu íslensks sjávarútvegs. Nægir þar að nefna skýrslu Rannsókna- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri (RÞHA), sem kom út nú fyrir skömmu. Þar eru áhrif fyrningarleiðarinnar á íslensk sjávarútvegsfyrirtæki metin.

Ólafur Margeirsson birtir grein á Pressunni, þar sem hann bendir á leiðir fyrir ríkisstjórnina til að takmarka þau áhrif sem upptaka eigna í greininni hefði á íslenskt hagkerfi. Til að svara þessari grein er nauðsynlegt að kynna sér örlítið efnahagsreikninga íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja, ásamt skýrsluna sem Ólafur vitnar til.

Upplýsingar stærstu fyrirtækjanna eru ekki opinberar, ef frá er talinn ársreikningur HB Granda hf.[1] Glögglega kemur í ljós, við lestur ársreiknings HB Granda hf, að gengisvísitala íslensku krónunnar hefur engin áhrif á verðmæti kvótaeignar fyrirtækisins. Ástæðan fyrir því er að starfrækslugjaldmiðill fyrirtækisins er Evra. Ef fyrirtækið gerði upp í íslenskum krónum liti málið öðruvísi út. Þá gætu erlend lán hækkað og lækkað í bókum fyrirtækisins, eftir gengissveiflum krónunnar. Verðmæti kvótans stæði hins vegar í stað, þrátt fyrir aukið verðmæti í raun við gengisfall krónunnar, þ.e. framtíðartekjuflæði vegna kvótans eykst.[2] Af þessu leiðir að eignir geta orðið umtalsvert lægri en skuldir og eigið fé þar með neikvætt.

Líkt og fram kemur í skýrslu RÞHA, námu nettóskuldir (heildarskuldir að frádregnum veltufjármunum) íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja 892 millj. SDR, eða 87 ma. ISK árið 1997. Í árslok 2008 voru skuldirnar hins vegar 2.479 millj. SDR, eða 465 ma. ISK. Samhliða þessari hækkun á skuldum íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja, sökum gengishruns íslensku krónunnar, þurrkaðist eigið fé fyrirtækjanna út, var neikvætt sem nemur 318 millj. SDR árið 2008 en var jákvætt um 1.120 millj. SDR árið 2007. Skuldirnar eru hærri en eignirnar sem standa undir þeim. En er það í raun svo?

Tökum lítið dæmi til að skilja málið örlítið betur. Sjávarútvegsfyrirtækið X tekur lán árið 2006 til að kaupa kvóta. Lánið er 100 kr. í erlendri mynt. Árið 2009 er eignin sú sama, 100 kr., en lánið stendur í 200 kr. En þar með er bara hálf sagan sögð, því tekjur fyrirtækisins eru jafnframt í erlendum gjaldmiðlum, en því virðist Ólafur gleyma.

Ólafur bendir réttilega á að aflaheimildir eru í grundvallaratriðum líkt og hlutabréf, ávísun á vænt framtíðartekjuflæði.  En framtíðartekjuflæðið eykst samhliða hækkun skuldanna, þ.e. nær allar tekjur íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja eru í erlendum gjaldmiðli. Þær nægja því vel til að standa undir greiðslum á lánum til þeirra. Bókfært virði eignanna hækkar þó ekki, líkt og fram hefur komið, en við það verður eigið fé fyrirtækisins neikvætt. Það þýðir þó ekki að fyrirtækið geti ekki mætt framtíðarskuldbindingum sínum.

Jafnframt má benda á að nær flest útgjöld íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja eru í íslenskum krónum, s.s. kaup á kvóta, laun[3] og annar rekstrarkostnaður. Veiking krónunnar hefur því jákvæð áhrif á þessa liði, að því gefnu að verð á þeim hækki ekki sem sumpart er vissulega óraunhæft.

Ólafur bendir á að bankarnir geti ekki skuldfellt lán sín til sjávarútvegsfyrirtækjanna, vegna þess að við það færu bankarnir á hausinn. Sjávarútvegsfyrirtækin eru „kerfislega of mikilvæg“, líkt og hann bendir á. En hvaða hag hafa bankarnir af því, ef greiðslurnar skila sér á tilsettum tíma? Raunar verður að teljast harla ólíklegt að bankarnir færu á hausinn við þessa aðgerð, því ef kvótinn er veðsettur fyrir skuldunum verður að teljast líklegt að þeim tækist að fá sanngjarnt verð fyrir hann á markaði, sem og aðrar eignir. Jafnframt verður að hafa í huga að búið er að afskrifa skuldir bankanna verulega, líkt og margoft hefur komið fram.

Einnig kemur fram í skýrslu RÞHA að tvö félög (8-10%)[4] af 20 stærstu eru alveg skuldlaus, 30% (30-35%)þeirra eru í góðri stöðu, 45% (45-50%)eru í slæmri stöðu og 15% (8-12%) þeirra eru í vonlausri stöðu, þ.e. geta aldrei greitt upp skuldir sínar að mati höfunda. Slæm staða er að mati höfunda skýrslunnar þegar það tekur fyrirtæki 18,8 ár að greiða upp allar skuldir sínar.[5] Bankarnir hefðu því enga ástæðu til að gjaldfella lán til þeirra sem eiga rúm 90% heildarkvótans.

Ólafur segir jafnframt að ...íslensk stjórnvöld ættu (...) [að] snúa upp á hendur eigenda of skuldsettra sjávarútvegsfyrirtækja og neyða þá til að samþykkja ríkisaðstoð gegn eignarhlut í fyrirtækjunum sjálfum, einkum og sér í lagi til þess að styrkja bankakerfið. Jafnvel ætti hið opinbera einfaldlega að taka yfir tæknilega gjaldþrota sjávarútvegsfyrirtæki í heild sinni“.

Ólafur gleymir tvennu hér. Í fyrsta lagi á ríkið einungis einn banka, Landsbankann. Ríkið gæti því augljóslega ekki beitt áhrifum sínum nema í gegnum hann. Slíkt væri þó alls ekki réttlætanlegt, nema að því gefnu, að brýnir hagsmunir væru í húfi, þ.e. séð væri fram á að fyrirtækið gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Þá þyrfti ríkið augljóslega ekki að snúa upp á hendur neins, fyrirtækið væri einfaldlega tekið til gjaldþrotaskipta og skiptastjóri færi með eigur þess skv. lögum þar um. Ekki á að gera fyrirtæki gjaldþrota einungis vegna þess að ríkið hefur það á stefnuskrá sinni að eignast kvótann aftur til úthlutunar. Engin lagaleg sanngirni væri fólgin í slíkri aðgerð.

Og Ólafur heldur áfram:

Í stað þess að gefa of skuldugum sjávarútvegsfyrirtækjunum færi á því að endurbyggja efnahaginn hægt og bítandi með endurgreiðslu skulda, gæti hið opinbera nýtt áhrif sín innan bankakerfisins, rekið þau í gjaldþrot og látið bankakerfið taka þau yfir í örstuttan tíma. Samstundis ætti að stofna móðurfélag, 100% í eigu ríkisins, sem myndi kaupa viðkomandi gjaldþrota sjávarútvegsfyrirtæki af viðkomandi banka með litlum afföllum (ellegar færu bankarnir á hausinn). Móðurfélagið tæki þannig yfir eignir viðkomandi sjávarútvegsfyrirtækis og skuldbindingar. Gera mætti hið sama við öll sjávarútvegsfyrirtæki sem færu í gjaldþrot eða væru með neikvætt eigið fé; öll væru þau sett undir hatt móðurfélagsins.

Kostirnir af þessu fyrirkomulagi væru allnokkrir. Í fyrsta lagi yrðu áhættudrifin og illa rekin fyrirtæki ekki klippt úr snörunni heldur send beina leið í gjaldþrot – það væri hreinsað til. Það má hljóma hart en frumskógarlögmál frjáls og skilvirks markaðar virkar einfaldlega þannig; ef þú rekur fyrirtækið þitt illa þá endar þú gjaldþroti. Vandamálið er að láta ekki aðra verða gjaldþrota í massavís í kjölfarið vegna kerfislegs mikilvægis þess sem fór fyrstur á hausinn; einhver verður að stoppa dómínóáhrifin. Þar kemur venjulega til kasta hins opinbera á einhvern hátt. Rekstri viðkomandi fyrirtækja væri haldið áfram; þau héldu áfram veiðum, fáir misstu vinnuna og allt væri eðlilegt á yfirborðinu. Neikvæð ytri áhrif gjaldþrots stórs sjávarútvegsfyrirtækis væru þannig takmörkuð; þau yrðu einöngruð gjaldþrot og engin dómínóáhrif ættu sér stað.

Hér virðist Ólafur eitthvað misskilja hugtakið „frjáls og skilvirkur markaður.“ Ólafur vill að ríkið knýi sjávarútvegsfyrirtæki í þrot (þrátt fyrir að einungis 15% þeirra 20 stærstu séu í vonlausri stöðu) í gegnum bankana, sem það þó á ekki. Ríkið á ekki að skipta sér af því hverjir fara í þrot, það er eðli hins frjálsa markaðar! Ríkið á heldur ekki að eiga fyrirtæki, það er annað lögmál hins frjálsa markaðar. Ef til gjaldþrots kæmi gæti bankinn vissulega yfirtekið rekstur sjávarútvegsfyrirtækisins, en ekki í þeim tilgangi að selja reksturinn til ríkisins. Eða vill Ólafur hverfa aftur til þess tíma er ríkið átti hér allt? Hann vill hugsanlega taka upp áætlunarbúskap líkt og tíðkaðist í Sovétríkjunum sálugu? Bankinn gæti hins vegar ákveðið að reka fyrirtækið í einhvern tíma, meðan unnið væri að endurskipulagningu þess og selt það svo til hæstbjóðanda í opnu útboði. Það væri samkvæmt lögmáli hins frjálsa og skilvirka markaðar, sem Ólafi er svo annt um. Engin ástæða er til að knésetja fyrirtæki með neikvætt eigið fé, líkt og bent hefur verið á.

Ólafur heldur því fram að þegar sjávarútvegsfyrirtækin væru komin komin í faðm ríkisins væri áhættuleiðréttur eiginfjárgrunnur bankanna sterkari en áður. Rökin sem hann færir fyrir þessu eru einfaldlega þau að lánin væru ekki til einkaaðila, heldur til ríkissjóðs. Þetta er ekki rétt. Lánin eru til fyrirtækisins sem ætti sjávarútvegsfyrirtækin, móðurfélagsins sem Ólafur stingur upp á að verði stofnað, en ekki ríkissjóðs. Ríkissjóður er vissulega eigandi þess, en lánveitandi getur ekki gengið að því sem vísu að ríkissjóður komi hlaupandi með fullar hendur fjár ef halli verður á rekstrinum, sem ylli því að skuldari gæti ekki greitt af lánum sínum. Ef ríkissjóður ætlaði að veita slíka ábyrgð, þyrftu stjórnendur fyrirtækjanna litlar áhyggjur að hafa af rekstri þeirra, þeir myndu líklega bara sitja fundi með fínu bakkelsi og lítt sinna rekstri þeirra. Fræg dæmi eru til um slíkan íslenskan ríkisrekstur. Jafnframt væri samkeppnisstaða einkarekinna fyrirtækja verulega skekkt, þ.e. þau fengju augljóslega ekki jafn hagstæð lán og þau ríkisreknu.

[Þ]essi aðgerð [þyrfti] alls ekki að vera svo kostnaðarsöm fyrir ríkissjóð. Kaupa mætti fyrirtækin af bönkunum með langtíma ríkisskuldabréfi sem ekki væri of íþyngjandi fyrir greiðslugetu hins opinbera nú þegar síst má við því. Ekki þyrfti skuldabréfið að vera hátt heldur því nettó virði gjaldþrota fyrirtækja er neikvætt. Eina sem þyrfti að passa væri að núvirði skuldabréfsins væri nægilega hátt til þess að eiginfjárgrunnur bankanna tæki ekki á sig of mikið högg. Ekki þyrfti heldur marga milljarða stofnfjárframlag frá ríkinu til að mynda eiginfjárgrunn móðurfélagsins sem nægilegur væri til þess að halda því gangandi þótt dótturfélögin væru of skuldsett.

Skuldabréfið þyrfti ekki að vera hátt, en samt nægilega hátt! Ætlar Ólafur veljar vexti með því að stinga fingri upp í loftið þegar hann núvirðir bréfið? Ætlar hann ekki að taka mið af núvirtu framtíðarfjárstreymi þegar hann metur virði kvótans við sölu hans til ríkisins? Er það ekki eðlileg krafa þess sem selur að hann fái sem hæst verð fyrir eignir sínar, svo þær standi undir þeim kröfum sem eignirnar voru upphaflega veðsettar fyrir? Maður skyldi ætla að það væri krafa eigenda nýju bankanna, en Ólafur gleymir því auðvitað að ríkið er í minnihluta þegar að því kemur.

Raunar mætti móðurfélagið vera með mjög lágt eiginfjárhlutfall án þess að það ylli vandræðum. Allt sem þyrfti væri tími. Tekjur af sjávarútvegi í framtíðinni eru vafalaust nægilegar til þess að dótturfyrirtækin gætu, á nokkrum árum, rétt efnahagsreikning sinn af og þar með móðurfélagsins – sérstaklega þegar skuldasöfnun vegna aflakaupa væri hætt.

En það má ekki gefa raunverulegum eigendum fyrirtækjanna þennan tíma? Jafnvel þó framtíðartekjur af sjávarútvegi séu nægar til að rétta efnahagsreikninginn við? Og er líklegt að ríkið sé betur til þess fallið að reka fyrirtækin, heldur en eigendur þeirra nú?

Ólafi finnst sú krafa eðlileg, og að aðferð sín verði til þess, „...að tekjur af sameiginlegri eign þjóðarinnar, auðlindum hafsins í kringum landið, endi í raun og reynd hjá þjóðinni en ekki örfáum útvöldum einstaklingum“. Ég hef áður fært fyrir því rök afhverju kvótinn ætti að vera í einkaeigu. Það hafa margir fleiri gert, og óþarfi er að tíunda þau hér. En helst má þó nefna að með kvótakerfinu er sjávarútvegurinn arðbær og skilar tekjunum af þessari sameiginlegu eigu okkar í formi skatttekna til ríkisins. Jafnframt má benda á að mörg þessara fyrirtækja eru hlutafélög, og almenningur er meðal eigenda, m.a. í gegnum lífeyrissjóði.

Ólafur heldur því jafnframt fram að nokkrir litlir einkaaðilar, sem væru eftir á veiðum, myndu veita „...pólitískt aðhald í formi arðseminnar sem væri af þeirra rekstri...“[.] Hingað til hefur það jafnan þótt slæmt ef ríkið er í samkeppni við einkaaðila, en Ólafur gleymir alveg að minnast á það. Ólafur telur að það væri jafnframt „...merki um hið hefðbundna hagsmunapot og vannýtingu aðfanga í ríkisrekstri ef rekstur móðurfélagsins, 100% í eigu ríkisins, væri lakari en einkaaðila sem samkvæmt hagfræðinni hámarka alltaf nýtingu sinna aðfanga“. Má þá spyrja Ólaf á móti afhverju ríkisrekstur hefur hingað til ekki þótt vænlegur til að hámarka arðsemi, og hví íslenska ríkið seldi nær allar eigur sínar á 10. áratug síðustu aldar, og á 1. áratug á þeirri núverandi? Þarf eitthvað að reyna að færa frekari sönnur fyrir því að ríkið kann illa við sig í fyrirtækjarekstri? Engu máli skiptir þó litlir aðilar eigi að veita aðhald á markaði. Samkeppnisstaða þeirra verður alltaf skert, enginn þarf að velkjast í vafa um það.

Í lok greinar sinnar bendir Ólafur svo á mikilvægi þess að menn hámarki „...nyt þjóðarinnar í heild af auðlindunum sem hún hefur yfir að ráða“. Þar gæti ég ekki verið meira sammála honum, en okkur greinir augljóslega á um leiðirnar að því marki, því hann vill eðlilega „...aðkomu hins opinbera þegar einstaklingurinn ræður ekki við verkefnið eða brýtur reglur samfélagsins...“ [.] Aðkoma hins opinbera er með öllu óþörf, íslenskur sjávarútvegur skilar eigendum sínum og samfélaginu öllu miklum arði, og það er ekki síst því kerfi  að þakka sem við búum við nú í sjávarútvegi, kvótakerfinu. Á hinn bóginn eru skuldirnar háar, og reksturinn er vissulega þungur hjá sumum sjávarútvegsfyrirtækjunum. Þau eru ekki ónæm fyrir þeirri kreppu sem nú ríður yfir hinn vestræna heima, frekar en önnur fyrirtæki hér á landi.


[1] Leitað var að ársreikningum þriggja stærstu fyrirtækjanna í greininni, HB Granda hf, Samherja hf og Ísfélags Vestmannaeyja hf. 

[2] Þannig mætti hugsanlega leiða að því rök að kvótinn væri rangt skráður í bókum fyrirtækisins, sérstaklega ef hann sætti virðisrýrnunarprófi, enda um óefnislega eign að ræða. Virðisrýrnunarprófið byggir á núvirðingu sjóðsflæðis en ef eignin hefur sjálfstætt markaðsvirði þá gildir það í staðinn til að meta hvort virðisrýrnun hefur farið fram. Sterk rök hníga samt að því að núvirðing sjóðsflæðis ætti hér betur við.

[3] Laun sjómanna eru reiknuð miðað við verðmæti afla, svo þetta á augljóslega ekki við um þau.

[4] Áætlað hlutfall kvóta miðað við allan sjávarútveginn.

[5] Margir hafa bent á slæma stöðu Landsvirkjunnar, en það tæki fyrirtækið um 12 ár að greiða upp allar sínar skuldir, miðað við að ekkert yrði fjárfest. Stefán Svavarsson, endurskoðandi, segir allt tal um slæma skuldastöðu fyrirtækisins vera þvætting, hann telji það frábært fyrirtæki sem gæti greitt upp allar sínar skuldir á svo skömmum tíma.


Niðurstöður kosninganna í Reykjavík

Til hamingju Reykjavík með góða kosningu Besta flokksins, það er nokkuð ljóst að 34,7% Reykvíkinga eru Best[1]

„Eða virkilega vitlaus“ hugsaði ég með mér. Þessi niðurstaða kosninganna er eitt stórt „fuck you“ á hið ráðandi kerfi. Og ég get ekki varist þeirri hugsun, að hugsanlega kemur maður til með að setjast í borgarstjórastólinn sem hefur aldrei komið nálægt stjórnmálum, hefur ekki hundsvit á því að reka fyrirtæki, hvað þá heila borg. Ég er hræddur við þá óvissu sem framundan er. Eina hugmyndin sem hann hafði um auknar tekjur var að setja á stofn hvítflibba fangelsi. Hann skilur ekki einu sinni skiptingu verka milli ríkis og sveitastjórnar. En hann ætlar að nýta sér sérfræðingana til að leiðbeina sér.  Til hvers erum við þá eiginlega að kjósa fólk til að stjórna? Til að fá greitt fyrir að nýta sér sérfræðikunnáttu starfsmanna borgarinnar, til að taka ákvarðanir sem það hefði annars ekki nokkra þekkingu til að taka? Getum við þá ekki bara látið sérfræðingunum málið eftir og sleppt því að kjósa? Ef Reykjavík væri fyrirtækið okkar, og við ættum að ráða hæfasta einstaklinginn til starfans, tókst okkur þá vel til?

Það er algjörlega fráleitt í mínum huga að Hanna Birna láti Jóni Gnarr borgarstjórastólinn eftir. Hún hefur verið farsæll borgarstjóri, og kannanir sýndu að flestir vildu að hún héldi áfram sem borgarstjóri eftir kosningar.

Það kæmir mér verulega á óvart ef Dagur B. Eggertsson myndi starfa með Jóni sem borgarstjóra. Dagur ætlar sér stóra hluti og er varaformaður síns flokks. Hann varð borgarstjóri, þegar Samfylking, VG, Framsókn og Frjálslyndir mynduðu meirihluta og er líklega ekki tilbúinn að gefa forystuhlutverk sitt eftir svo glatt. Dagur gerði hins vegar regin mistök þegar hann lýsti því yfir að hann myndi helst ekki vilja vinna með Sjálfstæðisflokknum. Hann getur ekki gengið á bak þeirra orða. Hann hefur líklega ekki séð fyrir sér að Besti flokkurinn fengi þetta gríðarlega fylgi upp úr kössunum, sem svo raunin varð.

Þá er enginn eftir nema Sóley Tómasdóttir, oddviti VG. En eins og Jón Valur Gestsson, bloggari, bendir á, þá fer ekki mikið fyrir mannkostunum:

...hún er of heilög að eigin áliti til að vinna með Sjálfstæðisflokknum; en aðferðirnar til að ná völdum í flokki sínum voru engu heilagari en hjá ýmsum öðrum framapoturum. Hún f(é)kk fólk, m.a. "hlutlausan" álitsspeking, Silju Báru Ómarsdóttur, til að fara með atkvæðaseðla heim til annarra í öfgahreyfingunni, jafnvel þótt aðrir frambjóðendur teldu slíkt ólöglegt, og hún skrifaði meðmæli með sjálfri sér, sem yfirlýsingu frá Femínistafélaginu, og bað ráðandi konur þar að birta hana ... bara ekki upplýsa um, að textinn væri hennar sjálfrar!

Ljóst er að Besti flokkurinn fékk mikið af atkvæðum sínum frá VG. Miðað við það hlýtur einhver samhljómur að vera hjá kjósendum þessara flokka. Þeir eru því örugglega virkilega sáttir með grínista og öfgafullan femínista, holdgerving Bjarnfreðar, við stjórnvölin hjá Reykjaíkurborg.

Verði okkur öllum að góðu!

[1] Jón Ágúst Guðmundsson (Smettisskruddustaða)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband